Sól og 23°C hiti og nú var lagt í mikið ferðalag. Fyrst var þó borðaður hádegismatur, sem nú var brokkólíréttur, ekki alveg uppáhaldsgrænmetið mitt en ég náði nú að fá einhverja næringu.
Svo var haldið í átt að Járnkrossskarði sem er í næstu sýslu. Á langri leiðinni fórum við fram hjá miklum stífllum sem að voru í gríðarlöngum dal, merkilegast fannst mér þó að sjá hús í 45°halla á nibbum sem að ég hefði aldrei byggt sjálfur á. Þorp voru á víð og dreif í dalnum, og tré út um allt að sjálfsögðu, sást ekki í grjót neins staðar.
Undir lokin fóru fjöllin aðeins að breyta um svip, um leið og við vorum komin í Savoie-sýslu urðu fjöllin íslenskari, mosi tók við í stað trjánna og mér leið eins og heima. Brátt komum við að stað þar sem að sést í Mont Blanc í gegnum mikinn dal, gaman að sjá fjallið þó að það væri í nokkurra kílómetra fjarlægð. Þarna voru svo nokkrir fallhlífasvifmenn, sem hoppuðu fram af fjallsbjörgum og létu sig svífa í uppstreyminu.
Smá spotta frá komum við svo að áfangastað, Járnkrossskarði (??) hvar við sáum vel yfir mikinn dal og svo byrjun Alpanna handan við hann. Mjög flott útsýni, og þarna komin í 2 km hæð. Ég og Jean skruppum í smá göngutúr niður að nokkrum litlum vötnum sem voru fyrir neðan skarðið, og eitthvað varð maður andstuttur í þessari hæð af áreynslunni. Í Járnkrossskarðsskála (íslenskan er frábær!) fengum við okkur svo heitan kakóbolla áður en haldið var heim á leið.
Þegar heim var komið eftir þessa vel heppnuðu ferð ætluðum við Sigurrós í sundlaugina í Jarrie, en hættum við að ráði Jean.
Kláraði Green Mars.