Fullur

Stútfullur reyndar. Kvefaður upp fyrir augnlok, reyndar er kvefið mest þar fyrir ofan.

Ljósi punkturinn í dag var að horfa á Stuðbolta-stelpurnar á myndbandi. Þessi mynd kom víst ekki í kvikmyndahús eins og maður vonaðist eftir fyrir nokkrum mánuðum síðan. Launfyndnar teiknimyndir, fullorðnir og börn eru ekki að sjá sömu myndina í raun.

Slappleiki undanfarinna daga hefur nú brotist fram í almennum aumingjahætti með massakvefi, hausverk og viðlíka ófögnuði.

Fékk umsögnina um lokaverkefnið í dag og þar var auðvitað öllu hrósað enda fengum við tíu. Eina sem mátti finna að var hvernig útskýringar okkar á verkefninu fóru fyrir ofan garð og neðan hjá kennurum við verkefnisskoðanirnar. Við leystum það mál í lokasýningunni þegar mest á reyndi með því að harðsjóða staðreyndirnar og koma með einstaklega almenna lýsingu.

Við Sigurrós ætluðum að hafa það náðugt saman núna í 4-daga helgi en það er spurning hversu skemmtilegt fríið verður með okkur bæði hálfslöpp… hún er vonandi ekki að smitast af mér.

Helvítin í AC Milan unnu víst keppni stórliða Evrópu í kvöld. Leikurinn var víst markalaus og leiðinlegur er mér sagt. Helvíti blóðugt að minn maður, Pavel Nedved, skuli hafa komið sér í bann… hann hefði skorað bæði mörkin í 2-0 sigri Juventus annars (sem mér er ekki illa við þó þeir séu ekki Lazio).

Comments are closed.