Sváfum loksins út, orðin vel þreytt eftir ferðalagið til Frakklands og svo þeytinginn um sveitirnar hérna í kring síðustu daga.
Klukkan 12 fórum við í Parc de Vizille, lystigarð í Vizille, sem er bær örstutt frá Champ sur Drac. Byrjuðum á Byltingarsafninu sem er uppfullt af alls konar dóti tengdri byltingunni 1789. Það var víst í Vizille sem að forsprakkarnir komu saman og lögðu á ráðin. Safnið er allt í lagi en ekkert hrikalega áhugavert, svo var skondið að hafa starfsmenn ofan í manni þegar að maður skoðaði málverkin. Hvernig ætli maður fái starf við að sitja í herbergi og passa málverkin í því, 8 tíma á dag, hverjar eru hæfniskröfurnar og hvernig er vinnumórallinn? Fara menn að tala við myndirnar?
Úti var sól og 28°C þannig að eftir skoðunarferðina fórum við í garðinn og gengum aðeins áður en við settumst á bekk, þar byrjaði ég á fyrstu bókinni af Mars-trílógíunni, Red Mars XX eftir XX. Eftir smá dvöl þar hófum við svo aftur göngutúr um þennan stóra garð, og reyndum að koma auga á hin ýmsu dýr sem þar er að finna. Þau virtust vera dugleg að fela sig fjarri girðingunum, þannig að eftir þennan duglega göngutúr fundum við okkur annan bekk og dunduðum okkur þar við lestur/bréfaskriftir þar til að klukkan varð 17 og Zsouzsa sótti okkur eins og um hafði verið samið.
Kvöldmaturinn var í léttara lagi eins og Frakka er siður, nema hvað að nú var hann mjög léttur, pönnukökur með sykri og öðrum sætindum.
Mikið þrumuveður um nóttina, nokkuð sem að maður er ekki mjög vanur frá Íslandi. Eldingar og þrumur héldu aðeins fyrir mér vöku, svo ekki sé minnst á rakann.