Ekki var ég alveg viss hvort að Spaugstofan væri byrjuð þegar ég sat fyrir framan sjónvarpið og sá þar íslenska landsliðið bjóða Skotum afturendann. Skotarnir tóku boðinu vel enda berrassaðir undir pilsunum sínum (eins og mér er tjáð að allir áhorfendur RÚV hafi séð… ég hef greinilega litið undan á réttu augnabliki). Brátt varð mér þó ljóst að þetta var bara harmleikurinn sem ég spáði, ef eitthvað þá bjóst ég við jafnvel stærra tapi. Það hefði örugglega orðið raunin ef að Skotarnir hefðu ekki verið svona varfærnir, þeir ætluðu bara að hanga á sínu og tókst það.
Fyrir ári síðan skammaðist ég yfir ruglinu hjá Atla að setja sterkasta miðvörðinn á kantinn trekk í trekk, brandarinn auðvitað sá að það átti að vera taktískt snilldarbragð sem er bara hreint grín. Núna var Hermann meira í miðvarðarstöðunni en þá toppar Atli sig og setur leikstjórnanda íslenska liðsins, Rúnar Kristinsson sem að var þvílíkt frábær á miðjunni í Frakkaleiknum, út á kantinn. Væntanlega annað taktískt snilldarbragð.
Fyrsta spyrna leiksins sýndi leikstílinn sem Atli lagði fyrir, neglt fram og láta framherjana elta boltann. Ég hefði aldrei ráðið Atla, hann er örugglega vænsti strákur og vill vel en landsleikir eru nokkrum stigum fyrir ofan hans getu, að minnsta kosti eins og er. Íslenska landsliðið er ekki skólavist fyrir þjálfara, þeir bestu eiga að fá að stjórna því, ekki þeir sem eru nýgræðingar.
Spaugið kom um kvöldið, Spaugstofan komin aftur eftir alllangt hlé og verð að segja að þeir koma vel undan feldi. Mikið skotið á Davíð sem á allt þetta og meira til skilið. Kaldhæðnin mun beittari nú en áður, ef mig minnir rétt.