Lögfræðibrölt

Það er áratugur síðan ég var að væflast um í lagadeild HÍ og sá fljótlega að þetta fag var ekki alveg að heilla mig.

Þessa dagana er ég hins vegar að grafa í gegnum lagabálka til þess að fullvissa mig um að enn sé tjáningarfrelsi í landinu. Að auki hef ég verið að koma auga á ýmsar forneskjulegar klausur sem benda til alræðishyggju þingmanna sem upphaflegu settu lögin, eitthvað sem mætti bæta svo að við komumst endanlega frá haftatímabilinu þegar að sækja þurfti um leyfi til þess að eyða peningunum sínum og almenningur var ofurseldur skriffinnum sem fannst fátt skemmtilegra en að hafna hlutum sem eðlilegir þykja í dag.

Á föstudaginn sendi ég Útlendingastofnun smá samantekt um stjórnarskrána og upplýsingalög þar sem ég benti á nokkur af grundvallarréttindum þegna landsins, sem væntanlega eiga að ná til gesta einnig.

Ekki hef ég fengið svar, kannski tekur þá smá tíma að grafa upp gögn til að svara nokkrum spurningum sem ég setti fram, en sá að Hildur Dungal kvartaði undan því að lög voru frekar loðin og hvergi stóð “henda má fólki úr landinu sem er ósammála ríkisstjórninni og handbendum hennar”.

Ég bíð enn eftir svari frá forsætisráðuneyti og utanríkisráðuneyti varðandi spurningar mínar um hvaða ótrúlegu sönnunargögn þeim voru sýnd sem fengu þá til þess að lýsa yfir stríði gegn Írak.

Nýjasta viðbótin var svo hótun lögfræðistofu í Bretlandi gegn íslenska Sheffield Wednesday vefnum, þar sem við vogum okkur að birta leikjalista Uglanna fram í desember. Mér fannst ógurlega gaman að safna saman helstu lögfræðiálitum og dómum varðandi þetta mál og senda til baka, því miður hefur ekkert svar borist, hvorki afsökunarbeiðni né frekari rökstuðningur. Smá brot af svari mínu má lesa á vefnum.

Ég er farinn að óska þess að við tökum upp hið breska einmenningskjördæmakerfi. Það kemur illa út á heildarvísu varðandi fylgi flokka, en aftur á móti gerir það hvern þingmann ábyrgari fyrir stefnu sinni og gerir að auki fleirum kleift að sækjast eftir embættinu án þess að þurfa að fara í gegnum flokksvélar sem spýta út úr sér já-mennum.

Það eru nefnilega nokkur lagafrumvörpin sem þarf að taka til í og sum mætti jafnvel taka alveg úr umferð og láta falla í gleymskunnar dá.

Endum þetta á léttu nótunum, smábílar eru farin að verða varhugaverð farartæki í breskum safarí-garði, ljónunum finnst þeir líkjast bráð.

Comments are closed.