Category Archives: Fjölskyldan

Fjölskyldan

Þingvellir og dýrlingar

Við skötuhjúin fórum í “haustlitaferð” til Þingvalla í dag, og gengum meðal annars Almannagjá. Við vorum íklædd Lowe Alpine bolum og flíspeysum, að auki var gripið til dúnúlpnanna þegar að á staðinn var komið, og húfur og hanskar dregin á viðeigandi staði.

Það var nefnilega skuggalega kalt, hitamælar sögðu 7°C en það var svo hvasst að kuldinn var vel fyrir neðan frostmark. Engu að síður fundum við okkur bekk í laut við Þingvallavatn og skemmtum okkur ágætlega í köldustu lautarferð (picnic) sem við höfum farið í (síðasta lautarferð var í Frakklandi, og þar leituðum við dauðaleit að skugga til að skýla okkur frá sólinni). Íklædd ofantöldu og meiru til átum við okkar tómatbrauð og kryddbrauð frá Jóa Fel og drukkum Oranginu með. Síðan flúðum við inní bíl, lögðum honum á stað með útsýni yfir vatnið og Þingvallabæ og fengum okkur íslenskt snakk og franskt kex. Loks héldum við heim á leið, köld og ánægð eftir hressandi og skemmtilega útivist.

Á heimleiðinni komum við við á Laugarásvídeó, og tókum þar að ráði Gunnars (annars eigenda) myndina Boondock Saints. Myndin var hin besta skemmtun, samlíkingin við Trainspotting og Pulp Fiction var ekki svo galin.

Kvöldmaturinn var kínamatur, ég fékk mér eggjanúðlur með kjúklingi og Sigurrós fékk sér svínakjöt í ostrusósu. Bæði átum við yfir okkur enda einstaklega gott. Ostakaka í eftirrétt á meðan að horft var á myndina og svo kláruðum við snakkið. Skemmtilegur dagur fyrir bragðlaukana.

Áhugavert lesefni:

Fjölskyldan Tækni

Rólegheit á sunnudegi

Gærkvöldið var aldeilis vel heppnað og var til fyrirmyndar í alla staði. Raunar var eitt atriði sem að ergði okkur, en það var að tappinn í rauðvínsflöskunni (sem er vikugömul úr Ríkinu) var orðinn svo þurr að miðjan kom upp með tappatogaranum okkar. Eftir talsvert langa rimmu við að reyna að pota restinni upp úr flöskunni ákvað ég að massa þetta bara og ýtti tappanum bara ofan í flöskuna. Rauðvíninu var hellt í gegnum sigt í karöflu, svona til þess að leyfa víninu að anda loksins og að fjarlægja þá korkbita sem flutu um.

Piparsteikin var sérdeilis ljúffeng sem og kartöflurnar, rauðvínið var jafngott og alltaf og ostakakan var prýðileg, þó hún hafi nú ekkert jafnast á við ostakökurnar hjá mömmu, ömmu eða tengdó.

Við horfðum á “My Fellow Americans (1996)”, mynd sem var sýnd á RÚV. Bara bærilegasta skemmtun í anda Odd Couple. Svo verður maður nú að horfa á þetta RÚV af og til fyrst að það kostar heimilið einhvern 3500 kall eða svo á mánuði. Að henni lokinni skelltum við “Me, myself and Irene” svo í vídjóið, hún var ekki síðri skemmtun, svona myndir á bara að horfa á og hlæja.

Ég er annars mest lítið að gera, einkum sökum þess að sem ég skrifa þetta hefur heimili mitt verið sambandslaust við netið síðan um 16:00 í gær, þegar að breiðbandið hikstaði og módemið nær ekki að tengjast. Þeir hjá Símanum segjast vera að reyna að ná í þá sem að eiga að sjá um þetta, vonandi að það takist á morgun þá, tveim sólarhringum eftir að bilunin varð.

Fjölskyldan

Partý partý

Föstudagskvöldið var notað í að samfagna frænku Sigurrósar, sem varð 39b ára, og hélt upp á það með fjölda fólks á heimili sínu. Fékk mér 3 rauðvínsglös, svona aðeins til að hita upp fyrir kvöldið í kvöld, en þá ætlum við Sigurrós að fagna eins árs trúlofunarafmæli okkar (sem er raunar á morgun en hún er að vinna þá).

Matseðillinn samanstendur af piparsteik með bökuðum kartöflum í aðalrétt, og enska ostaköku í eftirrétt. Að sjálfsögðu verður rauðvín haft um hönd, það er ekki svo oft sem að maður gerir sér svona glaðan dag.

Fjölskyldan

Aldrei of seint að byrja

Eftir að hafa verið netverji fyrir alvöru síðan 1995, og fyrir þann tíma áhugamaður um netið, þá er það fyrst núna að ég fylgi straumnum og kem mér upp svona dagbók eins og hefur víst riðið hér öllum húsum um allan heim undanfarið ár eða eitthvað svoleiðis.

En í dag er sumsé 26. afmælisdagurinn minn, og ég ætla nú að byrja að punkta niður eitthvað úr mínu lífi, aðallega til þess að geta flett því upp seinna, þá get ég bent konunni á færsluna mína og sagt “sko! ég sagði þér að við hefðum gert þetta á laugardeginum”. Hérna ætla ég líka að punkta niður eitthvað af þeim aurum sem maður setur í bíó og aðrar ónauðsynjar, of latur til að halda alvöru bókhald.

Kvöldið fer annars í fámennt afmæliskaffi þar sem nánustu fjölskyldu eingöngu er boðið (svo maður fái nú meira af kökunum hennar tengdó).