Björn Bjarnason sendi mér svarpóst í dag en í gær sendi ég honum tengil á færslu mína þar sem hann kom talsvert við sögu. Hann þakkaði mér fyrir sendinguna en kvaðst ekki dreyma um að verða hermaður eða hershöfðingi.
Hann skrifaði reyndar ekkert um þá fleti sem ég velti upp varðandi kolólöglegar og siðlausar aðgerðir stríðsaðila, ætli maður verði ekki að ganga á menn með ítarlegan spurningalista og krefjast svara í eigin persónu.
Annars skilst mér að Björn hafi verið að miklu leyti alinn upp á hæðinni fyrir neðan núverandi aðsetur Betrabóls. Lítið land.
Í gær bakaði Sigurrós pizzur og við buðum pabba, Daða og Kára í kvöldmat. Kári var næturgestur hjá okkur í tvær nætur og þar áður í einar sjö eða átta hjá pabba þar sem mamma og Teddi fóru í golfferð til útlanda. Aðspurð var víst eina vandamálið hversu mikil sól var, þau eru víst bæði léttsteikt núna.
Í morgun leit pabbi svo við með Mannsa sér við hlið. Mannsi var mættur til þess að hefla dyrakarminn á svaladyrunum svo við gætum komist út á þær án mikilla vandræða. Vatnsveðrið í vetur hefur haft þau áhrif að allir karmar hafa tútnað gríðarlega út og þurfti umtalsverð átök til að opna, hvað þá loka.
Í dag sem undanfarna daga hef ég svo verið að vinna í DMC-kerfinu ásamt félögum mínum, þetta er stóra lokaverkefnið á leið okkar að B.Sc.-gráðunni.