Sælukot – Skaftafell – Bónorð!

Mikill ferðadagur í dag.

Héldum í morgun úr Sælukoti og þræddum helstu ferðamannastaði Suðurlands, Seljalandsfoss, Skógarfoss, Dyrhólaey og Reynisdranga, áðum í Vík og fengum hamborgara áður en við byggðum smá vörðu í Laufskálavörðu, svo var það Stjórnarfoss, Foss á Síðu, Dverghamrar og loks renndum við í hlað á Bölta í Skaftafelli.

Þar sem sólin skein og klukkan var rétt rúmlega 17 og veðurspá morgundagsins að auki frekar vafasöm ákváðum við að flýta óvæntu uppákomunni.

Ég tilkynnti Jeroen því að það væri núna sem hann ætti að láta verða af þessu. Hann klæddi sig í betri buxur og því næst þrömmuðum við öll að Magnúsarfossi og svo Svartafossi í Skaftafelli.

Þegar hér var komið voru flestir frekar þreyttir enda búinn að vera langur og mikill dagur, gangan upp brekkuna við Skógarfoss var til dæmis nokkuð strembin.

En stefnan var sett á Sjónarnípu, með útsýni yfir Skaftafellsjökul. Eftir talsvert skraf og ráðagerðir höfðum við Sigurrós nefnilega orðið sammála um að það væri staður sem að Jeroen vildi, mjög íslenskur (jökull + útsýnið) og gullfallegur, sérstaklega í sólskininu.

Á meðan að við Sigurrós settum myndavélar í gang hvíslaði Jeroen að Jolöndu og þegar að við gáfum merkið um að allt væri tilbúið fór hann á hnén og bað hennar þarna, hátt yfir jöklinum í glampandi sól.

Comments are closed.