Mikið letikast hjá okkur í morgun, höfum ekki sofið svo vel. Rúmin í harðari kantinum og vöknum af og til um miðja nótt.
Þegar við loksins fórum á fætur var stefnan sett á að finna sér mat, fyrir valinu varð McDonalds staður nálægt hótelinu. Stefnan hafði verið sett á kínverskan stað sem er þar fyrir ofan en við treystum okkur ekki í kínverska matinn á fastandi maga þegar á reyndi. Fyrir 7 evrur fengum við tvær stjörnumáltíðir, þetta hefði ekki dugað fyrir einni stjörnumáltíð hérna heima. Franskarnar voru að mestu látnar í friði enda óætar eins og ég hef minnst áður á.
Við hliðin á McDonalds var Levi’s búð. Litum þar við til að skoða föt og fundum þar skyrtu á mig og peysu á Sigurrós. Verðið ekki svo langt frá því sem það er hérna heima en það er bara búið að vera vonlaust að versla föt undanfarið vegna leiðindatískunnar sem er í gangi núna.
Eftir þetta stukkum við út í laug, og að þessu sinni dvaldist ég lengur en áður. Sólaði mig svo á legubekk og las bók á meðan að Sigurrós svamlaði á vindsænginni og kom svo á legubekk og las þar í góðan tíma. Ég hafði gleymt að bera á lappirnar og þegar að þær voru farnar að verða rauðar hélt ég inn, lengsta sólbaðið sem ég hef verið í núna.
Eftir afslappelsi (chill) á herberginu þar sem að DeeJay stöðin fékk að rúlla enda mörg fín lög þar í gangi, tókum við stefnuna á “Laugarveginn”. Gengum hann nú nærri því alveg niður á ströndina í leit að kínverskum veitingastað sem mælt hafði verið með. Eftir að hafa séð nokkra slíka en ekki þann rétta ákváðum við að fara á stað sem að er mjög neðarlega og heitir Venezia. Pöntuðum þar calzoni (pizza sem er brotin saman og myndar hálfmána) með skinku og ananas. Urðum eilítið undrandi þegar að maturinn kom á borð, pizzusósan var ofan á og hafði ekki verið elduð með. Mér fannst það reyndar vera nokkuð sniðugt þegar ég fór að skera, gat nú sjálfur smurt sósunni og réð þykktinni sjálfur. Virkilega gott og mæli hiklaust með þessum rétti hjá þeim. Umhverfið er líka virkilega notalegt þarna fyrir utan hjá þeim, við vorum fyrstu kúnnarnir í kvöldmat en vorum svo sæt þar sem við sátum úti að fleira fólk fór fljótt að flykkjast að.
Eftir matinn skaust Sigurrós á klósettið og tilkynnti mér svo að það væri það þrifalegasta sem hún hefði séð nokkru sinni. Fyrir utan skolskál (þær eru annars tær snilld) þá var sér ruslafata bara fyrir hygiene (dömubindi og túrtappar) og svo var það rúsínan, klósettseturnar voru huldar plasti og til að skipta um plast var ýtt á takka og þá rúllaði nýtt plast sjálfkrafa í stað þess sem fyrir var (nokkuð sem sumum ætti að finnast æðislegt). Þessi fínheit reyndust ekki vera til staðar á karlaklósettinu, það er sjaldnast svoleiðis.
Eftir að hafa borgað reikninginn fengum við svo okkur til ánægju frímiða sem hljómaði upp á eitt glas af sangria á mann á barnum hinum megin við götuna. Starfsfólkið var á þönum á milli þannig að þetta var líklega í eigu sama manns (Alfredo… fengum nafnspjaldið hans um leið og við fengum frímiðann). Sátum og sötruðum sangriað í rólegheitum, södd og ánægð í kvöldsólinni. Mælum með Venezia og The Sultan (Sultao á portúgölsku) Bar.
Töltum svo rólega upp Laugarveginn, fengum okkur ís á leiðinni og héldum svo heim á hótel.
Á leiðinni þangað mættum við íslensku pari á aldur við okkur sem var að koma frá hótelinu og á leið í bæinn. Bæði klædd í djammföt og stúlkan sendi okkur kuldalegt augnaráð, leist greinilega illa á okkur þar sem við vorum á leið úr bænum, ekki í djammfötunum og sleikjandi ís. Lægsta lífsform sem að hún getur hafa ímyndað sér.
Við hlógum að greyinu þegar það var farið framhjá, vitum ósköp vel að djamm er engin lífsnauðsyn, hvað þá stöðumerki.
Kvöldinu var eytt með DeeJay og Boomerang/Cartoon Network. Rólegt og skemmtilegt.