Ásmundur 6 ára og frívæðing

Þessi ríkisssáttasemjari er með verri bröndurum. Hann leggur sig ekki meira fram í starfi en svo að meira að segja atkvæðaseðillinn um afrit hans af tillögu sveitarfélaga (frábær miðlunartillaga það) er loðinn, þar stendur JÁ og svo NEI og óljóst hvernig á að kjósa. Hann ætti þegar í stað að senda alvöru atkvæðaseðla í staðinn fyrir svona riss, að auki fylgja engar leiðbeiningar með um notkun umslaganna tveggja sem fylgja.

Um helgina gaf ég mér loks tíma til að flytja póstinn minn úr Mozilla Mail yfir í Thunderbird, í leiðinni henti ég út PC-Cillin vírusvörninni sem var hætt að uppfæra sig vegna breytinga hjá Trend Micro (áskriftin samt í fullu gildi) og setti upp Avast. Sigurrós og Ragna fengu líka loksins uppfærslu úr Eudoru yfir í Thunderbird. Firefox er jafnframt orðinn aðalvafri Betrabóls. Allt ókeypis hugbúnaður sem er jafnframt betri en samkeppnin (veit ekki með Avast en dugar mér).

Andríki þegir þunnu hljóði þessa dagana um olíuskandalinn enda ljóst að öll öskur þeirra um illsku Samkeppnisstofnunar voru eins vitlaus og hægt var að ímynda sér nú þegar sannað hefur verið hvernig forstjórar og aðrir toppar brutu lög vísvitandi. Annað hitamál Andríkis sem ég get ómögulega skilið er ergelsi út í forvarnaauglýsingar, málið er bara að þær virka og gagnast þjóðfélaginu og fjölskyldum. Það voru svo sem ekki margir sem voru sammála Andríkismönnum innan SUS á sínum tíma þegar ég var hvað mest í þessu fyrir áratug síðan, annálaðir öfgamenn. Ayn Rand blindar af og til fólk sem vill trúa því að heimurinn geti verið svona en áttar sig ekki á því að hún kom því svo þægilega fyrir að til dæmis engir fatlaðir eða öryrkjar lifðu í hennar skáldskaparheimi. Annar rithöfundur sem aðhylltist þá stefnu hét Adolf Hitler.

Brasilía er annars að gera góða hluti í hugverkaheiminum, þeir eru að sýna lyfjafyrirtækjunum að þau meti mannslífið meira en fyrirtækin eiga að venjast. Jafnframt setja þau traust sitt á opinn hugbúnað í stað lokaðra og meingallaðra kerfa. Það væri óskandi að svipuð framsýni réði ríkjum hér á landi, það eru bara einstaka fyrirtæki og stofnanir sem sjá að lokuð kerfi skapa fangelsi sem erfitt og dýrt verður að brjótast út úr.

Verð nú aðeins að undrast aðgerðir lögreglunnar (sem áður reyndar):

Bílstjóri var stöðvaður og kærður fyrir ranga ljósanotkun í umdæmi lögreglunnar í Keflavík í nótt. Ók hann með þokuljós tendruð auk aðalljósa þótt engin þokan væri.

Að sögn lögreglunnar er einungis heimilt að hafa þokuljósin tendruð á bifreiðum í þoku eða afar slæmu skyggni. Því var ekki fyrir að fara og því var maðurinn kærður. (mbl.is)

Mátti ekki benda ökumanninum á það að hann væri með þokuljósin kveikt, ef hann sinnir því ekki er í lagi að sekta hann en að kæra án þess að aðvara? Er lögreglan að hugsa um fólkið eða sektaraurinn? Hvort hefur forgang?

Comments are closed.