Aktu taktu er ógeðslegt!

Í kvöld var stefnan sett á kósíkvöld og ákveðið að kíkja á einhvern matsölustað og í bíó.

Við reyndumst vera á ferðinni á frekar óheppilegum tíma og fengum ekki af okkur að bíða í hálftíma á American Style þannig að við brunuðum í Mjóddina og festum þar kaup á bíómiðum.

Ákváðum að kíkja á Staldrið og grípa bara hamborgara þar. Talsvert liðið síðan maður leit þar inn. Við pöntuðum matinn og sátum svo og lásum í blöðum þar til borgararnir voru bornir á borð.

Fyrsti bitinn kom verulega á óvart, þegar annar og þriðji bitinn staðfestu grunsemdirnar sem höfðu vaknað vorum við snögg að láta frá okkur “matinn” og horfa furðulostin á hvort annað. Hvílíkur viðbjóður! Þetta var einna helst eins og kjötfars blandað beinmulningi!

Við nánari athugun kom í ljós að Staldrið hét ýmist Staldrið eða Aktu taktu! Aktu taktu fór á svarta listann hjá mér fyrir nokkrum mánuðum þegar ég fékk álíka hamborgara þar, ekki bjóst ég við að þeir hefðu náð að breiða úr sér og væru komnir með Staldrið líka.

Ég vil nú helst ekki skaða viðskipti þó mér mislíki eitthvað en þetta var bara einum of ógeðslegur matur til að láta skoðunina ekki í ljós.

Við vorum því ekki ýkja södd þegar við litum í kvikmyndahúsið en fylltum upp í mesta tómarúmið með poppkorni á meðan við horfðum á Bridget Jones leika listir sínar. Þokkalegasta mynd.

Comments are closed.