Groove og samúð

Búinn að vera að skoða Groove í dag, mjög áhugavert hópvinnukerfi sem að ég og félagi minn í Ameríku erum að meta núna hvort að sé sniðugt að nota við stjórnun WFO. Bjarni benti mér á þetta, faðir Lotus Notes stendur víst að þessu.

Innilegar samúðarkveðjur fær Stefán Pálsson en bíll hans lést sviplega í gær. Þetta gerðist 50 metrum frá heimili mínu þar sem að bíllinn minn, Mazda 323 1987 módel sem að hefur verið trú og trygg undanfarin átta ár, svaf værum blundi og missti því af þessari sorgarstundu systur sinnar.

Áhugavert er upphlaup Peter Chernins, forseta Fréttasamsteypunnar. Hann skammast yfir því rusli sem til er á Internetinu og segir að netið sé að verða verðlaust vegna kláms og annars ógáfulegs efnis. Ef svo er þá hljóta bókabúðir, bensínstöðvar og fleiri löngu að vera orðnar verðlausar vegna sorablaða sinna og slúðurblaða.

Nú er hægt að fá Internet Explorer útlit á Mozilla þannig að grandalausir gætu verið að nota Mozilla án þess að vita af því. Kannski maður prófi þetta og athugi hvort einhver fatti breytinguna. Hér er svo að finna fleiri svona þemu fyrir vafrann sem er að komast í mikið uppáhald hjá mér.

Í dag fór síðasta lánið í bili í gegn, yfirdrátturinn horfinn og íbúðin að fullu greidd til seljanda. Þá er bara að þola vextina af lánunum næstu tuttugu ár, afborganirnar af höfuðstólnum eru minnsta málið.

Mikið ofboðslega er veðrið fúlt í dag og kvöld, hífandi rok og rigning. Það verður gott að sjá til sólar eftir 18 tíma eða svo.

Comments are closed.