Vélbúnaðarpróf

Ekki bjóst ég við því að vakna alveg að deyja í hálsinum og öxlunum. Go-kartið tók aðeins á bæði en þar sem þetta voru bara tuttugu mínútur auk þess sem við slöppuðum af í Bláa Lóninu á eftir þá reiknaði ég ekki með neinu svona. Nú veit ég betur.

Fór í lokaprófið (ef ég náði…) í Vélbúnaði áðan. Byrjaði mjög seint að lesa og rétt náði að klára glósurnar 20 mínútur í prófið. Var aðeins í 35 mínútur inni svo, gekk vel á öllum spurningunum nema einni (var það mutex eða demux… who cares). Bjartsýnn á að ná og það er það eina sem ég stefni á núna.

Í kvöld kíkti ég á mína gömlu félaga í Iceland United og sá þá vinna B.R. með 5 mörkum gegn 2. Gekk reyndar brösuglega og voru heillengi 1-2 undir en eftir að Paolo skoraði 3ja markið og staðan varð 3-2 datt allt niður hjá B.R. Hópurinn hjá Iceland United virðist fullur þannig að ekkert varð úr comebackinu að þessu sinni, reyndar virðist fjöldinn í hópnum sveiflast mikið milli leikja, í bikarleiknum gegn Puma sárvantaði varamenn en nú voru margir til reiðu. Fyrsta comebackið mitt í fótboltann þetta sumarið verður því á fimmtudaginn í Hugvitsboltanum, spennandi að sjá hvort að ég kiksa í fyrstu tilraun eður ei.

Ég skil ekki ruglið með SPRON. Þarna er bara um hostile takeover að ræða, SPRON gengur vel og nýtur velvilja viðskiptavina sinna og skilar hagnaði, allt hlutir sem að hver meðal kapítalisti hlýtur að gleðjast yfir, því svona á draumakapítalisminn að virka. Nú ber svo við að ríkisfyrirtækið Búnaðarbankinn og aðrir aðilar vilja ná völdum í þessu litla góða kapítalíska fyrirtæki, og með því að öskra orðið “einkavæðing” þá fylkja allir sanntrúaðir Sjálfstæðismenn (Deiglan og fleiri) sér á bak við þá. Þeir segja að þó að þeir skili hagnaði og hafi ánægða kúnna þá sé formið á rekstrinum rangt í þeirra augum, nú hvern andskotann eru þeir þá að pæla í þessu? Af hverju sinna þeir ekki því sem nær þeim er? Núna er valdþjöppun samfélagsins í fullu swingi og þessir spekingar segja að það sé það langbesta sem til er. Kannski af því að þeir eiga hlut í risunum sem eru að drepa litlu kallana sem að gera þó allt rétt og gengur betur en risunum í kúnnaviðskiptum?

Sigurrós nefndi við mig í gær nokkuð sem ég veit vel af, undanfarnar vikur hafa dagbókarfærslurnar mínar verið í talsverðum reiðitón. Það er satt og það er því miður þannig vegna þess að það er allt á beinni leið til andskotans eins og er. Skert tjáningarfrelsi, handónýtir fjölmiðlar, vitfirrtir stjórnmálamenn sem fá ekkert aðhald, peningasugur sem fá móralskan stuðning siðblinds fólks sem fylgir sínum eigin prinsippum aðeins þegar það borgar sig fyrir það og svo má lengi telja. Við erum á hraðferð til myrkra miðalda og það er bæði vitleysingunum í brúnni að kenna sem og atvinnuveitendum þeirra, okkur kjósendum og viðskiptavinum sem tökum ekki um hreðjarnar á þeim og látum þá haga sér eins og siðað fólk.

  • Icann boss: ‘We’re not undemocratic’
  • Kahn wins Golden Ball
  • Ten things I learned about life and soccer from the 2002 World Cup
  • Comments are closed.