Heimkoma

Mér gekk afspyrnuilla að sofna þrátt fyrir að vera gífurlega þreyttur, því var erfitt að skreiðast framúr klukkan þrjú í nótt til að ná rútunni á flugvöllinn um fjögur. Í rútunni fengum við fréttaskeyti frá Íslandi, það var fróðlegt að lesa í fréttaskeyti gærdagsins að allt væri brjálað vegna CANTAT-3 sem að enn eina ferðina varpaði Íslandi í myrkviði tækniheimsins. Skrifaði lesendabréf í Moggann 10. ágúst 2000 þegar að Ísland varð sambandslaust í að mig minnir 3 daga eða svo. Ritaði Birni Bjarna bréf þar sem að hann var netvæddasti ráðherrann og hann sagði að þetta væri ekkert sem að stjórnvöld myndu puttast í. Það er svolítið undarlegt að ríkið passi upp á Flugleiðir og flugsamgöngur en ekki upp á netsamgöngur sem að skila meiri verðmætum en flugið gerir.

Fríhöfnin á Faro opnaði ekki á meðan að við dvöldum þar, kaffiterían opnaði loksins klukkan 6 þegar að við vorum búin að vera þarna í rúman hálftíma. Þar reyndist svo nærri ekkert að fá nema snakk og ís.

Í vélinni kláraði ég seinni Ramses-bókina, Ramses:The Lady of Abu Simbel. Frekar mikið flúr líkt og í hinni bókinni, öruggt að ég les ekki meira í þessum flokki. Sæmileg lesning en frekar í tilgerðarlegri kantinum.

Hvað sagnfræðina varðar var þó áhugavert að sjá útskýringu á plágunum sem að Móse (sem er sögupersóna í bókinni) sagði að Guð hefði lagt á Egypta. Blóði lituð Níl var eðlilegt fyrirbæri vegna nokkurs konar leysinga, engisprettufaraldurinn var eðlilegur þó í stærri kantinum væri, froskamergð mjög eðlileg árstíðabundin sveifla og reyndar talin lukkumerki, og svo áfram má telja. Ég held svei mér þá að heimurinn gæti verið friðsælli ef að Móse hefði ekki ætt áfram með gyðingana og farið í bardaga við þáverandi íbúa núverandi Ísrael og Palestínu.

Í Leifsstöð hittum við Höllu, Hófí og Eymar (já… Eymar) sem að voru á leið til Portúgal í viku sjálf. Gáfum þeim portúgalska símakortið okkar enda takmörkuð not af því hér á landi. Versluðum svo 5 léttvínsflöskur í fríhöfninni, 4 rauðvín og 1 rósavín. Ætti að endast okkur vel fram yfir áramót enda hófdrykkjufólk mikið.

Pabbi sótti okkur svo og skutlaði heim. Í fjarveru minni hafði hann tekið Mözduna og dyttað að henni og farið með í skoðun. Hún fékk reyndar grænan miða vegna smávægilegra atriða sem að lítið mál á að vera að redda. Mazdan á langa lífdaga sína góðum akstri mínum og góðri aðhlynningu pabba að þakka.

Þegar heim var komið rúmlega 11 vorum við að deyja úr hungri, morgunmaturinn í vélinni (hrærð egg, brauðsneið og alvöru skinkusneið) var ekki það frábær né seðjandi. Ég skaust því strax út og keypti tvo stóra kjúklingabáta sem við vorum svo snögg að tæta í okkur áður en við lögðum okkur. Brosti að túristunum sem ég sá á ferðinni, ekki margir klukkutímar síðan að við vorum túristar hinum megin í Evrópu á stuttbuxum, en hér voru túristarnir íklæddir úlpum með húfur á hausnum.

Eftir nokkurra tíma blund skaust Sigurrós svo og keypti í kvöldmatinn, á verðinu mátti auðveldlega sjá að við vorum komin heim. Verðmunurinn á matvöru er svimandi. Hinn sívinsæli réttur eggjanúðlur með kjúklingi var í matinn og bragðaðist listavel.

Eftir matinn stússaðist ég með honum Auðunni í kjallaranum við að finna út hvaða hæð borgaði fyrir hvaða ljós í sameigninni áður en ég hélt í Grafarvoginn.

Fór Sæbrautina til að taka bensín hjá Orkunni og sá Esjuna í fínum skrúða. Með hvíta skýjakrúnu og sól sem að gerði hana mikilúðlega og glæsilega. Það var gott að vera kominn heim frá Portúgal þar sem allt var skraufþurrt en rakt.

Í Grafarvoginum heimsótti ég fyrst Sigrúnu og skoðaði aðeins fartölvuna hennar, fór svo heim til mömmu og fékk iMacinn hennar til að tala við ADSL-routerinn. Eftir mikið vesen var loksins símalínan og öll símatengi komin í lag, en tíma tók þetta hjá Landssímamönnum.

Í kvöld horfðum við svo á fyrstu þrjá þættina í Malcolm in the Middle, frábærir þættir og skondið að sjá aðalleikarana svona unga í fyrstu seríunni.

Comments are closed.