Jökulsárlón

Eftir bónorðið í gær fórum við á Hótel Skaftafell og fengum þar þokkalegan mat. Við spurðum (án þess að Jeroen og Jolanda skildu orð) hvort ekki væri hægt að gera eitthvað spes fyrir þau í tilefni dagsins. Hótel Skaftafell gaf þeim eftirrétt með tveimur sósuhjörtum sem mæltist vel fyrir og fá þeir þakkir fyrir það.

Eftir morgunmat var haldið að Jökulsárlóni og biðum við þar í einn og hálfan tíma eftir að röðin kæmi að okkur að komast í siglingu um lónið. Þessar 90 mínútur nýttum við í að ganga niður að sjó og fylgjast þar með sel sem færðist sífellt nær landi, sáum aldrei meira en rétt í trýnið á honum þó en undir lokin var hann all nærri.

Eftir siglinguna (bláu ísjakarnir vöktu mikla athygli) héldum við í Skaftafell og fengum okkur súpu í bensínskálanum beint á móti Hótel Skaftafelli. Við Jeroen vorum orðnir eitthvað framlágir þarna vegna smá slappleika.

Eftir súpuna fékk mannskapurinn sér blund áður en haldið var í Flosalaug, hún reyndist ísköld og jafn lítil og okkur minnti. Við flúðum því snögglega í heitu “pottana”.

Við kíktum því næst í þjónustumiðstöðina þar sem við ætluðum að gæða okkur á hamborgurum, en viti menn, einkarekstur hættur og veitingasala þar með líka. Því átum við aftur á Hótel Skaftafelli en í þetta sinn hamborgara.

Því næst var haldið “heim” á Bölta þar sem við spiluðum Malefiz í tvo tíma áður en ég fór afskaplega slappur upp í rúm. Veikindi að láta á sér kræla.

Kláraði þó að lesa The Soddit sem Sigurrós gaf mér fyrir þó nokkru. Gott spoof á The Hobbit og aðrar álíka sögur.

Comments are closed.