Monthly Archives: November 2004

Uncategorized

Laun unglækna

Bjarni Þór Eyvindsson, fyrrverandi formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi og fyrrum skólafélagi, er núverandi formaður unglækna. Hann var að barma sér yfir því að fyrsti launatékki unglækna verði lægri en fyrsti launatékki kennara EF kröfur kennara nást fram. Það sem Bjarni Þór minnist hins vegar ekki á er hversu hratt læknirinn hækkar í launum og að kennarar hækka á snigilshraða þannig að eftir ekki mjög marga launatékka er læknirinn kominn með meiri laun og eftir nokkuð fleiri launatékka, rúmlega tvöföld laun kennarans sem útskrifaðist á sama tíma. Enn fremur er augljóst að læknar eru margir að taka á sig yfirvinnu sem kennarar geta ekki þó þeir vildu, þannig er kerfið. Tekjumöguleikar eru því mun betri hjá læknum.

Í mínum huga eru nokkrar stéttir sem eru það nauðsynlegar samfélaginu að þær eiga að vera á topplaunum, þetta er starfsfólk í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Án menntunar, og án heilsu, þá er maður bara hálfur maður og varla það.

Mér fannst þetta frekar ódýrt skot hjá drengnum enda var það gripið af talsmönnum sveitarfélaga sem merki um heimtufrekju kennara. Læknar eiga auðvitað að fá góð laun og málið er, að þeir fá það.

Unglæknar hins vegar fara heldur illa út úr þessu, fyrir utan þennan 205 þúsund kall þá eru þeir á tvö- og stundum þreföldum vöktum. Mér líður ekkert allt of vel að fara á slysadeild og vita það að unglæknirinn sem er að sinna mér er búinn að vera að vinna í 18 tíma og á 6 tíma eftir. Þetta er hvorki hollt fyrir lækninn né sjúklingana. Þetta þarf að laga líka og ég held að þjóðfélagslega sé það mikilvægara mál en fyrsti launaseðillinn (sem mætti vera hærri reyndar).

Bjarni Þór kom sér þarna í mjúkinn hjá mörgum, spennandi að sjá framhaldið eftir þetta ódýra og þrönga útspil. Unglæknar þurfa bara að hafa sama kjark í kjarasamningum og kennarar, en ekki hanga utan á þeim og segja “við viljum meira en þeir”. Kennarar hafa sýnt að þeim er fúlasta alvara, unglæknar þurfa að gera það sama.

Flestir kennarar óska unglæknum vel í þeirra kjarabaráttu.

Uncategorized

Sex Change Capital

Var að flakka um Breiðbandið í gær og rakst á stöð sem er nýlega komin inn, Reality TV.

Þar var þátturinn Sex Change Capital sem er smábær í bandaríska Vestrinu þar sem flestar kynskiptaaðgerðir fara fram. Merkilegur þáttur, greinilega umtalsverður fjöldi af fólki sem fer í þessar aðgerðir, fleiri en ég bjóst við.

Uncategorized

Uglurnar

Uglurnar unnu loks um helgina eftir slappt gengi. Eru um miðja deild og verða líklega áfram.

Grein í Guardian um erfiða stöðu þeirra. Lazio tapaði í vikunni en Lyon halda haus í Frakklandi.

Kennaraverkfall heldur áfram, voðalega er þessi Birgir Björn falskur gaur, “við erum til í allt en það þarf tvo til” segir hann eftir ótrúlegustu útspil sveitarfélaganna í þessari deilu.

Fékk svo næstum hikstakast í dag þegar Halldór Ásgrímsson sagði að Össur Skarphéðinsson skildi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins. Halldór er nefnilega bæði í framkvæmda- og löggjafarvaldinu og því sjálfur lítt að fara eftir því.

Uncategorized

Stolið aftur?

Evidence Mounts That The Vote May Have Been Hacked

Uncategorized

Rétturinn til að kvarta?

