Tannlæknir

Skrapp til tannlæknisins í dag, skömmu eftir að ég pantaði tíma í venjulega skoðun brotnaði svo upp úr tönn hjá mér þannig að þetta hentaði ágætlega. Svo fræddi hann mig um að ástæðan fyrir því að neðri endajaxlarnir eru eiginlega stopp, rétt farið að sjást í þá, er sú að efri endajaxlarnir sáu sér leik á borði og tóku allt plássið.

Hægri endajaxlinn var svo frekur að hann er nú það sem er kallað “siginn”, hann sumsé er orðinn lengri en hinir jaxlarnir, auk þess sem neðri jaxlinn kemst ekkert að vegna frekjunnar. Áður en efri endajaxlarnir verða teknir ætla ég hins vegar að láta líta á kjálkann á mér, undanfarið hef ég þrisvar sinnum hrokkið úr lið við smá geispa, og oft þarf ég að láta smella í kjálkanum til að losna við smá þrýsting. Ástæðan fyrir þessu er sú að vinstra megin eru liðamótin eitthvað laus í sér, sem veldur skriði og veseni. Þarf að panta tíma á morgun hjá sérfræðingstannlækni vegna þessa.

Á föstudaginn er svo ónæmislæknirinn. Alltaf að koma fleiri og fleiri líkamlegir gallar í ljós… kannski ég láti screena sæðið mitt áður en við förum að eignast barn svo að allir þessir gallar sem eru að hrjá mig erfist ekki.

Fasteignasalinn hringdi svo í dag, allt tilbúið til undirskriftar, göngum í það á morgun, náði líka í skjölin vegna lífeyrissjóðslánsins til VR, þarf að láta þinglýsa því og þá er önnur greiðslan okkar komin í reiðufé. Þá er ég líka orðinn skuldugur maður í eiginlega fyrsta sinn. Spurning hversu mörg ár það verður…

Comments are closed.