Núðlur námsmannsins

Eftir morgunógleði (feginn að vera ekki stelpa… þá hefði ég þurft að hugsa um fleira en magakveisu) greip mig fítonkraftur í hádeginu og ég fór út vopnaður laufhrífu og sóp, 5 svartir ruslapokar fullir af laufblöðum voru afraksturinn. Mig grunar að 2 þeirra séu vegna trjáanna í garði nágrannans, öll trén hjá honum orðin kviknakin. Þröstur Þrastarson sýndi verkum mínum mikinn áhuga, hann kom í garðinn til að hægja á sér sýndist mér, í beðið þannig að það var í lagi, og vappaði alveg upp að mér og virtist vera í leik við hrífuna. Hann goggaði í einn orm sem hann fann en skyrpti strax út úr sér, enda ekki mjög mikill stærðarmunur á þeim.

Bjó til nýjan rétt sem ég kalla Núðlur námsmannsins, líklega eru til fleiri með sama nafni en þetta er mín útgáfa. Ég var einn heima, við áttum núðlur en allt kjöt var í frysti. Því greip ég einn tómat, eina ananasdós og eitt konfektepli, bútaði allt niður og henti á pönnu og leyfði að malla þar á meðan að núðlurnar suðu. Léttur málsverður, ódýr og örugglega nokkuð hollur. Dósin hefði reyndar verið heldur seig undir tönn þannig að ég notaði aðeins innihald hennar.

Þingmaðurinn Pete Stark (Demókrati) frá Kaliforníu hittir alla naglana á höfuðið með þessu eina höggi sínu, því miður gekk ályktunin eftir og fátt sem getur stöðvað George W. Bush í að verða valdur að dauða hundruða þúsunda manna og bágari lífskjara heima fyrir og í Miðausturlöndum.

Sumir taka starf sitt öðrum tökum en aðrir, tveir starfsmenn dýragarðs í Þýskalandi átu 5 hænur og 2 kindur sem að börn fengu að klappa.

Ekki get ég sagt að mig langi mjög mikið á Hotel Dieu-sjúkrahúsið í Frakklandi. Pípari fann núna um daginn rotnandi lík í kjallaranum sem var íklætt sjúkrahúsfötum. Rannsókn stendur yfir á því hvort að um hafi verið að ræða sjúkling sem að gleymdist eða útigangsmann sem stal fötunum og kom sér fyrir í kjallaranum. Ónefndur starfsmaður sjúkrahússins segir undir nafnleynd að sjúkrahúsið týni 7-8 sjúklingum ár hvert. Hvernig ætli staðan sé á illa reknu og fjárþurfi sjúkrahúsunum okkar? Æi já… við sendum fólk heim og látum það rotna þar í staðinn fyrir að gera aðgerðir sem eru nauðsynlegar og sjálfsögð mannréttindi!

Franska ríkisstjórnin er núna komin í ham með siðavendnina (les: afskiptasemi af einkalífi fólks), nýjasta útspilið gegn klámi er að leggja 93% skatt á klámmyndir! Mér finnst klámmyndir einstaklega óspennandi en af hverju ætti það að ráða því að aðrir njóti þeirra?

Comments are closed.