Par í Bandaríkjunum var ekki ánægt með hvernig húðunin á húsinu þeirra tókst og settu því upp vef þar sem þau kvörtuðu undan vörunni sem var notuð.

Fyrirtækið sem framleiðir vöruna hefur farið í meiðyrðamál á móti. Niðurstaðan ætti að staðfesta hvernig dómstólar í Bandaríkjunum túlka “freedom of speach”, hvort sem það verður gegn eða með kvörtunarvefnum.

Uncategorized

Í skralli

Blessaðir Bandaríkjamennirnir geta ekki haldið kosningar án þess að klúðra þeim. Bush fékk til dæmis talin 6 sinnum fleiri atkvæði en voru greidd hérna.

Franklin County’s unofficial results had Bush receiving 4,258 votes to Democrat John Kerry’s 260 votes in a precinct in Gahanna. Records show only 638 voters cast ballots in that precinct.

Það má samt skemmta sér í þessum leik, að launum fær maður að heyra ýmis “gullkorn” frá þessum ofsalega staðfasta og trega manni.

Uncategorized

Dabbi og Dóri brillera enn

Halldór Ásgrímsson, fyrrum utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, var greinilega ekki alveg á tánum í starfi sínu. Haft eftir honum í Fréttablaðinu að kosturinn við Bush sé að hann sé svo dyggur stuðningsmaður frjálsrar verslunar. Einhver ætti að segja Dóra frá viðskiptahöftunum sem Bush hefur unnið í og verndartollum. Dóri hefur panikkað og bullað einhverju þegar spurt var hvers vegna hann væri ánægður með Bush. Fátt nýtt þar.

Davíð er líka hæstánægður, vonast til að varnarliðið hangi enn hérna eftir þetta. Raddir vestra eru ekki sammála því.

Svo tala þeir um afgerandi sigur, þetta er samt naumasti sigur sitjandi forseta í Bandaríkjunum síðan 1916. Allt tal um fjölda atkvæða er ennþá hlægilegt, auðvitað fjölgar atkvæðum með vaxandi fjölda íbúa. Kerry fékk fleiri atkvæði en Reagan.

Sá í kvöld myndband frá loftárás Bandaríkjamanna á vegfarendur í Fallujah í Írak. Reyni að smella því á netið á morgun. Sýnir hvers konar vitleysingar eru þarna.

Uncategorized

Leið 1, 2 eða 3

Þá er það ljóst að 53% kjörsókn í Bandaríkjunum er sú mesta í seinni tíð. Af þeim kusu 51% (rétt rúm 25% kosningabærra Bandaríkjamanna) að halda Bush yngri að völdum í 4 ár í viðbót.

Aðdáendur hans hamra nú á því að aldrei fyrr hafi forseti fengið jafn mörg (heildarfjöldi, ekki %) atkvæði. Það skyldi þó ekki vera tengt því að fólksfjöldi þar hafi aukist líkt og í öðrum löndum? Það er erfitt að fá 100 milljón atkvæði þegar bara 100 milljónir hafa kosningarétt.

Ástandið í heiminum getur batnað, versnað eða staðið í stað.

Það getur versnað þegar ofsatrúarmennirnir hjá Bush halda áfram að gera samkynhneigð, fóstureyðingar og fleira sem við teljum til mannréttinda, að glæpum. Það getur versnað með fleiri innrásum (Kúba er komin aftur á radarinn hjá Bush), áframhaldandi stuðningi við dauðasveitastefnu Ísraelsmanna og fleira fleira. Listinn er það svakalega langur að það er niðurdrepandi.

Ástandið getur haldist óbreytt, allt í skralli.

Ástandið getur batnað, hófsamari menn innan Repúblikanaflokksins byrja að koma sér á réttan stað fyrir næstu kosningar og draga úr ofstækinu og reyna að laga fjárlagahallann. Ég held ekki í mér andanum.

