Nýtt ár – nýr vefur

Þá opna ég hér með formlega þennan einkavef minn. Ég er búinn að vesenast í gríðarlegum fjölda vefja síðan 1995, og telst þetta vera minn þriðji svona einkavefur (það er, þriðji vefurinn sem að kemur eitthvað inn á mig sjálfan).

Þar sem mér er meinilla við tóma vefi þá get ég nú eilítið glaðst yfir því að ég er með eitthvað lesefni fyrir þá sem hafa ekkert betra við tímann að gera. Ég er nefnilega búinn að halda dagbók sem nær frá 14. ágúst (afmælisdeginum mínum) og fram til dagsins í dag. Hér til vinstri er þetta skemmtilega dagatal sem að ég bjó til, sem að ætti að auðvelda lesendum að fletta fram og aftur.

Ég ætla að biðja Egil um að pota mér á NagPortal, og ég ætla að gerast svo djarfur að nefna dagbókina mína “Riddari Bjargvættur”. Svo að menn haldi ekki að ég sé endanlega dáinn úr egótrippi þá er þetta einfaldlega merkingarþýðing á fornafni mínu og millinafni, Jóhannes þýðir “riddari guðs” (en sem guðleysingi sleppi ég guðs-partinum) og Birgir þýðir víst “bjargvættur”.

Gleðilegt nýtt ár, og velkomin.

P.S. Það er margt fleira sem býr í þessum vef en sést í byrjun, ég er með nokkra fítusa sem ég er að dunda mér við að fínstilla, þar á meðal val um útlit á vefnum sjálfum. Það mun hins vegar allt koma í ljós þegar ég nenni að setja það í gang (og þegar ég er sáttur við útkomuna).

Áhugavert lesefni:

  • Biskup Íslands bullar
  • Comments are closed.