Skammist ykkar

ASÍ á að skammast sín fyrir að hafa tekið höndum saman með ríkisstjórninni og sett þumalskrúfur á kennara sem standa nú frammi fyrir því “vali” að taka samningi sem er að efni til 95% eins og sá sem var felldur með 93% atkvæða eða hafna honum og taka því sem gerðardómur velur samkvæmt loðnum forskriftum og getur því farið enn verr en núverandi tilboð. Starfsgreinasambandið lætur líka urra í sér, vilja að kennarar séu áfram á sama bás og þeir hafi verið og orðið leiðrétting er þeim gjörsamlega framandi.

Einar Oddur á jafnframt að skammast sín fyrir að gefa í skyn að sveitarfélög fari á hausinn við það eitt að greiða kennurum þessi lúsarlaun, í hvern andskotann eru sveitarfélögin að eyða pening í ef ekki menntamálin! Þetta er einföld spurning um forgangsröðun og þar eiga menntamál að vera ofarlega ef ekki bara efst.

Ríkisstjórnin ætti að skammast sín en er búin að skíta svo í skóinn sinn og minn í þessu og öðrum málum að þessi skítlegheit sjást varla á haugnum þeirra og þeir hafa aldrei getað skammast sín. Ekki hafði kjaradómur miklar áhyggjur af verðbólgu þegar laun þingmanna snarhækkuðu degi eftir síðustu kosningar.

Þessi 25% sem talað er um er einstaklega villandi tala, næsta ágúst koma þarna 9% inn í EN LAUN FLESTRA KENNARA HÆKKA EKKI VIÐ ÞAÐ þar sem um er að ræða skólastjórapottana sem flestir kennarar hafa. Þessi 9% “hækkun” verður því varla sjáanleg á radar launagreiðenda, helvíti vel sloppið að segjast vera að hækka um 9% en gera það ekki. Þarna er bara um bókhaldstrikk að ræða, í stað þess að kennarar fái þennan pening sem launapotta þá eru þeir nú fastir í laununum. Það munar engu í umslaginu fyrir þá.

Hvernig þessi 16% hækkun sem eftir stendur reiknast upp í óðaverðbólgu í þjóðfélaginu og 30% kostnaðarauka sveitarfélaga geta bara brellumeistarar í bókhaldi svarað.

Önnur villandi tala er lækkun kennsluskyldu sem furðu margir virðast halda að þýði minni vinnu fyrir kennara! Þarna er bara verið að koma til móts við þá staðreynd að kennarar nota margir frítíma sinn til að vinna ólaunað til að undirbúa eða yfirfara námsefni, þarna er verið að minnka þann tíma sem kennarar eru í sjálfboðavinnu. Það er vissulega til bóta en þýðir sko alls ekki minni vinnu fyrir kennara.

Að gera kennara, sem NÆR ALLIR viðurkenna nú orðið að hafi orðið eftir á í launaþróun, ábyrga fyrir því að ASÍ og aðrir hlaupi nú upp og segi “við viljum fá sömu hækkun þó að við viðurkennum að kennarar hafa orðið eftir á” er hræsni og bölvaður óþverri.

Ég borga skattana mína og útsvarið og ætlast til þess að peningarnir fari í mikilvægustu málin fyrst, heilbrigðis- og menntamál. Allt annað er og á að vera í öðru sæti því að án heilbrigðis og án menntunar þá erum við bara aumingjar.

Þessi samningur frestar bara vandanum, grunnskólakennarar eru enn langt á eftir þeim sem eitt sinn voru þeim samstíga í launum í áþekkum störfum. Næst þegar samningar verða lausir er alveg eins líklegt að kennarar fari aftur í verkfall og reyni að þokast enn lengra í átt að réttlæti. Dóri verður varla forsætisráðherra þá og er því bara að reyna að sleppa billega í þessu eins og öðru.

Comments are closed.