Svo langar mig til þess að segja Davíð Oddssyni að hann sé auli. Þú varst næstum fyrstur manna til að óska forseta sem laug að þér og heimsbyggðinni allri til hamingju með endurkjörið. Ég bíð ennþá eftir svari frá þér og Halldóri um þessi gögn sem sannfærðu ykkur á sínum tíma um að taka þátt í stríðinu gegn Írak. Ég fer með þetta lengra.

Uncategorized

Jólin?


Vel þreyttur á því að sjá jólavörur í október.

Uncategorized

Ásmundur 6 ára og frívæðing

Þessi ríkisssáttasemjari er með verri bröndurum. Hann leggur sig ekki meira fram í starfi en svo að meira að segja atkvæðaseðillinn um afrit hans af tillögu sveitarfélaga (frábær miðlunartillaga það) er loðinn, þar stendur JÁ og svo NEI og óljóst hvernig á að kjósa. Hann ætti þegar í stað að senda alvöru atkvæðaseðla í staðinn fyrir svona riss, að auki fylgja engar leiðbeiningar með um notkun umslaganna tveggja sem fylgja.

Um helgina gaf ég mér loks tíma til að flytja póstinn minn úr Mozilla Mail yfir í Thunderbird, í leiðinni henti ég út PC-Cillin vírusvörninni sem var hætt að uppfæra sig vegna breytinga hjá Trend Micro (áskriftin samt í fullu gildi) og setti upp Avast. Sigurrós og Ragna fengu líka loksins uppfærslu úr Eudoru yfir í Thunderbird. Firefox er jafnframt orðinn aðalvafri Betrabóls. Allt ókeypis hugbúnaður sem er jafnframt betri en samkeppnin (veit ekki með Avast en dugar mér).

Andríki þegir þunnu hljóði þessa dagana um olíuskandalinn enda ljóst að öll öskur þeirra um illsku Samkeppnisstofnunar voru eins vitlaus og hægt var að ímynda sér nú þegar sannað hefur verið hvernig forstjórar og aðrir toppar brutu lög vísvitandi. Annað hitamál Andríkis sem ég get ómögulega skilið er ergelsi út í forvarnaauglýsingar, málið er bara að þær virka og gagnast þjóðfélaginu og fjölskyldum. Það voru svo sem ekki margir sem voru sammála Andríkismönnum innan SUS á sínum tíma þegar ég var hvað mest í þessu fyrir áratug síðan, annálaðir öfgamenn. Ayn Rand blindar af og til fólk sem vill trúa því að heimurinn geti verið svona en áttar sig ekki á því að hún kom því svo þægilega fyrir að til dæmis engir fatlaðir eða öryrkjar lifðu í hennar skáldskaparheimi. Annar rithöfundur sem aðhylltist þá stefnu hét Adolf Hitler.

Brasilía er annars að gera góða hluti í hugverkaheiminum, þeir eru að sýna lyfjafyrirtækjunum að þau meti mannslífið meira en fyrirtækin eiga að venjast. Jafnframt setja þau traust sitt á opinn hugbúnað í stað lokaðra og meingallaðra kerfa. Það væri óskandi að svipuð framsýni réði ríkjum hér á landi, það eru bara einstaka fyrirtæki og stofnanir sem sjá að lokuð kerfi skapa fangelsi sem erfitt og dýrt verður að brjótast út úr.

Verð nú aðeins að undrast aðgerðir lögreglunnar (sem áður reyndar):

Bílstjóri var stöðvaður og kærður fyrir ranga ljósanotkun í umdæmi lögreglunnar í Keflavík í nótt. Ók hann með þokuljós tendruð auk aðalljósa þótt engin þokan væri.

Að sögn lögreglunnar er einungis heimilt að hafa þokuljósin tendruð á bifreiðum í þoku eða afar slæmu skyggni. Því var ekki fyrir að fara og því var maðurinn kærður. (mbl.is)

Mátti ekki benda ökumanninum á það að hann væri með þokuljósin kveikt, ef hann sinnir því ekki er í lagi að sekta hann en að kæra án þess að aðvara? Er lögreglan að hugsa um fólkið eða sektaraurinn? Hvort hefur forgang?