Monthly Archives: November 2003

Uncategorized

Teprur skapa perverta

Ástarlíf

Ekki mitt reyndar. Það er í fínum málum. Vil hins vegar benda á það að blessunin hún Dawn Steele er talin önnur vænlegasta einhleypa konan af Scotsman. Hana kannast flestir við sem Lexie í Hálandahöfðingjanum. Kannaðist nú ekki við restina af þessu liði né heldur við neinn af körlunum.

Myndbirtingar af stúlkum að bera brjóstin á skemmtistöðum borgarinnar virðast fara verulega fyrir brjóstið… jamm… ekki hægt að orða það penna… á alls kyns kverúlöntum og púrítanahræsnurum. Hvað er hræðilegt við nekt! Þó að ég sé ekki alveg um það bil að fara að fletta mig klæðum á almannafæri þá sé ég ekki af hverju það ætti að vera bannað.

Allt bull um siðsemi og hvað þá siðsemi og börn er argasta þvæla. Nekt á að vera sjálfsagður hlutur og ef að litlir krakkar sjá nakið fólk á þeim að finnast það eðlilegasti hlutur í heimi!

Mér er minnisstætt sumarið þegar að börn sem söfnuðu dóti á tombólu bönkuðu upp hjá mér og ég kom til dyra á stuttbuxum, þau æptu og skríktu þegar þau sáu að ég hafði “skegg á löppunum”. Er þetta eðlilegt? Tíu tólf ára krakkar sem hafa ekki séð nakinn karlmannsfót? Hvers konar firring er þetta? Við fæðumst öll með líkama og hann ætti nú að vera síðasta feimnismálið.

Það eru teprurnar í þessu þjóðfélagi sem skapa vandamálin, firringuna. Í dag hlæjum við að þeim sem trúa á ekkert kynlíf fyrr en eftir giftingu. Í framtíðinni verður hlegið að okkur fyrir tepruháttinn sem skapaði perverta sem áreita börn og fullorðna vegna þess að þeir öldust upp við alls konar fáránleg tabú sem öttu þeim fram af brúninni.

Nekt er ekkert feimnismál. Svona idjótaháttur eins og að kalla stúlkur mellur fyrir að fletta frá sér er ekkert betri en ærumorðin sem eru stunduð útí heimi. Þetta eru hin íslensku ærumorð. Voðalega hljótum við að vera stolt, eða hvað?

Vísindin

Popular Science veitir okkur innsýn í heim litla mannsins með stóra magann, í greininni Why do thin guys always seem to win eating contests? er ljósi varpað á hvers vegna þessi litli Japani vinnur 250 kílóa ferlíki léttilega í kappáti.

Önnur grein í sama blaði fjallar svo um kitlvélmenni sem listamannapar bjó til eftir að hafa þreyst á því að rífast um hvort ætti að kitla hitt.

Í Víruðum er svo að finna grein eftir tölvugúrú Mafíunnar í New York.

Lokatengillinn er svo á stórsniðuga fransk-enska orðabók á vefnum. Virðist virka vel.

Uncategorized

Vírað

Tækni

Tvær góðar greinar í Wired. Annars vegar er það Bill Joy í spjalli en hann er einn af áhrifamestu mönnum þessarar tæknialdar.

Svo er það grein um plötusnúðinn Richie Hawtin sem margir þekkja sem til dæmis Plastikman.

Dýralíf

Pöndur eru í bráðri útrýmingarhættu, að eigin vali virðist vera þar sem þær nenna ekki að fjölga sér og eru matvandari en ég! Nú er verið að reyna að blöffa þær með því að búa til heilsukex fyrir þær sem er í laginu eins og bambus. Það virðist duga á þær.

Uncategorized

Dagur til að gleyma

Gleymanlegur dagur. Fyrst að orðið ógleymanlegt er til hlýtur að mega að nota gleymanlegt. Áfram held ég að pota í innviður íslenskunnar, hellingur þarna sem er rökrétt en ekki til staðar?

Bendi bara á áhugaverða grein um rithöfundinn Philip K. Dick og myndaflóðið sem hefur skollið á okkur eftir skáldsögum hans. Ég hef lesið megnið af bókunum hans held ég og á nokkrar, mæli með kallinum.

Feginn að Bush yngri er ekki á leið hingað, löggæslan vegna komu hans til Bretlands er metin á 5 milljónir punda. Verst að menntakerfið eða fátækir fá ekki að njóta þess.

Uncategorized

Mánudagar eru fasteignadagar

Einkalíf

Tveir þykkir doðrantar fylgja Mogganum og Fréttablaðinu (Frébbanum?) á mánudagsmorgnum, fasteignablöðin þeirra. Það er hægt að eyða miklum tíma í að renna yfir stöðu mála á markaðnum.

