Portúgal: Dagur 2

Vöknuðum rúmlega 10, þreytt eftir lítinn svefn nóttina áður. Sigurrós fór að versla og stakk svo tánum út í laug. Við mættum svo á fund þar sem fararstjórarnir kynntu sig og atburðina framundan. Við skutumst síðan í smá hattakaup, Sigurrós fékk sér bláan hatt og ég mér brúnan, líkur þeim sem að Steve Irwin hefur stundum á kollinum. Ekki spillti fyrir að stuttbuxurnar mínar eru nokkuð líkar hans.

Ský fór að draga fyrir sólu um leið og við lukum hattakaupunum, dæmigert. Fararstjórarnir fóru með hópinn í labbitúr um gamla bæinn í Albufeira og við skelltum okkur með. Þegar að komið var í sjálfan miðbæinn nenntum við ekki að elta hjörðina og fundum okkur matsölustað, fyrir valinu varð Lisa’s Pizza & Pasta, það sem aðallega dró okkur þangað var skemmtileg aðstaða, svalir sem að borðin stóðu við og við gátum horft niður á hina túristana skoða sig um (annar staður með sama nafni er til í nýja miðbænum, við “Laugaveginn”). Fengum okkur pizzur með skinku og ananas, þær voru vel ætar en ekkert sérstakar að öðru leyti.

Töltum svo til baka á hótelið, mest öll leiðin nú upp í móti. Fáir bekkir voru á lausu í sundlaugargarðinum, hér tíðkast það að fólk hoppi út rúmlega sjö á morgnana, taki frá bekki og fari svo aftur inn og láti ekki sjá sig útivið fyrr en seint og síðarmeir. Sigurrós hoppaði út í laug með vindsængina á meðan að ég sat með bók í hendi. Þegar að ég fann að það var farið að líða að því að ég með viðkvæmu húðina færi að brenna héldum við upp á herbergi. Þegar þar var komið vorum við bæði orðin frekar sloj, og grunaði nú saltskort. Skruppum að versla og Sigurrós eldaði kalkúnakjöt (“peru” á portúgölsku) sem bragðaðist ágætlega.

Í ríkissjónvarpinu var sýndur leikur Benfica og Marítimo, Marítimo voru mjög sprækir en Benfica náðu undirtökunum og þegar að markmaður Marítimo gerði sig sekan um fávitaskap og fékk sitta annað gula spjald og þar með rautt spjald (í stöðunni 2-0) datt neistinn úr leiknum. Benfica skoraði úr vítinu og vann 3-0. Ánægjulegt var að sjá hvað allir leikmennirnir voru flinkir, allir gátu spilað einnar snertingar fótbolta og gerðu það oft á tíðum, algjör hátíð miðað við flest ensku liðin til að mynda.

Áhugavert:

  • Albufeira-Strip
  • Comments are closed.