Vaknaði líklega um sex í morgun og hlýddi kalli náttúrunnar í faðmi náttúrunnar. Bjart var og engin rigning en ég skreið bara aftur í svefnpokann enda enginn annar á ferli. Það sem eftir lifði morguns vöknuðum við Sigurrós af og til en þegar að við heyrðum róandi nið regnsins á tjaldinu duttum við aftur útaf.
Loks stauluðumst við á fætur á hádegi, og fórum að planleggja heimferð. Upphaflega hugmyndin hafði alltaf verið að vera bara eina nótt, og stóðum við við hana. Rúmlega tvö fór ég svo að taka saman tjaldið okkar í úrhellisrigningunni á meðan að Sigurrós hafði ofan af fyrir börnum Guðbjargar sem að tók sitt tjald saman. Guðbjörg kom svo og aðstoðaði mig við að troða tjaldinu bara í skottið, rennandi blautt og það tók því alls ekki að reyna að troða því í neinn poka.
Við fórum svo í samfloti til Rögnu og Hauks þar sem að nýbakaðar skonsur og vöfflur hleyptu krafti í okkur eftir hráslagalega ferð.
Á leiðinni heim svo yfir Hellisheiðina fóru tveir geðsjúklingar framúr okkur, annar yfir tvöfalda óbrotna línu og hinn yfir einfalda brotna línu. Við fórum einmitt framhjá skilti þar sem stóð “Hraðann eða lífið?” þegar að sá fyrri fór framúr. Mér er svo sem andskotans sama þó að þessir geðsjúklingar drepi sig, en verra er ef þeir taka saklaust fólk með sér, farþega í eigin bíl eða þá sem að eru í bílum í næsta nágrenni við þá. Ég vil bara að menn missi skírteinin ævilangt ef að þeir reynast óargadýr í umferðinni, 20 manns látnir á árinu í umferðinni og enn er nóg eftir af því. Lögreglan var við litlu kaffistofuna þegar að seinni bíllinn fór þar framúr okkur á ólögmætan hátt. Mikið gagn af henni sem fyrri daginn, maður ætti kannski að fá flokkskírteini frá Kína til að verða öruggur í umferðinni?
Áhugavert: