Við vorum að pakka til 2 í nótt, margt að stússast í. Sigurrós setti nýtt persónulegt met, aldrei pakkað jafn litlu niður. Þegar við vöknuðum svo klukkan 7 í morgun stungum við koddunum okkar niður í töskurnar áður en við læstum þeim. Af fenginni reynslu vitum við að ekki er hægt að treysta því að fá mannsæmandi kodda á hótelum eða öðrum dvalarstöðum.
Stefnan í þessari ferð var sú að vera sem mestir túristar og unnt væri, síðasta utanlandsferð okkar var alfarið í okkar höndum og núna nenntum við ekki að eltast við lestir á eigin spýtur heldur gefa okkur fararstjórunum á vald og slappa sjálf af.
Pabbi skutlaði okkur svo í Leifsstöð. Í fríhöfninni var ekki ein einasta verslun opin en heil hrúga af Þjóðverjum og Dönum sem að lágu á bekkjum. Á skjánum mátti sjá að vélarnar þeirra áttu að fara um klukkan þrjú í nótt en höfðu tafist um 12 tíma, takk fyrir það.
Kaffiterían var þó opin, starfsmaður þar tjáði okkur að verslanirnar opnuðu yfirleitt tveim tímum fyrir brottför, þar sem að tæpir tveir tímar voru í okkar brottför og að auki fullt af starfsfólki á vappi á bakvið rimlana fannst okkur þetta hið undarlegasta mál. Eftir talsverða bið opnuðu svo loks verslanir og við festum kaup á geisladiskum. Ég skil ekki alveg hvaða röksemdarfærsla liggur á bakvið það að hafa starfsfólk á launum innan við rimla verslanna á meðan að viðskiptavinir vappa um fyrir utan en gáfulegheit eru svo sem ekki meðal íslenskra þjóðareinkenna.
Við flugum með leiguvél frá SATA, öðru tveggja portúgalskra ríkisflugfélaga. Vélin var sams konar og flugfélagið sem áður þekktist sem Flugleiðir nota, Boeing 737-300.
Annað sem að ég skil ekki röksemdir á bak við reyndar, þegar að allir eru búnir með matinn úr bökkunum (fínasti kjúklingur og pasta í þetta sinn) af hverju í ósköpunum er ekki hægt að taka bakkana þegar að gengið er um og þrjár umferðir af kaffi boðnar?
Flugið var rúmir 4 tímar til Faro og ég hafði því nógan tíma til að byrja á og klára Second Foundation á leiðinni. Skemmtileg sería þessi frá Asimov, verð að finna rest.
Við lendingu í Faro trítluðum við niður landganginn og í 25°C hita og talsverðan raka. Á flugvellinum eru reykingarmenn réttilega settir í skammarkrókinn, einn staur stendur þar rækilega merktur og aðeins við hann mega þeir standa og púa sitt eitur, frekar fyndið að horfa á, vantaði bara tossahattana.
Sigurrós setti annað persónulegt met þegar að ferðataskan hennar var sú fyrsta sem að kom á færibandinu, mín fylgdi 4 töskum seinna. Hingað til hefur Sigurrós oftast þurft að bíða lengi vel eftir töskunni, og einu sinni í 5 daga þegar að taskan hafði viðdvöl í Peking á leið sinni milli Parísar og Keflavíkur.
Við vorum því fyrst út og fundum strax fararstjórana sem að vísuðu okkur veginn að rútunum. Loftkælingin þar var gleðiefni. Eftir að hafa fyllt tvær rútur var haldið af stað til Albufeira þar sem við innrituðum okkur á 4-stjörnu hótelið Paraiso de Albufeira.
Nú var farið að líða að kvöldmat og tókum við því strikið að verslunarklasanum sem er nefndur Modelo (eftir samnefndri stórverslun sem að tekur mest allt plássið þar). Þar niðri fundum við Pizza Hut stað og ákváðum að setjast þar að snæðingi, enda alvöru túristar í þessari ferð. Þjónustustúlkan reyndist glöggskyggn, við ætluðum að panta það sama og oftast hér heima, Hawaiian sem að er yfirleitt skinka og ananas. Hún bað okkur hins vegar að staðfesta að við vildum virkilega fá Hawaiian með túnfiski og rækjum. Við nánari skoðun á matseðli sáum við að Hawaiian hér var einmitt með þess konar áleggi, okkar pizza hét hér Tropical. Þjónustustúlkan brosti og kinkaði kolli, ætli einhverjir Íslendingar hafi ekki pantað Hawaiian eitthvert skiptið og gert allt vitlaust þegar að þeir fengu túnfiskinn.
Með Tropical pizzunni fengum við okkur litla rauðvínsflösku, vatn og kartöflubroskalla, engar brauðstangir á boðstólum í þessu landi. Samtals kostaði þetta okkur 17 evrur, sem að eru um 1400 krónur. Talsvert ódýrara en heima.
Versluðum smá morgunmat, vatnshelda myndavél og Sigurrós fékk sér bláa vindsæng með gulum blómum áður en við héldum í fína herbergið okkar.
Þar horfðum við á Heavenly Creatures í gervihnattasjónvarpinu áður en við héldum í háttinn.
Tunglið var appelsínugult þegar að það var rétt komið upp, greinilega þó nokkur mengun því að seinna um kvöldið þegar það var hátt á himni var það orðið hvítt eins og því fer best.