Monthly Archives: June 2004

Uncategorized

EM-leikur!

WFO er að fara í gang með EM-leik en Íslendingar fá smá forskot á sæluna þar sem fólk í vinnunni var margt líka áhugasamt, því er hægt að spila íslenskan EM 2004 leik. Er að leggja lokahönd á að búa til svona einkadeildir fyrir þetta og því tilvalið fyrir vinahópa/vinnuhópa sem gjarnan leggja bjór eða annað í púkk fyrir svona stórmót. Öllum frjálst að skrá sig þarna!

Einkadeildir ættu að vera tilbúnar í kvöld en það er engin bráð hætta þó að þær séu ekki virkar fyrr en á sunnudag ef illa fer, allir munu halda stigunum.

Ronald Reagan karlinn lést um daginn og virðist sem að goðsögnin um hann stigmagnist með hverjum deginum. Fréttamaður sem fylgdist grannt með lokum kalda stríðsins vill því minna á að Reagan var í aukahlutverki við að ljúka því, Gorbatsjovs var aðal.

Mæli með Húðun ef fólk er í viðgerðahugleiðingum, stóðu sig vel hjá okkur.

Uncategorized

Smá hikst

Vefsamband við ýmsa vefi betra.is gæti hafa hikstað aðeins í dag. Var að færa DNS yfir á annan aðila og gleymdi einni stillingu.

Ætti allt að vera orðið smurt núna á næstu klukkutímum.

Uncategorized

Welcome

Welcome to America.

There’s no trick to being a humorist when you have the whole government working for you.

Will Rogers (1879 – 1935)

Uncategorized

Í smettið

Það var ekki seinna að vænna. Mætti í boltann í fyrsta sinn í 2-3 ár og andköfin sem ég tók voru eftir því. Ætti kannski að taka astmapúst fyrir svona hreyfingu en pústið heldur mér hins vegar í þvílíkum hjartslætti lengi eftir inntöku að það er næstum verra en hitt.

Hitti þar meðal annars Sverri í fyrsta sinn. Hitti líka boltann á einstaklega áhugaverðan máta, ætlaði að negla honum í burtu en negldi honum í fót sem kom sveiflandi á móti og fékk boltann í smettið af þvílíku afli að Jabbar-gleraugun mín flugu burt og ég sat eftir með myndarlegan marblett á miðju enninu.

Það verður gaman að sjá hvernig hann verður á litinn á laugardaginn þegar ég útskrifast.

Skemmtilegt safn að opna í Ameríkunni fyrir sci-fi áhugafólk.

Uncategorized

Brúðkaup Óskars og Sóleyjar

Við fórum í brúðkaup Óskars og Sóleyjar í gær. Vorum reyndar næstum mætt í brúðkaupið á undan, vorum að gera okkur tilbúin að hlaupa út rétt fyrir tvö þegar ég tékkaði á boðskortinu og sá að athöfnin var ekki fyrr en 16:30.

Við slöppuðum því af næstu tvo tímana áður en við héldum svo í kirkjuna sem er í þarnæsta húsi. Hún reyndist umtalsvert öðruvísi en mig minnti, mörg ár síðan ég kom þarna síðast.

Athöfnin var flott, söngurinn fallegur og brúðurin grét í að minnsta kosti einu laganna.

Fyrirtaks matur, frábær kaka frá Almari, skemmtun fram á nótt. Frábærlega vel heppnað brúðkaup hjá frábæru fólki.

Uncategorized

Blásið á pakkið

Verð nú aðeins að blása meira, Borgar Þór sem var aðstoðarmaður Tómasar Inga Olrich og er nátengdur núverandi ráðherra Sjálfstæðisflokks er einn aðalmannanna á bak við Deigluna sem hefur þó verið dugmikil í umræðum varðandi rétt forseta. Borgar er ekki sammála félögum sínum og ræðir það í grein í dag þar sem hann virðist halda að ákvörðun forseta að nota stjórnarskrárbundinn rétt sé að eyðileggja þá grein stjórnarskrár, grafa undan þingræði og veit ekki hvað.

Röksemdin sem taglhnýtingar hamra á sífellt er að lýðræðislega kjörinn forseti megi ekki nota stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að vísa lagasetningu frá þingi til lýðræðislegra kosninga því að það sé brot á þingræði. Þeir bíta höfuðið af algjörri skömm sinni með því að segja að þetta sé aðför að lýðræði í landinu… að lýðræðislega kjörinn embættismaður megi ekki efna til lýðræðislegra kosninga því að það skaðar lýðræðið?

Ríkisstjórnin var aldrei kosin sem ríkisstjórn, flokkar fengu ákveðið fylgi og ákvaðu svo hverjir þeirra myndu mynda ríkisstjórn.

Forsetinn var kosinn sem forseti og er því í lýðræðislegri stöðu en ráðherrar geta nokkru sinni verið.

Auk þess tel ég að ríkisstjórnir hafi yfir höfuð verið á skjön við þrískiptingu ríkisvaldsins. Hvernig geta sömu menn verið framkvæmdavald (ráðherrar) og löggjafarvald (alþingismenn)? Mér hefur alltaf fundist þetta ofboðslega loðið dæmi og ekki batnar það þegar að ráðherra (sem er jafnframt alþingismaður) getur skipað dómara (dómsvald) þvert gegn álitum þeirra sem gefa umsækjendum hæfnismat. Jamm, þetta á við Björn Bjarnason sem er samkvæmt þessu öllu samtímis í dóms-, framkvæmda- og löggjafarvaldi og því frekar tæpur til að kasta grjóti úr sínu glerhúsi að mínu mati.

