Portúgal: Dagur 4

Dúlluðum okkur á herberginu fram til 11 þegar að ég skaust út til að versla sólarvörn númer 24 og after-sun. Þessi sólarvörn númer 15 var ekki að virka fyrir mig, ég er með frekar lélega sólarhúð og tókst að brenna afskaplega illa á öxlunum og fá sólsting að auki á Íslandi fyrir nokkrum árum sem að er afrek út af fyrir sig.

Þessi kaup voru einkum gerð sökum þess að nokkrum mínútum síðar héldum við í vatnsleikjagarðinn Aqualand, sem að er auglýstur sem The Big One. Eftir smá skoðunarferð um svæðið og smá rennibrautaferð fengum við okkur það sem selt var sem hamborgarar í litlum söluskála þarna. Hamborgarinn sjálfur reyndist ekki vera úr kjöthakki heldur kjötfarsi og óætur með öllu. Nokkrir bitar teknir til að seðja sárasta hungrið og afganginum svo hent.

Okkur tókst báðum að meiða okkur í rennibrautasafninu sem er kallað Anaconda eða Corkscrew (fer eftir því hvað þú lest), einar 5 rennibrautir í sama turninum. Ég marðist innan á báðum handleggjum, stórir og glæsilegir marblettir eftir að hafa henst á miklum hraða utan í veggina í braut númer 2 og nærri upp úr. Sigurrós náði að slípa sár á olnbogann í braut númer 3 sem var líka frekar ofbeldisfull.

Við hættum okkur ekki í geðveikina Banzai Boggan þar sem maður kemur sér fyrir á litlu bretti og rígheldur í áður en maður er látinn gossa niður líklega 60° halla í nöturlegri stálrennu sem að myndi líklegast slípa verulega af manni ef maður missti takið á brettinu.

Sigurrós var duglegri í rennibrautunum en ég, ég var hræddur við sólina og dvaldi því lengi vel undir sólhlíf sem við leigðum.

Ágætis skemmtun, fín aðstaða þarna og við fórum sátt heim á leið eftir rúmlega fimm tíma dvöl með hinum Íslendingunum.

Kvöldmaturinn var snæddur á Kentucky Fried Chicken. Kjúklingaborgarinn olli mér vonbrigðum, engin BBQ-sósa notuð þarna og það munar miklu um það. Að auki voru franskarnar alveg eins og á McDonalds. Þannig franskar virðast vera með tæringu og að auki eru þær úr deigi sem að engin kartafla er í, óæti hið mesta sem að ber að forðast. KFC fær því mínus í Portúgal.

Las Walking on Glass eftir Iain Banks. Vel skrifuð bók með súrrealískri upplifun. Banks klikkar ekki.

Comments are closed.