Sófahershöfðinginn

Í morgun gerði ég undantekningu á reglu sem ég hef yfirleitt í heiðri. Ég hef það sumsé fyrir reglu að lesa aldrei þruglið sem kemur frá Birni Bjarnasyni í miðopnu Morgunblaðsins, það grætir mig yfirleitt að sjá skoðanir þessa manns sem er ekki eingöngu fyrrverandi ráðherra heldur einnig núverandi alþingismaður og borgarfulltrúi (of margir sem sitja þannig beggja megin borðs).

Í dag var það innrásin í Írak sem Björn var að rifna af stolti yfir. Hann fordæmir svo sófahershöfðingjana sem hafa látið í ljós efasemdir um útfærslu hinnar guðlegu dýrðlegu innrásar sem var gerð til þess að…

  • finna og eyða gereyðingarvopnum Íraka… þau hafa ekki fundist
  • gera út af við al-Qaeda sem Írakar styðja… en er bara algjör lygi eins og leyniþjónustumenn Bandaríkjanna, Bretlands og Ísraels hafa sagt
  • frelsa írösku þjóðina… frá Saddam og setja hana í hendur óaldarflokka sem tæma sjúkrahús og aðrar stofnanir af öllu sem þar er að finna á meðan að hermenn horfa á
  • frelsa írösku þjóðina… með því að skjóta litlar stelpur og litla stráka, konur og menn, fréttamenn og fleiri sem eru á vitlausum stað á vitlausum tíma eða líta ekki nógu friðsamlega út að mati bandarískra hermanna á táningsaldri
  • koma Saddam frá völdum… sem er langbest að gera með því að skjóta eldflaugum á veitingahús þar sem grunur lék á að hann væri, þeir sem voru í raun og veru á veitingahúsinu að snæða voru bara afskaplega óheppnir, þetta heitir annars aftaka án dóms og laga og er kolólöglegt eins og flest annað í stríðinu

Bíddu.. hver var aftur ástæðan? Ég er alveg búinn að gleyma hvaða afsökun þeir notuðu síðast. Birni er nákvæmlega sama enda klæjar hann illilega í að komast í slátrunina sjálfur.

Björn Bjarnason er nefnilega maðurinn sem að vill ólmur að Íslendingar eignist sinn eigin her og ætli hann, Sófahershöfðingi Íslands, verði ekki fyrsti hershöfðingi þess hers?

Þetta stríð er rangt ekki eingöngu vegna láts óbreyttra borgara heldur líka vegna þess að hegðun Bandaríkjanna jafnast nú fyllilega á við Sovétríkin gömlu. Ég bendi á litla frétt í Morgunblaðinu þar sem segir:

“lista 55 Íraka sem Bandaríkjaher gaf út í gær og fyrirskipaði að Írakarnir á listanum skyldu annað hvort handsamaðir eða drepnir”

Það er ekkert flóknara en það, gefinn út aftökulisti. Engir stríðsdómstólar, engin réttarhöld, engar sannanir. Bara hreinn og klár aftökulisti. Stríðsglæpum Bandaríkjanna fer ógvænlega fjölgandi. Fangarnir á Guantanamo sitja enn í einangrun og án lögfræðiþjónustu.

Velkomin í heim nýmálsins (newspeak, sjá bókina 1984) þar sem valdhafar skipta út orðum fyrir bull sem kemur þeim betur, þar sem hermenn eru ólöglegir bardagamenn og því ekki undir neina sáttmála seldir, þar sem herinn heldur ekki uppi lög og reglu á stöðum þar sem hann sprengir yfirvöld í tætlur, þar sem aftökulistar eru gefnir út, þar sem eldflaugum er skotið á mannmarga staði til að drepa aðila án dóms og laga. Frá Dýrabæ (Animal Farm) kemur svo Ísland, gaggandi hæna í liði með svínunum sem eru að slátra öllum sem ekki eru svín.

Þetta er verra en á hinum myrku miðöldum, þetta er að verða hreinasta helvíti.

Comments are closed.