Author Archives: Jóhannes Birgir

Björn Bjarna ósáttur við íslenska Dani

Eurovision fór venju framar að mestu fram hjá mér en sá þó íslenska atriðið sem byrjaði um leið og ungfrúin var sofnuð.

Björn Bjarnason virðist hafa horft heldur meir á það en ég og lætur Íslendinga í Danmörku heyra það:

Úrslitin í Evróvisjón-keppninni sýna áhrif minnihlutahópa innan einstakra Evrópuríkja. Þeir taka sig saman hver í sínu landi og greiða gamla ættlandinu atkvæði. Er ekki best að taka upp gamla fyrirkomulagið, að sérfróðir menn leggi mat á framlag þjóðanna?

Hér svíður honum greinilega það vanþakklæti Íslendinga í Danmörku, sem þar búa við góð kjör og ókeypis háskólagöngu, að launa fyrir sig með því að yfirtaka símakosninguna og brengla þar með atkvæði alvöru Dana.

Nema þá að hann hafi átt við önnur þjóðarbrot í öðrum löndum og ekki áttað sig á kaldhæðninni og hugsanavillunni?

Það er svo sem ekki nýtt að BB treysti ekki almenningi til að taka ákvarðanir, sérfræðingar eru auðvitað mun betri til að stýra ekki bara atkvæðum þjóða í söngvakeppnum heldur líka þá væntanlega í öðrum málum, almenningi er ekki treystandi fyrir lýðræðinu hefur verið bjargföst skoðun BB eins og sjá má af verkum hans og áherslu á sérsveitir og hervæðingu.

Menntun, ekki fartölvur

Nú á föstudaginn fékk ég loks til mín nýjustu græju heimilisins, litla græna fartölvu.

Hún var sneggri á leiðinni frá Kaliforníu til Hafnarfjarðar en frá Hafnarfirði og í Kópavoginn. Tollurinn tók sumsé vörureikninginn ekki trúanlegan fyrr en ég hafði sent þeim nokkra pósta um hann. Ekki fengið svar frá þeim annað en að tölvan komst loks til skila.

Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki pantað tvær til að geta prufað netið sem þær spinna á milli sín.

OLPC verkefnið snýst annars um menntun, ekki fartölvurnar sjálfar. Svo segir Nicholas Negroponte, upphafsmaður þessa frábæra verkefnis sem vonandi heldur áfram að dafna.

Kársnesið

Það hefur margt gerst í lífi lénsfjölskyldunnar að Betrabóli síðustu vikur og verður því gerð frómari skil síðar.

Það eru hins vegar válegri tíðindi úr heimabænum, var að senda inn mínar athugasemdir vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Kársnesi sem á að gera að stórskipahöfn og vörugeymslu. Ekki alveg hefðbundið hlutverk íbúðahverfa.  Sjá meira á síðu íbúasamtaka Kársness.

Nónborgin

Var rétt í þessu að senda mín mótmæli vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi Nónhæðar og Arnarsmára 32. Þeim sem hafa áhuga á að senda inn sín mótmæli bendi ég á að fara á vefsíðu samtakanna eða blogg-síðu Helga.

Gutenberg, Rutherfurd og Wooly Bully

Birti í gær tvo nýja texta á Project Gutenberg eftir að þeir fóru í gegnum DP-Europe.

Grámann er rímútgáfa af ævintýri sem ég held að sé franskt að uppruna. Leiðarvísirinn kom út samhliða Leiðarvísir í ástamálum: II. fyrir ungar stúlkur, enn eru til tveir í viðbót held ég.

Ég hef nú lesið The Forest og Russka (sem greinir frá Rússlandi) eftir Edward Rutherfurd og er hæstánægður með þá lesningu. Á History Channel var einmitt verið að byrja að sýna Russia Land of the Tsars þegar ég var að ljúka lesningunni sem kom ágætlega inn í efni bókarinnar.

Nú þarf ég bara að redda London í millisafnaláni eða með öðrum leiðum og líklega versla mér sjálfur Dublin: Foundation því að í Gegni er ekkert safn skráð fyrir henni.

Enda þetta á léttu nótunum, það þekkja flestir á mínum aldri og eldri lagið Wooly Bully… það er auðvitað til á YouTube:

Hamraborg á Nónhæð

Fengum á mánudaginn fundarboð vegna fundar um tillögu á breytingu á skipulagi Nónhæðar þar sem nú er óbyggt land. Ég ákvað að kíkja á fundinn sem verður á morgun en pældi ekki meira í því. Í dag kom svo dreifibréf þar sem nánar er sagt frá þessum tillögum og bent á vef með upplýsingum um breytingarnar.

Ég leit á tillögurnar til að sjá hvað þar væri að finna og sá mér til mikillar undrunar og skelfingar að nú á að reisa nýja Hamraborg, það á að smella háhýsahverfi inn í mitt íbúðahverfi sem einkennist af tveggja hæða íbúðarhúsum og þriggja hæða fjölbýlum, 14 hæðir skal það efsta vera og það efst á hæðinni. Að auki á svo að pota enn einni blokk í stað verslunarhúsnæðis sem illa hefur gengið.