Pólitík

Vox Day er snarruglaður tappi með fáheyrðar skoðanir, í dag messar hann að við guðleysingjarnir séum leiðin að helförum og hörmungum heimsins.

Áhugaverður vinkill á geggjaðar aðgerðir Ísraelsmanna sem einir þjóða komast upp með það að gera árásir á aðrar þjóðir og fá bágt fyrir skriflega en aldrei öðruvísi. Viðskiptabann Dóri og Dabbi? Nei?

Bush yngri mætti svo David Frost í viðtali og eitthvað óttalega er Frost kallinn smeðjulegur.

Uncategorized

Jöfnur af mörgum breytistærðum

Tölfræði og greining, fjör fjör fjör.

Þessi ræma lýsir rugludallinum Ann Coulter vel.

P.s. Passing orderly = næsti sjúkraliði (á geðveikra stofnuninni sem Ann Coulter ætti að vera á).

Uncategorized

Bland í poka

Skóli

Við Óskar erum búnir að vera að læra fyrir prófið á þriðjudaginn. Gífurlega mikið efni sem var farið yfir, fengum okkur bland í poka til að halda sykurstiginu háu.

Fótbolti

Rakst á grein sem fær mann til að sannfærast enn meir um af hverju við sem ekki erum áhangendur Arsenal, Chelsea og Man Utd ættum að halda með Chelsea í baráttunni um enska titilinn.

Það er að minnsta kosti nokkuð í það að mínir menn komist aftur í baráttuna um titilinn, töpuðu í dag fyrir Colchester!

Tölvur

Nýja ofurtölvan sem er smíðuð úr hundruðum Macintosh-véla (sem almenningur getur fengið út í verslun) lenti í 3ja sæti sem hraðvirkasta ofurvélin. Ekki slæmt þar sem hún er ódýrust þeirra efstu líka. Skilst reyndar að hún noti rafmagn á við meðalþorp.

DMCA lögin í Ameríku hafa bundið hendur margra tæknifyrirtækja en einstaka dómarar sjá þó skóginn fyrir trjánum og leyfa framleiðendum til dæmis að búa til allsherjar bílskúrshurðaopnara. Framleiðandi vildi sumsé ekki að hægt væri að nota aðrar fjarstýringar en hans eigin á útbúnað frá sér í skjóli þessara laga.

Mannréttindi

Ný lög um bann við fóstureyðingum þó að líf móður sé í hættu voru samþykkt í Bandaríkjunum nýverið, rakst á grein um þessa vondu þróun þar sem líf ófædd barns er rétthærra en líf móðurinnar.

Uncategorized

Síðasti skóladagurinn

Skóli

Í dag var síðasti hefðbundni skóladagurinn. Eftir helgina verður svo skuggalegt stærðfræðipróf og svo forritunarmál í vikunni þar á eftir.

Mannréttindi

Grikkir voru nú ekkert að fela sambönd fullorðinna manna og drengja á sínum gullaldartíma. Nú hefur hins vegar sjónvarpsstöð þarlendis verið sektuð um 100 þúsund evrur fyrir ósiðlegt efni. Syndin var sú að sýna koss tveggja karlmanna.

Einkalíf

Fórum í dag eftir skóla til mömmu og sóttum þar allra síðasta dótið mitt. Stofan okkar hefur nú breyst nokkuð með sófanum og svo nýjustu viðbótinni sem eru fermingargræjurnar mínar. Við höldum þeim eingöngu vegna plötuspilarans. Spiluðum nokkrar plötur í kvöld, stefnan er sú að taka afrit af þeim og brenna á geisladiska.

Uncategorized

Jákvæð neitun?

Ætli maður taki ekki örfáa klukkutíma í jólafríinu til hliðar og uppfæri dagbókarkerfin. Það er neitun í setningunni og samt þýðir hún að ég muni taka frá tíma? Eitthvað flókið spurningardæmi… ætli?

Tölvuleikir

Er hægt að lögsækja einhvern fyrir það sem gerist í tölvuleik? Það er ein þeirra spurninga sem reynt verður að svara á ráðstefnu í New York. Margir leggja gífurlegan tíma og mikla vinnu í að skapa sinn eigin heim í ýmsum netleikjum og í mörgum þeirra er hægt að missa allt á augnabliki, vegna svika eða annars. Það leggst auðvitað þungt á marga sem hafa lagt þetta mikið á sig, mér finnst þetta svo sem alveg sambærilegt við þá sem skrifa ritverk sem hverfa svo. Spurningin er hins vegar sú hvort þú getir farið í mál við þá sem ollu þér tjóninu?

Skóli

Síðastu skilin voru í morgun, við héldum fyrirlestur og ég kom vel út úr þessu þrátt fyrir lítinn svefn. Síðasti skóladagurinn á morgun, svo eru það próf í næstu og þarnæstu viku og strax á eftir þeim er það 3 vikna hörpunámskeið… hörpu sökum árstíðar, ég er ekki að fara út í músíkina.

