22°C og hálfskýjað.
Hádegismaturinn var quiche með skinku, ágætismatur en fengum smá brjóstsviða af honum.
Héldum út fyrir Grenoble og komum eftir smá akstur að Chartreuse-klaustrinu, reyndar safni þess. Chartreuse-klaustursreglan er ein sú stærsta í heiminum víst, og í safninu fengum við að sjá sögu hennar og upplýsingar um nunnur þess og munka.
Aðalklaustur reglunnar er rúmlega kílómeter fyrir ofan safnið, og almenningur má aðeins fara þangað fótgangandi. Við töltum því upp nokkuð bratta brekkuna að klaustrinu, þar er almenningi hins vegar bannaður aðgangur og eftir stutt stopp þar héldum við því aftur til baka.
Chartreuse-munkarnir hafa víst bruggað elixír síðan á 15. öld eða svo, og við héldum því til bæjarins Voiron í nágrenninu þar sem brugghús þeirra er staðsett. Klukkan var hins vegar orðin það mikið þegar að við komum þangað að við gátum ekki tekið túr um það.
Kvöldmaturinn var nú í boði okkar, við héldum á veitingastaðinn Rustique Auberge sem að við Sigurrós höfðum farið á áður, hún reyndar nokkuð oftar. Fyrir 10.000 krónur fengum við þríréttaðan veislumat og fínt rauðvín með. Eitthvað hefði þetta kostað mun meira hér heima.
Þegar heim var komið bauð Jean okkur upp á þennan elixír munkanna, hann átti víst flösku með honum, og reyndist þetta vera eitthvað það versta áfengi sem ég hef smakkað, nokkurs konar furunálavodki. Það eru víst um 100 mismunandi plöntur notaðar í þennan drykk, en ég hef sterkan grun um að furunálar séu mikill meirihluti hráefnis.
Því næst kvöddum við Zouzsu, hún þurfti að vakna snemma til vinnu næsta morgun og þar sem þetta var síðasta nóttin okkar myndum við ekki hitta hana aftur í bráð.
Ég kláraði svo Blue Mars, síðustu bókina í Mars-trílógíunni fyrir háttinn.