Author Archives: Jóhannes Birgir

Lögreglan virðingarverð?

Ojbara The joke’s on you.

Kastljós var í síðustu viku með umfjöllun um lögregluna, meðal þess sem var rætt þar var vaxandi virðingarleysi fyrir lögreglunni. Á meðan að lögreglan er notuð sem pólitískt tæki af stjórnvöldum, eins og var með Falun Gong málið alræmda og svipuð mál sem hafa komið upp, þá held ég að lögreglan muni áfram missa virðingu og vinsemd borgarana.

Lögreglan á ekki að vera leiksoppur ráðamanna sem vilja bjóða hingað fjöldamorðingjum og reisa Pótemkín-tjöld handa þeim. Þegar hún hættir að vera það þá loksins mun hún fara að njóta sannmælis fyrir hin störf sín, þau sem henni er ætlað að gera og gerir vel.

Svartnætti

Í dag hvarf rafmagnið tvisvar og flökti oftar hérna í Smárahverfinu og að mér sýndist stærsta hluta Garðabæjar.

Það var því nægur tími til að lesa söguna Something New eftir P.G. Wodehouse. Farsi með rómantísku ívafi (hann var mikið fyrir það virðist vera). 

Naglasúpa

Bækur

Áfram held ég að vaða í gegnum þann hluta ritsafns P.G. Wodehouse sem er ekki lengur bundinn útgáfurétti. Fyrst er það Love Me, Love My Dog sem er rómantísk smásaga, því næst rómantíska skáldsagan The Intrusion of Jimmy og að lokum smásagan William Tell told again, þar sem Wodehouse kemur með sína útgáfu á goðsögninni bakvið frelsisbaráttu Svisslendinga. 

Tenglar

Fréttin Man, 33, seeks puberty segir frá lækni sem er nú í hormómameðferð til að komast á kynþroskaskeiðið… varla testesterón að finna í honum og því fullorðnaðist líkaminn ekki.

Greinin ‘Narnia represents everything that is most hateful about religion’ rífur Narníu-ævintýrið í sig fyrir aristókrata-kristnina sem er boðuð þar.

Að lokum fréttin um strætisvagnastjórann í Wales sem ekur og gengur um með jólatré á hausnum Festive hair is a cut above rest.

Þáttaröðin

Við hjónin erum að vinna í myndbandi fyrir vini okkar sem klárast vonandi fyrir jól. Það er þó ekki jafn metnaðarfullt og Star Trek-áhugafólkið sem er að gera sína eigin þætti sem vantaði þegar fyrsta þáttaröðin hætti fyrir tímann: New Voyage serían.

Ég er annars hoppandi kátur þessa dagana með leturgerðina Cardo sem mun reynast óviðjafnanleg fyrir fræðilega texta. Margir skemmtilegir stafir þar sem fornir textar nota en eru horfnir í nútímaskrifum.

250.000 skopparaboltar

Ég tók eftir auglýsingu frá Sony um daginn, í styttri útgáfu, þar sem tugþúsundir skopparabolta hoppa um í San Fransisco. Velti því fyrir mér hvort þetta væri tölvugert eða í alvörunni.

Fann myndband í dag þar sem þeir sýna frá gerð auglýsingarinnar. Þetta virðist hafa verið mikið fjör!

Sjá nánar: 

Andlitsskipti

Fyrsta andlitsskiptaaðgerðin fór fram nú um daginn, sjá frétt Scotsman: First face transplant sparks outcry.

Fórum annars í dag og festum kaup á sígrænu jólatréi frá Skátunum. Litla ljósleiðaratréð er enn vel séð en það vantaði bara eitthvað umtalsvert stærra. 

Sexföld Njála, tvöfalt afmæli

Í dag setti ég af stað prófarkalestur á Njálu á 6 tungumálum, íslensku, norsku, sænsku, frönsku, ensku og þýsku. Hægt er að komast í það á DP-Evrópu og leggja sitt af mörkunum þar.

Í kvöld fórum við svo í kaffiboð hjá pabba og svo hjá mömmu enda eiga þau bæði afmæli í dag. 

Einstrengingsháttur

Forsetafrú Úganda ætlar núna á þing og hefur tilkynnt framboð sitt. Heyrði einmitt í henni á föstudagskvöldið síðasta á BBC þar sem hún prédikaði yfir ungmennum að smokkanotkun væri jafngild þjófnaði og morði, allt þetta sýndi skort á sjálfstjórn. Hennar lausn við eyðnivandanum sem er að kafsigla Úganda er skírlífi þar til eftir brúðkaupsdaginn. Bandaríkjastjórn mokar peningunum í þann málstað.

Hún bætti reyndar um betur og sagði að það væri hennar staðfasta trú að eyðni væri refsing frá guði og þeir sem fengju hana ættu það skilið.

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru þeir ekki mikið betri. Þar handtóku þeir 11 pör samkynhneigðra sem voru að gifta sig. Þeir verða líklega skikkaðir í hormónameðferð til að "laga" þá auk fangelsis og hýðingar.

Lúxussmábörn

Fórum í gær á Harry Potter og eldbikarinn. Völdum okkur lúxussal til þess að gera vel við okkur og til að sleppa við barnaskarann.

Það var hins vegar ekki betri áætlun en það að ein fimm ára stúlka var þarna, sem og ein átta ára stelpa og níu ára strákur eða svo.

Aldurstakmark í Lúxussal Sambíóanna er auglýst 16 ára, myndin sjálf er bönnuð innan 12 ára en aðspurðir sögðu foreldrar að miðasölustúlkur hefðu sagt þetta vera í lagi þar sem hún væri í fylgd fullorðinna, og miðavörslustrákarnir sögðu hið sama þegar ég spurði þá.

Þetta eru arfavitlausir viðskiptahættir og þjónustan er auglýst á fölskum forsendum þegar sagt er að 16 ára aldurstakmark er í salinn. Einnig kallað svik.

Hvað hátterni foreldranna varðar, að fara með smábarn á mynd með óhuggulegum atriðum, læt ég eftir sálfræðingum landsins. 

Mamma Raymonds

Aðdáendur Raymond ættu ekki að missa af "mömmu" hans í þessari mynd.

Tveir ólíkir menn létust síðustu klukkutímana.

George Best var náttúrubarn í knattspyrnu en drakk sig ekki bara í hel tvisvar (lifrarígræðsla gaf honum tækifæri á að gera það aftur) heldur sóaði hæfileikunum eftir aðeins 10 ára feril.

Pat Morita var hins vegar leikari sem vann sig upp úr miklum veikindum sem barn (sem útskýra að stórum hluta til smæð hans) og í hjörtu áhorfenda, einkum sem karatekennarinn Miyagi.