Ég veit ekki hvern hefði órað fyrir þessu, svæðið var áður frátekið fyrir musteri Baháía og útivistarsvæði en á nú að verða enn eitt steindrumbasvæðið sem skyggir á nágranna sína, þar með talið okkur en mér sýnist að við munum missa um 80% af því útsýni sem við höfum notið.

Borgarafundurinn er á morgun. Ég mæti. Efast um að Garðbæingarnir hinum megin við götuna sem fá þessi ferlíki nærri því ofan á sig hafi verið boðaðir, en þeir ættu að kíkja á þetta, fundurinn er 17:30 í Smáraskóla, fundarstjóri er Smári Smárason skipulagsfulltrúi Kópavogs. 

Fríðindi elsta systkinis

Norskir vísindamenn telja sig hafa sýnt fram á það að við sem erum elsta systkinið séum gáfaðri en hin. Spurning hvort þetta sé vegna meiri ábyrgðar eða óskiptrar athygli. Eða þvæla.

Svo virðist reyndar sem að systkini hækki sig í gáfum ef að eldra systkini deyr.

Annars var tæplega 3 ára gömul stúlka að fá inngöngu í gáfumannaklúbbinn MENSA.

Bókvitið

Datt af tilviljun af Google inn á síðu NMK í dag þar sem ég sá að enn í dag halda þeir BEMKÍGÁF, eða spurningakeppni innan skólans sem ég stofnaði og nefndi svo fyrir næstum 15 árum! Ætli þeir haldi líka próf fyrir fyrstu bekkinga eins og við gerðum til að sigta út efnilega Gettu betur keppendur?

Bekkjakeppni MK í gáfumannaleik minnir mig að skammstöfunin standi fyrir. Gaman að sjá að hún lifir enn góðu lífi og nú eru þeir líka með MORMÍK sem er þeirra útgáfa af MORFÍS.

Talandi um bókvitið þá hef ég legið í bókum síðustu mánuði á meðan á lokahluta meðgöngu stóð yfir og nú vel eftir fæðingu (3ja mánaða!).

Meadowland hefur legið á borðinu hjá mér síðan um jólin, þetta er nýjasta sögulega skáldsagan frá Tom Holt, að þessu sinni um Vínlandsfundina. Tveir aldnir víkingar segja frá fjölmörgum ferðum sínum til Vínlands með Bjarna, Leifi og hinum sem þangað fóru. Mun skemmtilegri lesning en þessi þurra klausa mín segir til um.

Ég hef lengi ætlað að lesa Cryptonomicon eftir Neal Stephenson og komst loksins í það í vor. Áhugaverð blanda af sögu, tæknilegum útskýringum og ævintýri.

Holy Fire og smásagnasafnið A good old fashioned future, báðar eftir Bruce Sterling, voru ágætis lesning en skildu lítið eftir.

Doðranturinn Tigana eftir Guy Gavriel Kay gerist í ævintýraheimi en undirtónninn er hve auðvelt er að þurrka heila siðmenningu út úr almannavitund. Þokkaleg skemmtilesning en ekkert mikið meira en það.

Bókin Sarum var hins vegar stórbrotin 1400-síðna lesning þar sem Edward Rutherfurd fer í gegnum sögu Sarum-svæðisins í Englandi (Salisbury og nágrenni) allt frá þeim tíma er Neanderdalsmenn gengu þar um og til 20. aldar. Hann notar þar þá aðferð að blanda tilbúnum persónum við sannsögulegar persónur og atburði þar sem við einblínum á nokkrar ættir yfir árþúsundin. Mjög fróðleg og lifandi lesning.

Næst var það Anansi boys eftir Neil Gaiman, ágætis bók frá snilldarhöfundi.

Stysta bókin á þessum lista er svo The god of small things eftir Arundhati Roy. Þetta er verðlaunabók en ég gafst upp á að lesa lengra þegar ég var kominn inn í miðju, svo óáhugaverð var hún fyrir mér.

Ég uni mér því við að lesa næsta stórvirki Rutherfurds, The Forest, sem gerist í Hampshire, sumir kannast kannski við Southampton sem er þar.

Heimasætan

Húsmóðirin að Betrabóli hefur tekið að sér að vera ritari heimasætunnar og heldur úti síðunni hennar þar sem myndir og myndbönd detta inn vikulega og hafa gert það undanfarnar vikur.

Fleiri hræringar eru væntanlega í öðrum vefmálum að Betrabóli í netheimum.

Draugur í vélinni

Svo virðist sem draugur hafi tekið sér bólfestu í routernum sem tengir Betraból við umheiminn. Miklar truflanir eru á sambandinu sem dettur niður á mínútufresti. Verið er að skoða málið með Vodafone.