Einkalíf

Keypti hræódýran DVD-spilara í dag, Samsung er ekki búið að bíta úr nálinni með bilaða ofurspilarann okkar en þangað til verður 7 þúsund króna spilarinn að duga.

Uncategorized

Nú flokkað!

Hmmm… pæling að fara að koma upp flokkunarkerfi á dagbókarskrifunum.

Tölvumál

Enn ein Linux útgáfan og hún virðist vera með gífurlegan stuðning á bak við sig. Góðar fréttir þar sem Rauðhöttar eru að færa sig af almennum markaði yfir í fyrirtæki.

Það eru víst nokkur ár í það að við gleraugnafólkið getum fengið okkur minnisgleraugu en þau virðast vera sniðug.

Pólitík

Einn ríkasti maður heims, George Soros, heldur áfram að leggja pening í það að koma Bush frá völdum. Hann segir aðferðir og bullið sem viðgengst hjá Hvíta Húsinu minna sig verulega á nasistana sem hann flúði á sínum tíma.

Gamanmál

Nokkrir hafa bent á fyndna frétt The Onion um mömmuna sem fann blogg sonar síns. The Onion er í svipuðum dúr og Baggalútur. Held reyndar að Baggalútsmenn hafi sótt eitthvað til The Watley Review. Aðrir álíka vefir eru til dæmis Glossy News og Broken Newz. Hægt að finna lista yfir fleiri álíka vefi hér.

Íþróttir

Í tilefni þess að heiðra á “Sir” Charles Barkley hefur NBA komið upp síðu um kappann og tíma hans hjá Phoenix Suns. Þetta voru góðir tímar þó að tapið fyrir Chicago í leik 6 hafi lagst þungt á mig.

Daglegt líf

Það er alltaf til nóg af fólki sem reynir að gera lítið úr öðrum og það nýjasta í Ameríkunni er að háskólastúdentar alhæfa um hina með því að skoða hvaða lög þeir hafa í iTunes hjá sér. Það er nefnilega hægt að deila safninu sínu með öðrum (sem geta þá hlustað á þína tónlist) og tískukapphlaup um tónlistarsmekk virðist hafa hafist. Æðislegt.

Einkalíf

Pabbi kom í kvöld með sófa sem Guðbjörg var að losa sig við, okkur tókst að drasla þessu flykki upp stigana með ýmsum fettum og brettum. Þegar hann var svo kominn á sinn stað stækkaði stofan okkar til muna!

Uncategorized

Ástarbréf, afsakanir, fótbolti og nöldur

Búið er að gefa út bók með ástarbréfum tveggja elskenda sem gátu ekki eytt ævinni saman eins og þau vildu. Það sem virðist merkilegast er að þetta er á seinni hluta 18. aldar en af bréfaskrifunum að dæma (sem eru víst verulega góð) voru þau fólk sem hefði passað vel inn í 21. öldina. Þeirra ólán var að vera aðeins á undan sinni samtíð og í Feneyjum sem voru hnignandi stórveldi.

Sven Göran Eriksson er búinn að tilkynna enska landsliðshópinn fyrir vináttuleik við Dani og hefur bara tilnefnt þrjá sóknarmenn, Wayne Rooney, Emile Heskey og Darius Vassell. Rooney liggur reyndar með flensu sem þýðir að Heskey og Vassell eru einir til taks. James Beattie hjá Southampton komst ekki á listann þó að hann sé búinn að skora fleiri mörk á tímabilinu en þessir þrír til samans. Ég held að Eriksson sé ekki alltaf í sama heimi og ég. Hann er reyndar í stjórastólnum en ekki ég. Hins vegar höfum við unnið jafn marga titla með landsliðum 🙂 (enga!).

Nú er búið að tilkynna hverjir eru tilnefndir sem Knattspyrnumaður Evrópu . Minn maður Nedved á nú alveg að taka þetta. Finnst reyndar skrítið að konur fái ekki svo mikið sem eina tilnefningu af þessum fimmtíu?

Næsti tengill er á grein um Howard Dean og Ronald Reagan. Ronnie kallinn sem er í MIKLU uppáhaldi meðal Flokksmanna hér á landi lýsti margoft yfir stuðningi við aðskilnaðarstefnu Suðurríkjamanna og taldi að eyðni væri refsing homma fyrir kynvillu sína. Frábær fyrirmynd allra sannra Flokksmanna.

Las einmitt pistil í Mogganum í dag þar sem spyrt var saman samkynhneigð, sadómasókisma, vændi, nauðgunum, sjálfsvígum og ég veit ekki hverju. Hvar nákvæmlega samkynhneigð og sadómasókismi koma inn í þennan ofbeldispakka veit ég ekki? Sjáum til hvort greinarhöfundur geti svarað því.