Jólasagan

Í gærkveldi litum við niður á Laugarveg og komum við í verslun Guðsteins svona til að tryggja að ég færi ekki í jólaköttinn. Sigurrós var þegar örugg eftir innkaup móður hennar. Fyrir utan Skarthúsið myndaðist röð karlmanna sem biðu fyrir utan á meðan að konurnar þeirra hoppuðu inn í þvöguna sem hafði myndast þar inni, ég gekk í lið með þeim á meðan að Sigurrós gulltryggði sig fyrir jólakettinum.

Þegar heim var komið var svo loksins komið að því að við horfðum á snilldina The Nightmare before Christmas, ég hef margoft séð hana en Sigurrós aðeins einu sinni áður á myndbandi. Við keyptum hana á DVD-disk fyrir margt löngu en ekki sest niður og horft á hana síðan. Tim Burton er argandi snillingur eins og stuttmyndirnar sem fylgja með á disknum sýna, þær Vincent og Frankenweenie. Strákurinn úr D.A.R.Y.L. leikur í hinni síðarnefndu, þar poppaði æskuminning upp.

Í kvöld vorum við á nýju heimili mömmu og Tedda, raðhús í Hraunbænum. Þangað mættum við allir bræðurnir sem og amma. Hugguleg kvöldstund með dýrindis hamborgarahrygg. Ég efast um að ég muni nokkru sinni slá metið sem ég setti ein jólin þegar ég át einn míns liðs um kíló af kjöti og all nokkra ananashringi með. Var mjög temmilegur í kvöld og át aðeins 2-3 sneiðar af kjöti, ég er hættur að troða mig út sama hversu góður maturinn er.

Ég sit nú og þarf að ákveða hvaða bók af þessum fimm sem ég fékk er fyrst undir augun. Diskarnir mínir þrír eru nærri alveg komnir í .mp3 form og því tölvutækir. Það saxast hægt og rólega á safnið mitt.

Meðal stórgjafa sem við fengum var raclette-grill sem litli bróðir splæsti í okkur. Hann er ágætur greyið 🙂

Pínufrétt dagsins er svo sú að þriðja knattspyrnustúlkan hefur neitað að ganga til liðs við Perugia í Serie A, karlinn í brúnni þar er voðalega spenntur fyrir því að verða fyrsta Serie A knattspyrnuliðið sem fær kvenleikmann.

Comments are closed.