Einn í einu

Ég gleymdi auðvitað að nefna það að skólafélagi úr MK er kominn á þing, Katrín Júlíusdóttir sem er myndarstúlka og mun örugglega standa sig þrusuvel. Sigurður Kári ætlar að gera það að sínu fyrsta verki sýnist mér að koma bjór og léttvíni í búðir. Ég er svo sem sammála því að það eigi alveg rétt á sér en sjálfur myndi ég hugsa meira um önnur mál ef ég væri þingmaður.

Ef að bjór og léttvín fara í búðirnar nú í ár þá hefur það ekki tekið nema 12 ár fyrir málið að komast í gegn, svo lengi hefur flokkurinn sem breytti merkingu orðsins frelsi verið við völd. Orwellian speak heitir það þegar að orð eru afbökuð og sett á hluti sem eru andstæða þeirra.

Fór um gatnamót Nóatúns og Laugavegar í dag og sá þar lögreglunema að æfa sig. Slökkt var á ljósunum og þau látin blikka appelsínugulu og svo stóð nemi ásamt leiðbeinanda á gatnamótunum og stjórnaði umferðinni. Fyndið reyndar að bara ein átt fór í einu, ekki báðar akreinarnar bæði upp og niður Laugaveginn eða Nóatúnið heldur bara önnur í einu.

Comments are closed.