Monthly Archives: May 2003

Uncategorized

Vinna, tóbak og áfengi

Fyrsti dagurinn í nýju vinnunni var fínn, nóg að gera og fjölbreytt verkefni. Gekk svo heim, næstum allt upp í móti og því sæmilegasta hreyfing. Reyndar er lengi búið að velta því fyrir sér að draga hjólið út úr kompunni, þá rennur maður niður brekkuna á morgnana og þjösnast svo upp hana á heimleið.

Tóbaksfíklar í New York barma sér yfir reykleysis-tilskipuninni, þeir eru því farnir að éta tóbak.

“The most important thing you can do for your wine is to serve it at the right temperature. Red wine, for example, should be brought down about 10 degrees below ambient temperature.”

What if you don’t have a personal cellar?

“Just put it in the refrigerator for 20 minutes.”

Svo segir einn fremsti vínþjónn (sommelier) heims… maður verður að kíkja á þetta næst!

Að lokum eru það svo hamingjuóskir til Arnar og hinna sem bjuggu til albankalausnina sem var verið að setja í gang í Danmörku.

Að endalokum eru það svo orð forsætisráðherranna, núverandi og tilvonandi. Þeir ætla að vernda stöðugleikann, sem er frekar undarlegt þar sem 14-20% launahækkun þeirra bendir EKKI til þess að stöðugleiki hafi ríkt hingað til… nema talað sé um stöðugleikann í skattpíningu og aðgerðum gegn tjáningarfrelsi… þar hefur allt setið við sama.

Uncategorized

Tvöföld endalok

Í dag lukum við verkefnisvinnunni sem hefur staðið síðan í janúar á þessu ári. 5 mánaða vinna sem lauk með lokakynningunni sem við héldum í dag. 25 mínútna fyrirlestur og því næst 28 mínútur af spurningum, þó nokkrar þeirra komu frá samkeppnisaðila Hugvits, en verkefni okkar var fyrir það.

Hvað Hugvit varðar þá pakkaði ég öllu mínu saman í dag, smellti í poka og kassa og gekk svo um húsið og kvaddi þá með handabandi sem enn voru inni.

Formlega séð hætti ég þar um mánaðamótin síðustu en sökum verkefnisins hef ég verið lengur í húsnæðinu, það er erfitt að losna við mig eins og margir geta borið vitni um 🙂

Þetta var ágætur tími, rúm fimm ár sem voru mikill vaxtartími. Að sjálfsögðu mun maður halda sambandinu við þó nokkra þarna, þetta var góður hópur sem myndaðist. Á morgun er það svo nýr vinnustaður með nýjum tækifærum og nýjum verkefnum.

Uncategorized

Survivor

Eftir stífar æfingar á kynningunni okkar skaust ég heim og horfði þar á lokaþátt Survivor. Sigurrós var með allt planað og veitingar fyrir okkur og allt var stórglæsilegt. Því miður þurfti ég að halda aftur á æfingar að þættinum loknum, ella hefðu fleiri veitingar ekki lifað kvöldið af.

Sigurvegarinn var frekar klénn að mínu mati, og ekki skil ég hvað allir segja að hún sé sæt greyið. Jæja, ekki mín týpa bara.

Það fyndnasta var hins vegar Jeff Probst sem fór á vatnaketti frá Brasilíu til New York… eða þannig. Ótrúlega klént atriði og auðvitað er aldrei minnst á það að Frelsisstyttan sem þeir eru svo skotnir í er gjöf frá Frökkum… gullfiskaminnið að drepa þá.

Váleg tíðindi úr tölvuheiminum, Microsoft getur ekki unnið Linux með afurðum sínum þannig að næsta málið er að loka á það með lögsóknum sem þeir geta sinnt með því að kaupa Unix-kóða.

Uncategorized

Spítt í boltanum

Það er ekki furða að þeir hafi verið svona miklu betri fótboltamennirnir á fyrri tíð ef þeir tóku allir spítt.

Í Suður-Kóreu er svo öflugasti netmiðillinn með venjulegt fólk sem fréttamenn, svona eins og alvöru útgafa af Hugi.is?

Uncategorized

Hvernig skal missa strák

Sáum í gær Hvernig skal missa strák á 10 dögum, lítil og sæt rómantísk mynd. Matthew McConaughey var meira að segja þolanlegur í henni.

