Hamraborg á Nónhæð

Fengum á mánudaginn fundarboð vegna fundar um tillögu á breytingu á skipulagi Nónhæðar þar sem nú er óbyggt land. Ég ákvað að kíkja á fundinn sem verður á morgun en pældi ekki meira í því. Í dag kom svo dreifibréf þar sem nánar er sagt frá þessum tillögum og bent á vef með upplýsingum um breytingarnar.

Ég leit á tillögurnar til að sjá hvað þar væri að finna og sá mér til mikillar undrunar og skelfingar að nú á að reisa nýja Hamraborg, það á að smella háhýsahverfi inn í mitt íbúðahverfi sem einkennist af tveggja hæða íbúðarhúsum og þriggja hæða fjölbýlum, 14 hæðir skal það efsta vera og það efst á hæðinni. Að auki á svo að pota enn einni blokk í stað verslunarhúsnæðis sem illa hefur gengið.

Ég veit ekki hvern hefði órað fyrir þessu, svæðið var áður frátekið fyrir musteri Baháía og útivistarsvæði en á nú að verða enn eitt steindrumbasvæðið sem skyggir á nágranna sína, þar með talið okkur en mér sýnist að við munum missa um 80% af því útsýni sem við höfum notið.

Borgarafundurinn er á morgun. Ég mæti. Efast um að Garðbæingarnir hinum megin við götuna sem fá þessi ferlíki nærri því ofan á sig hafi verið boðaðir, en þeir ættu að kíkja á þetta, fundurinn er 17:30 í Smáraskóla, fundarstjóri er Smári Smárason skipulagsfulltrúi Kópavogs. 

Comments are closed.