Sigurrós var aftur á undan mér á lappir og vaskaði upp leirtauið áður en ég drattaðist fram úr.
Stefnan þennan síðasta dag okkar var sett á Zoo Marine með hinum Íslendingunum. Þetta er sædýragarður með leiktækjum og sýningum.
Byrjuðum á því að fara í Parísarhjólið til að fá smá yfirsýn yfir svæðið. Skelltum okkur svo á sæljónasýninguna sem að var smá gamanleikrit. Ágætis trúður sem að hitaði upp svona til að halda gestunum rólegum í sætunum.
Þaðan fórum við beint á höfrungasýninguna þó sársvöng værum, sýningarnar eru bara 3svar á dag eða svo. Aftur hitaði trúðurinn upp en nú með tveimur félögum sínum. Höfrungarnir og þjálfarar þeirra héldu svo fína sýningu sem gaman var að sjá.
Sársvöng héldum við á pizzustaðinn (okkur finnst pizzur almennt góðar já), biðum þar í sæmilegri biðröð sem að óx og óx eftir að við vorum búin að pota okkur í hana. Þessi dagskrárliður fékk nafnið Restaurant du Inferno, veitingastaður helvítis. Pizzurnar sem við pöntuðum reyndust varla ætar, flugur gerðu harða hríð að okkur þar sem við átum og allir foreldrarnir sem voru með pínulítil og leiðinleg börn settust hringinn í kringum okkur og ærðu okkur úr hávaða. Ekki skil ég af hverju fólk tekur börn á aldrinum 0-3 ára í svona garða, þau eru of ung til að vita hvað er á seyði og hundleiðist bara og eru þreytt og líður illa og pirra foreldra sína og aðra viðstadda.
Eftir þessa hörmung héldum við að sýningarsvæði selanna, sýningin var nærri búin þannig að við röltum bara niður í nokkurs konar helli og fylgdumst með rostungi og selum synda í búrum sínum. Við sáum ekki fram á að ná næstu selasýninguna nema missa af rútunni og héldum því á brott þaðan.
Næsta stopp var sjávardýrasafnið. Þar var fyrst sýnd smá kvikmynd um höfrunga og sjóinn, efni sem að við Íslendingarnir þekkjum vel og biðum því bara eftir því að sú sýning kláraðist. Því næst lá leiðin að mörgum glerbúrum þar sem við fengum að sjá alls konar fiska, lindýr og önnur minni sjávardýr. Eitt stórt glerbúr var svo þarna þar sem tveir stórir hákarlar sinntu um með minni hákörlum, skötum, skjaldböku og ýmiss konar fiskum. Kjálkasafnið af hákörlum var áhugavert, all svakalegar tennur í ýmsum stærðum. Líkan af búrhval í raunstærð fékk okkur til að finnast mikið til um og svo lauk túrnum í minjagripabúð. Nokkuð góð hugmynd hjá þeim en við féllum ekki fyrir neinu þar.
Þegar út var komið sáum við lítinn rússíbana sem að nefnist Buffalo. Þrír hringir með tveim skörpum beygjum fengu magann til að fá smá hnút og lítil börn og ungar stúlkur fengu útrás fyrir öskur.
Þegar heim var komið fórum við að pakka niður áður en við héldum í hinsta sinn í Modelo. Þar fengum við okkur gamaldags Hawaiian (Tropical í Portúgal) og gerðum lokainnkaupin í öðrum verslunum.
Þegar heim á hótel var komið ákváðum við að fara á Laugarveginn í hinsta sinn til að kaupa þar lítil stafræn útvörp sem við höfðum tekið eftir í fyrri Laugarvegsferð okkar.
Endurpökkuðum svo og gengum frá öllu áður en við héldum í háttinn.