Áfram Færeyjar!

Í dag gafst manni enn einu sinni kostur á að fylgjast með tölvuleik í beinni. Þetta átti nú að heita landsleikur Skotlands og Íslands í knattspyrnu en eins og Atli hefur sýnt og sannað þá er hann að prufa sig áfram með hluti sem hann skilur alls ekki. Championship Manager 4 var að koma út núna og ég er tilbúinn til þess að kaupa handa honum eitt eintak gegn því að hann segi af sér sem landsliðsþjálfari. Hann er víst nokkuð góður að peppa menn upp og það sést stundum í byrjun seinni hálfleiks þegar hann hefur fengið að lesa yfir mönnum yfir hvað þeir áttu vondan fyrri hálfleik.

Það hvarflar ekki að honum að hann ber sökina á þessum hræðilegu leikjum sem Íslendingar hafa sýnt. Menn spila í bandvitlausum stöðum miðað við hvað þeir gera vikulega í leikjum og daglega á æfingum og svo er það auðvitað gullmolinn hans Atla. Að bakka með allt liðið, nema Eið Smára, fyrstu 30 mínútur hvers leiks til að þreyta andstæðingana og gera þá pirraða þegar þeim tekst ekki að skora.

Hingað til hefur voðalega lítið reynt á þetta þar sem öll alvörulið sem við höfum mætt hafa auðvitað tekið því fegins hendi að fá að liggja í sókn og skora snemma.

Ég nenni ekki að eyða fleiri orðum í Atla. Líklega fínn náungi en hann er bara ekki með það sem þarf sem stendur. Þjálfari sem er ekki með taktík á hreinu og stillir ekki upp í leikkerfi sem allir þekkja fyrr en fimm mínútur eru til leiksloka er ekki mikill þjálfari. Að sjálfsögðu eyði ég engum orðum í þulina sem míga í sig af spennu þegar að Ísland kemst að vítateig andstæðinganna, nokkuð sem á að vera eðlilegur hlutur en ekki sjaldgæfur eins og raunin er.

Ég held með Færeyingum í riðlakeppninni núna, það er útséð með að Ísland komist neitt með Atla við stýrið.

Í kvöld er matarboð hjá mömmu og Tedda. Líklega eitthvað gott í gogginn þar.

Comments are closed.