Uncategorized

Platbjörgun og ryðgaðir DVD-diskar

Þetta var of mikið bíó til að vera satt, björgun Jessicu Lynch var sviðsett og staðreyndir máttu sín lítils (tengill frá Hrafnkeli).

Disney-samsteypan ætlar nú að gefa út DVD-diska sem ryðga. Fólk getur leigt þá, hefur 2 daga til að horfa á þá og eftir það hent þeim.

Uncategorized

Skýrsluskil

12 skýrslur og geisladiskur var það og í tvíriti að auki. Skiluðum þessu upp úr þrjú í dag, næst er það kynningin sem er á þriðjudaginn upp í skóla.

Glugga oft í New York Times sem er almennt talið besta blað Bandaríkjanna af þarlendum fréttamönnum. Til að lesa það á netinu þarf að skrá sig inn en það er ókeypis fyrir okkur sem erum utan Bandaríkjanna.

Tvær áhugaverðar greinar í því í dag, önnur fjallaði um kvenhetjur í tölvuleikjum og hvort þær styddu við eða ynnu gegn kvenréttindabaráttunni.

Seinni greinin er um eitt mesta áfall sem blaðið hefur orðið fyrir, fréttamaðurinn Jayson Blair samdi sínar fréttir upp úr öðrum blöðum og skáldaði heilan helling upp. 10 síðna grein um þetta.

Í kvöld var svo húsfundur sem var okkar annar og sá fyrsti fyrir nýju nágrannana. Allir voða sáttir og liðlegir.

Uncategorized

Lokasprettur

Skýrslugerðin fyrir DMC er á lokastigi, þetta eru allt í allt að ég held 10 skýrslur sem við skilum (í tvíriti að auki).

Tengdó splæsti pizzu á okkur í kvöldmat, ekki amalegt það.

Sigurrós segir ekki frá ferðinni en segir hins vegar frá fundi sínum og eins átrúnaðargoða hennar, Brian May úr Queen.

Uncategorized

19% stöðugleiki

Útgefandi EVE er ekki að standa sig nógu vel í dreifingu og kynningu, vonandi verða þeir með þrusubás á E3. Þessi grein minnist ekki einu sinni á EVE.

Mikið andskoti er það svo sniðugt hjá kjaradómi að hækka laun embættismanna um 19%. Stöðugleikinn hlýtur að hafa horfið eftir kosningar, eða hvað segir þú Davíð? Baggalútur segir satt og rétt frá. Stöðugleikinn dugði í 2 daga. Glæsilegt það.

Hryðjuverk var framið í Sádi-Arabíu sem er auðvitað versta mál. Eftirminnileg eru hins vegar ummæli George W. Bush:

U.S. President George W. Bush warned those responsible for the Riyadh bomb blasts, in which nearly 30 people died, will “learn the meaning of American justice.” (src)

Það vita auðvitað allir að amerískt réttlæti er á öðrum nótum en annað réttlæti.

RIAA sýna hversu gáfaðir þeir eru, sjá þessa frétt.

Sigurrós kom heim í kvöld, ætli það verði ekki ferðasaga á morgun hjá henni.

Uncategorized

Einn í einu

Ég gleymdi auðvitað að nefna það að skólafélagi úr MK er kominn á þing, Katrín Júlíusdóttir sem er myndarstúlka og mun örugglega standa sig þrusuvel. Sigurður Kári ætlar að gera það að sínu fyrsta verki sýnist mér að koma bjór og léttvíni í búðir. Ég er svo sem sammála því að það eigi alveg rétt á sér en sjálfur myndi ég hugsa meira um önnur mál ef ég væri þingmaður.

Ef að bjór og léttvín fara í búðirnar nú í ár þá hefur það ekki tekið nema 12 ár fyrir málið að komast í gegn, svo lengi hefur flokkurinn sem breytti merkingu orðsins frelsi verið við völd. Orwellian speak heitir það þegar að orð eru afbökuð og sett á hluti sem eru andstæða þeirra.

Fór um gatnamót Nóatúns og Laugavegar í dag og sá þar lögreglunema að æfa sig. Slökkt var á ljósunum og þau látin blikka appelsínugulu og svo stóð nemi ásamt leiðbeinanda á gatnamótunum og stjórnaði umferðinni. Fyndið reyndar að bara ein átt fór í einu, ekki báðar akreinarnar bæði upp og niður Laugaveginn eða Nóatúnið heldur bara önnur í einu.