Upp og ofan

Ég er búinn að vera slappur undanfarna daga, með væga hálsbólgu og ómótt og fleira fjör, og náði aðeins þriggja tíma svefni í nótt. Ég var því alls ekki upp á mitt besta í prófinu í morgun. Jæja… himinn og jörð farast ekki þó ég sé heiladauður í prófi… fékk 8.5 í ritgerðarprófi í dönsku eitt sinn þar sem ég gat vart skrifað vegna hita. Þar sannast það að maður þarf að vera með óráði til að vera hraflfær í því blendingsmáli. Ef þetta er fall sökum tímabundins heiladauða þá er það bara næsta ár… og lýsi.

Það sem stóð upp úr í dag var hins vegar einkunnin úr lokaverkefninu sem stóð yfir í 5 mánuði og kostaði einar 500 vinnustundir eða svo. Hópurinn minn fékk 10 og vorum við hæst ásamt einhverjum einum aðila (hugsanlega gaurinn með tónlistarforritið). Þau voru auðvitað öll hrikalega brilljant í þessu verkefni, þrusuhópur sem þarna var myndaður.

Comments are closed.