Frakkland: Dagur 4

Þegar við vorum í Vizille í gær keyptum við Frosties til að hafa í morgunmat. Frosties pakkinn var mun ódýrari en kornflex pakki þannig að hann varð fyrir valinu þó óhollari væri. Þegar við ætluðum svo að fá okkur kalda mjólk út á komumst við að því að það er ekki til siðs að hafa kalda mjólk í Frakklandi. Við fengum því volga G-mjólk (mjólk með geymsluþol einhverja 6 mánuði að minnsta kosti) út á morgunmatinn, sem var ekki ýkja gott.

Hádegismaturinn var svo eitthvað það versta sem ég hef smakkað, einhverjir kjötbögglar vafðir í belg, svo virtist sem kjötið væri af ýmsum tegundum dýra og misógeðslegt, mig grunar að þetta hafi verið ungverskrar ættar. Hitastigið var nú 25°C, sól en einhver ský á himni.

Jean skutlaði okkur í aðalverslunarmiðstöðina í Grenoble, Grand Place, þar ætluðum við að finna á mig ljósar buxur og stuttbuxur, en aðeins fundust ljósar khakí-stuttbuxur á mig, Sigurrós fékk hins vegar peysu á sig fyrir veturinn, og rak augun í jakka sem henni leist mjög vel á.

Fórum því næst með sporvagni frá verslunarmiðstöðinni inn í miðborg Grenoble, því förinni var nú heitið til Maríu, sem var vinnukonan á heimilinu sem Sigurrós var au-pair á. Hún og fjölskylda hennar búa við eina aðalgötu Grenoble, sem hins vegar engir sporvagnar fara að. Því fórum við gangandi frá miðbænum í átt að heimili hennar, nema hvað að þá hóf þessa líka úrhellisrigningu. Áður en við fórum að heiman höfðum við lýst yfir áhyggjum af skýjafarinu, en Jean sagði að það myndi sko ekki rigna, það væri bókað. Því höfðum við ekki regnjakkana með, en þeir hefðu komið að góðum notum. Nú upphófst merkilegur kafli þar sem við gengum búð úr búð í leit að regnhlífum, en alltaf var okkur vísað á næstu líklegu verslun. Loksins fundum við regnhlífar í stórverslun, og festum kaup á tveimur litlum og nettum. Út fórum við og höfðum regnhlífarnar uppi, auðvitað fór regninu þá að slota nokkrum mínútum síðar.

Eftir langan göngutúr um aðalumferðaræðar Grenoble komum við að blokkinni þar sem María býr. Það urðu fagnaðarfundir þegar að hún og Sigurrós hittust aftur, ég hafði hitt hana þegar ég fór út en hún talaði enga ensku og franskan mín var fátækleg þannig að samskipti okkar á milli fóru fram í gegnum Sigurrós.

Kvöldmaturinn hjá þeim hjónum Maríu og Paolo (þau eru bæði portúgölsk) var svo portúgalskur saltfiskréttur með kartöflum og ólívum. Mun betra en hádegismaturinn en samt ekki alveg uppáhaldið mitt. Hvítvín var drukkið með, og á eftir var okkur boðið að bragða púrtvín. Heimilisfaðirinn var orðinn eitthvað ölvaður, en þrátt fyrir það heimtuðu þau að skutla okkur heim, þannig að ölvaður karlmaður heimilisins settist í bílstjórasætið, ég í hitt framsætið og Sigurrós, María og synir hennar tveir fóru í aftursætið. Sem betur fer kom Paolo mér á óvart með því að vera úrvalsökumaður, besti ökumaður reyndar sem ég hef keyrt með í Frakklandi, Jean gamli hins vegar er svaðalegur í umferðinni.

Þegar heim var komið buðu Jean og Zsouzsa þeim inn, og við buðum upp á íslenskt nammi. Því var ekki ýkja vel tekið, strákarnir smökkuðu lakkrísinn en skiluðu honum strax aftur. Hvað er með þessa lakkrísómenningu þarna í Evrópu?

Eftir að María og fjölskylda hélt svo heim fórum við Sigurrós í háttinn, og ég kláraði að lesa Red Mars eftir Kim Stanley Robinson, fyrstu bókina í Mars-trílógíu hans.

Comments are closed.