Binni er mikill íslenskumaður og ekki sáttur við hugtakið “verðteygnar vörur”, að minnsta kosti þegar kemur að eldsneyti sem ekki er selt sem “vara”. Guðmundur er að nema þessi fræði og segir að
“notkun hugtaksins verðteygni er því ekki til marks um slæma máltilfinningu, heldur er bara verið að sletta frösum úr hinni merku hagfræði”
Ég held að Guðmundur hafi ekki náð punktinum, þessi frasi úr hagfræðinni er frekar asnaleg íslenska. Það eru mörg hugtökin sem þarf að þýða yfir á ylhýra úr ensku. Mjög misjafnlega tekst til og því miður oftast illa. Íslenskan byggist á miklu leyti á því að vera gegnsæ, samsett orð og hugtök eiga að vera skiljanleg við að sjá orðin sem mynda þau. Þetta er snúin list, því miður þarf stundum að sætta sig við slæma íslensku til að fá lýsandi hugtak.
Ég átti smá orðaskipti við Binna þar sem það stakk mig örlítið að spyrða saman geirfugli og verndun íslenskrar tungu. Ég held að íslenskan sé í ágætis málum, tungumál eru tjáskiptatæki sem taka þróun. Tungumál sem er krufið í eindir missir oft sveigjanleikann sem þarf til að það nýtist þeim sem það tala. Því lengist oft runan yfir undantekningar og ambögur sem hljóta sess í viðkomandi tungumáli.
Mamma leit við hjá okkur í kvöld, sjaldan sem við erum öll þrjú saman. Háskólanám er rúmlega fullt starf, hvað þá þegar unnið er í hlutavinnu með því. Verst að LÍN finnst það ekki.
Mamma var einmitt að nefna þau orð heilbrigðismálaráðherra að enginn þyrfti að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð. Það eru nýjar fréttir fyrir ömmu sem hefur beðið í tvö ár. Biðlisti eftir mjaðmaaðgerð telur 400 manns í Reykjavík og 100 manns á Akranesi. Lygar ráðamanna og vanmáttur heilbrigðiskerfisins eru mál sem þarf að taka á í komandi kosningum. Verst að enginn einn aðili virðist geta sett almenna borgara í þann forgang sem þeir eru að borga fyrir með skattfé sínu. Sendiráð í Berlín upp á milljarð króna er mikilvægara til að halda andliti Íslands út á við virðulegu.
Orð ráðamanna að ekki gengi að senda embættismenn út með lággjaldaflugfélögum þar sem það væri álitshnekkir fyrir Ísland sýnir firru þessara manna.
Tómas benti á sniðuga síðu þar sem má sjá fjölda þeirra sem bera umbeðin eigin- og millinöfn. Þetta ásamt Íslendingabókinni ætti að kæta áhugamenn um nöfn og ættir gríðarlega. Ánægjulegt að sjá að vefur Hagstofunnar hefur þroskast síðan að ég leit þar síðast við.
Í Írak er verið að sprengja eins og flestir vita en færri tóku eftir því að á sama tíma var blásið til nýrrar sóknar í Afganistan gegn Al-Qeda. Yfirmenn í Pentagon virðast reyndar ekki hafa tekið eftir þessum stóru hernaðaraðgerðum sjálfir,
The United States has launched one of its biggest military assaults on Afghanistan since Operation Anaconda a year ago but insisted it was a “coincidence” that the offensive began on the same day as the attacks on Iraq.
Ha? Vorum við að gefa skipun um árás á Írak og um leið árás á stóra hluta Afganistans? Við bara tókum ekkert eftir því.