Portúgal: Dagur 3

Vaknaði 7:30 og skaust út með handklæðin okkar til að taka frá bekki. Þegar við fórum á fætur svo rétt fyrir tíu var alveg skýjað, við gerðum heiðarlega tilraun til að vera við sundlaugina en þegar að Sigurrós fór að klæða sig í peysu og varð samt kalt í rokinu gáfumst við upp og hörfuðum í herbergið.

Skruppum svo í labbitúr á hinn svokallað Laugaveg, sem að er nefndur The Strip á ensku, hann myndar nýja miðbæinn sem er mun austar en gamli miðbærinn. Á leiðinni þangað fór að hlýna og á Laugaveginum fór sólin að brjótast fram. Þegar á hótelið var komið aftur stukkum við bæði í laugina, ég reyndar bara upp að mitti áður en ég hörfaði upp úr og greip mér bók í hönd. Þegar að rauðir flekkir fóru að myndast hörfaði ég svo enn lengra, nú í herbergið þar sem ég kláraði bókina Radio Free Albemuth eftir Philip K. Dick. Mögnuð saga þar sem PKD fer í talsverðar trúarbragðapælingar. Síðasta skáldsagan sem kom frá honum.

Kvöldmaturinn var snæddur á Pizza Hut, að þessu sinni gerðumst við ævintýragjörn og fengum okkar Hawaiian (túnfiskur, rækjur og ananas) með þunnum botni (í stað deep pan). Pizzan var vel æt en frekar þurr, túnfiskurinn er þunnt sneiddur en ekki í feitum stykkjum eins og hér heima (fékk eitt sinn hér heima pizzu með bönunum og túnfiski, ekki slæm).

Á leiðinni í gegnum lobbýið sáum við stóran hóp ungra mjórra stúlkna sem allar klæddust stuttum ljósbláum (hinn geysivinsæli azul litur) kjólum, við nánari skoðun reyndust þetta vera stúlkur að keppa í Miss 2002, allar á milli 175 og 185 cm á hæð og með nær ekkert utan á sér. Ekkert sem að heillaði mig.

Kláraði svo bókina A Maze of Death eftir áðurnefndan PKD eftir kvöldmatinn, frekar kuldaleg saga.

Bókaþorsta mínum voru nú engin takmörk sett, las aðeins frameftir til að klára þriðju bókina þennan daginn, Flow My Tears, The Policeman Said einnig eftir títtnefndan PKD. Undarleg saga um þjóðþekktan mann sem vaknar á hótelherbergi og virðist vera orðinn gjörsamlega óþekktur og í miklum vanda.

Tvær og hálf bók á einum degi, ekki slæmt, reyndar allt kiljur í styttri kantinu (190-280 blaðsíður hver).

Comments are closed.