Af kynlífi er það helst að frétta að sítrónusafi er allra meina vörn, áður fyrr var hann mikið notaður sem getnaðarvörn (hann steindrepur sæðisfrumur) og vísindamenn eru víst að enduruppgötva hann nú þessa dagana en síðustu áratugi hefur ekki verið tekið mark á neinu sem var ekki illa þefjandi og framleitt á tilraunastofum í heimi læknavísinda. Svo virðist sem að sítrónusafinn dugi einnig gegn HIV-veirunni. Þeir sem vilja æstir prófa geta lesið leiðbeiningar í greininni.
Þjóðverjarnir leyfa manni nú að skeina sér á orðum annara, í bókstaflegri merkingu þess orðs. Klo-Verlag framleiðir nú klósettrúllur þar sem er að finna ljóð og sögur eftir þekkta höfunda. Mörgum þykir gott að lesa á klósettinu og þetta leysir það mál. Þeim sem er illa við viðkomandi ritsmíð geta svo notið þess tvöfalt að skeina sér.
Eitthvað er veruleikafirring að naga hana Julie Jules í Ástralíu. Hún er framkvæmdastjóri Internetfyrirtækisins TPG og er búin að hóta einum starfsmanna sinna brottrekstri ef hann hættir ekki að biðjast fyrir í vinnunni. Hann tekur sumsé tvær 5 mínútna pásur í vinnunni á hverjum degi og biður til Allah. Hann líkir þessu við það þegar aðrir starfsmenn taka sígarettuhlé (mig grunar reyndar að það sé MUN meira en 10 mínútur á dag sem þeir taka…) en hefur samt boðist til þess að vinna 10 mínútum lengur ef það settlar hana Julie. Hún er alveg gallhörð kerlingin: “I just can’t have people taking breaks whenever they want. We run a business here.”
Harry Potter hefur verið rakkaður niður í skriftarstólum kristinna manna víða um heim en nú er komin út skýrsla frá CBTI (samtökum kirkjudeilda Bretlands og Írlands) þar sem hvatt er til þess að honum sé hampað.
Ekki vildi ég vera íbúi í Shanghæ þess dagana. Þar er rembingur embættismanna við að vera tekin alvarlega af umheiminum (íslandssyndrome) það mikill að bannað er að fljúga flugdrekum víða (sums staðar vegna háspennulína) og ekki má hengja þvottin út að stórgötum borgarinnar.
Þeim sem vilja fara í geiminn bendi ég á að hægt er að sækja um það í þætti í rússnesku ríkissjónvarpinu 1TV, 16 þáttakendur verða valdir og einn þeirra mun svo fara í vikugeimferð ásamt tveimur atvinnugeimförum.
Önnur frétt af kynlífssviðinu er sú að hægristjórnin í Frakklandi ætlar nú að gerast siðavönd (les: unna öðrum ekki einkalífs) og er nú farin að handtaka vændiskonur og viðskiptavini þeirra.
Eins og við er að búast er ég ekki hættur í kynlífinu, klámiðnaðurinn er nefnilega einn sá tæknivæddasti í heimi og nú eru klámkóngar að vinna að því að búa til raddstýrða gagnvirka ríðingadiska á DVD-formi þar sem hægt er að hrópa hvað eigi að gera og þá taki það gildi (hraðar! hraðar!). Margir hafa sagt að tæknistig Internetsins væri mun lægra ef ekki væri fyrir klámið, ég er raunar efins um það sjálfur.
Talandi um Internetið þá er nú í gangi í Bandaríkjunum alveg brilljant framtak, Internet Bookmobile. Þetta er bíll sem ekur á milli staða og prentar út bækur af vefnum fyrir þá sem þess óska. Þetta er brilljant framtak sem er til að vekja athygli á Mikka Mús-lögunum svonefndu, en stórfyrirtækin reyna nú allt hvað þau geta að láta einkarétt haldast fram í hið óendanlega á ritverkum. Eins gott að Voltaire og félagar voru ekki með svona samsteypu á sínum tíma, þá gætum við verið að borga þrefalt fyrir að lesa verk þeirra.
Smá fótboltafrétt að lokum, flestir muna eftir Pierluigi Collina, sköllótta dómaranum með brjálæðislega svipinn og útstandandi augun. Þessi frétt greinir frá því að hann missti hárið vegna sjúkdóms sem þekktur er sem alopecia areata og talið er að 1% manna þjáist af honum. Mig minnir að einn félagi minn í menntaskóla hafi einmitt verið orðin nær sköllóttur við útskrift. Collina er að taka upp hanskann fyrir þá sem þjást vegna þessa sjúkdóms, aðallega vegna þess hvernig litið er á þá sem eru hárlitlir eða sköllóttir.
Malcolm in the Middle byrjaður aftur, algjör æpandi snilld!