Portúgal: Dagur 5

Rétt fyrir hádegi tilkynnti ég Sigurrós að ég ætlaði í ferð til að finna félagsfána Imortal fyrir Mike félaga minn sem safnar slíku. Imortal er félagslið bæjarins og spilar í annari deildinni. Hún tók ekki annað í mál en að yfirgefa sundlaugina og fara með mér.

Á hótelinu hafði mér verið sagt að fara á Rue do Tenis þar sem bækistöðvar þeirra væru. Til að komast þangað fórum við niður í gamla miðbæinn og svo upp næstu hæð sem var frekar brött og við svitnuðum eitthvað við þetta labb í steikjandi sólinni. Þegar að við fundum svo staðinn reyndist það vera lokað íþróttahús og enginn í nágrenninu gat gefið neinar frekari upplýsingar, íþróttabarinn sem var í þarnæsta húsi hafði uppi fána og trefla þriggja stóru liðanna í Portúgal (Benfica, Porto og Sporting) sem og merki ýmissa evrópskra stórliða en ekkert sem minnti á sjálft bæjarliðið.

Við örkuðum því framhjá gömlu kirkjunni og niður að miðbæ til að fá okkur að borða, orðin frekar svöng eftir labbið. Fundum sæmilegan matsölustað sem var með frábæru útsýni yfir eina ströndina, hann heitir Esplanada do Tunel og liggur sjávarmegin við stór göng í gegnum klettinn. Snæddum ágætis grillaðan kjúkling og horfðum á berbrjósta kvenfólk og aðra sólarunnendur. Skondnir voru strákarnir sem voru í boltaleik og voru alltaf að missa boltann í tvær sætar stelpur sem voru frekar nýkomnar en ófeimnar.

Á leiðinni heim festi ég kaup á tveimur kiljum í Ramses-bókaröðinni eftir Christian Jacq sem að hafði fengið lofsamlega dóma. Þetta voru reyndar bækur númer 3 og 4 í röðinni en ég ákvað að láta bara reyna á þær.

Kvöldmaturinn var snæddur í herberginu, Sigurrós eldaði eggjanúðlur með nautakjöti (4 evrur pakkinn af góðu kjöti) sem bragðaðist sæmilega en ekkert á við eggjanúðlur og kjúkling sem er einn af uppáhaldsréttunum okkar.

Las fyrri Ramses-bókina, Ramses:The Battle of Kadesh í kvöld. Ensk þýðing á franskri sögu, hvort að það skýrir tilgerðarlegan texta oft á tíðum veit ég ekki. Áhugavert frá sagnfræðilegu sjónarmiði (saga er skemmtileg fyrir utan íslenska bændasögu og álíka leiðindi) en fullmikið af yfirnáttúrulegum atburðum og væmni fyrir mig, slagaði stundum upp í rauða ástarseríu með því flúri sem því tilheyrir.

Fór þó að velta áhugaverðum punkti fyrir mér, sólin er aðalguðinn hjá Egyptunum og reyndar í all mörgum trúarbrögðum. Hér hjá okkur á norðurhjara er sólin hins vegar aukaatriði, enginn guð sem að stjórnar henni en í staðinn eru það þrumur og eldingar sem að eru oft í talsverðu aðalhlutverki.

Comments are closed.