Í dag fórum við út fyrir bæinn og stefnan var sett á Sælukot þar sem að stórfjölskylda Sigurrósar í föðurætt var samankomin eins og flestar verslunarmannahelgar.
Við lögðum af stað úr bænum upp úr tvö og gerðum svo stopp á Selfossi þar sem við fengum vatn og með því. Hellisheiðin var sú gráasta í lengri tíð, skyggni 12 metrar og það var ekki fyrr en við komum niður úr Kömbunum að við sáum númerið á bílnum sem við höfðum ekið á eftir síðustu 30 kílómetra.
Þegar að við komum svo í Sælukot að verða fimm var farið í það að tjalda, jörð var blaut en nánast engin rigning. Við rétt náðum að velja stað og smella upp tjaldi og henda himninum lauslega yfir áður en demban byrjaði. Til allrar lukku vorum við með stórt tjald sem að er skráð sem 4-5 manna tjald, líklega fyrir einhverja sem eru plássminni en við, og þannig tjöld eru með alvöru himni. Síðast þegar við vorum í tjaldi við Sælukot var það í kúlutjaldi, en þar er himininn svo nálægt tjaldinu að það blotnar alltaf í gegn.
Ég las svo Foundation eftir Asimov, fyrsta bindið (reyndar er svo komið bindi sem er Prelude to Foundation.. og er þá núllta bindið ef talið er í tölvumáli) í Foundation-seríunni sem er með mestu stórvirkjum bókmentanna á síðustu öld. Bókin var vel skrifuð, með áhugaverðum pælingum. Næsta bók í seríunni er á náttborðinu.
Grillað var svo að verða níu að kveldi til, kokkarnir stóðu við tvö grill utandyra íklæddir regnstökkum eða með regnhlífar yfir sér.
Eftir matinn var mikið húllumhæ, og tróðumst við öll 25 talsins inn í þennan litla bústað. Gítar og munnharpa voru undirleikur við söng, og talsvert af léttu áfengi haft við hönd. Sumir háskólanemar sendu unga krakka út í rigninguna til að ná í meira áfengi, sem að krökkunum fannst spennandi enda heyrt sögur af háskólanemanum þegar hann væri fullur. Þegar miðnætti nálgaðist fjölgaði svo enn meir, þegar að 8 manns og hvolpur bættust í hópinn og þá voru sumsé einir 33 einstaklingar og hvolpur samankomin í litla kotinu.
Gleðskapurinn fjaraði rólega út rétt rúmlega tvö um nóttina þegar að einn og einn fór að ganga til náða.