Sá að Davíð minntist hróðugur á það að enginn hefði andmælt þeirri “athugasemd” hans að forsetinn væri óhæfur til að neita undirskrift vegna fjölskyldutengsla við Baug . Í fyrsta lagi Davíð, þá andmælti enginn þessari setningu þinni þar sem hún var það fáránleg að hún var ekki þess virði að einu sinni endurtaka, hvað þá andmæla. Í öðru lagi, þá er bannað að setja fram lög sem beinast gegn einum aðila, en samt dregur þú engann dul á það að þessu er stefnt gegn fyrirtæki sem hefur gert meira fyrir kaupmátt almennings en aðgerðir ríkisstjórnarinnar undanfarinn áratug. Í þriðja lagi skaltu fara afar varlega með að tala um óhæfi og fjölskyldutengsl, sjá bara hann Björn og frænda þinn hér að ofan svo ekki sé fleira dregið úr beinagrindahvelfingu þinni.

Nýjasta útspilið er svo að heimta 75% kosningaþátttöku, á Alþingi dugar einfaldur meirihluti fyrir samþykki laga, í Alþingiskosningum eru engin takmörk á kosningaþáttöku en allt í einu þegar kosið er um lög þarf að setja prósentu takmörk? Sér enginn annar hvers konar hræsnarar þetta eru? Ummæli Davíðs um einokun fjölmiðla á Íslandi eftir að hafa heimsótt vin sinn Berlusconi sem ER einvaldur fjölmiðla á Ítalíu er svo enn ein beinagrindin í þessari ógnarstóru hvelfingu Davíðs.

Ef ég ætti ennþá flokksskírteini frá Sjálfstæðisflokknum myndi ég glaður afrita það og brenna eitt á dag. Þvílíkur mafíósahópur sem þetta er orðinn.

Þetta apaleikrit hérna heima jafnast fyllilega á við ruglið í Ísrael þar sem ráðherrar fela sig svo ekki sé hægt að afhenda þeim uppsagnarbréf sitt.

Nú bíð ég bara spenntur eftir hertu eftirliti Björns með almenning í landinu, nokkuð sem hefur verið honum mikið kappsmál. Þá lendum við kannski í svona skemmtilegum eða þannig atburðum.

Jæja, ég er að fara í brúðkaup á eftir. Gott að losa sig við svona kjaftæði í smá tíma og samgleðjast heilbrigðu fólki.

Uncategorized

Potter, Griffin og Venus

Fórum í kvöld á Harry Potter 3, fínasta skemmtun, vísa á sérfræðinginn varðandi nánari útlistun.

Kláraði í gærkveldi að lesa Year of the Griffin sem er kilja úr fantasíuheiminum. Fínasta lesning, pínu of fullkominn endir en þetta er lipurlega skrifað.

Núna er bara að fara að fylgjast með í himingeimnum, Venus ætlar að sýna sig eftir nokkra daga og mun víst sjást vel frá Íslandi (ef skýjafar leyfir).

Uncategorized

3100

Björn Bjarnason er magnaður. Ólafur Ragnar átti að ráðgast við ríkisstjórn og útskýra af hverju hann myndi synja lögum. Ætli það hafi átt að gerast á svipaðan hátt og ríkisstjórnin ráðgaðist við þjóðina og skellti svo á hana í miðju samtali?

Að gleðilegri málum. Hvar.is er vefgátt Íslands að alls kyns gagnasöfnum, nú er kominn þar inn nýr tilraunaaðgangur sem leyfir manni meðal annars að leita í The Times frá tímabilinu 1785 til 1985. Ég prufaði þetta með gömlu ritgerðarefni, Cavour og Piedmont, og fékk fullt af áhugaverðum greinum og fréttum sem eru yfir 150 ára gömul. Sagnfræðingurinn í mér alveg slefar yfir þessari gagnalind sem er opin Íslendingum fram að hausti.

Fór í dag og keypti mér nýjan síma þar sem Nokia 5110 síminn er farinn að slappast mjög eftir dygga þjónustu, farinn að slökkva á sér af og til og önnur leiðindi. Hugsa símann sem útskriftargjöf til mín þannig að útskriftargjafir mega bara vera smá fjárframlag upp í símann. Einfaldar allt.

Fékk mér líka minnisbók fyrir árið (7 mánuðir alveg eftir) sem ég stóðst ekki þar sem hún er helguð fornum kortum af heiminum, sem er skemmtilegt framhald af síðasta verkefni sem ég skilaði af mér (smá endurbætur og umsjónarkerfi).

Uncategorized

Loksins eitthvað gagn

Já Björn Bjarnason. Við lifum í lýðræðisríki. Að halda að þingræði geri mann stikkfrían í fjögur ár er mikill misskilningur að mínu mati.

Forsetaembættið hefur alltaf pirrað mig, sameiningartákn hvað? Er Ísland ekki nógu fallegt til að sameina okkur?

Þetta hefur alltaf verið bara stimpilembætti sem er að auki mörgum sinnum dýrara en önnur stimplaembætti. Það að fyrri forsetar hafi aldrei sett sig á móti sitjandi stjórnvöldum og lögum þeirra og að það sé HEFÐ fyrir því að forsetinn sé puntudúkka, þetta hefur pirrað mig ósegjanlega.

Forsetaembættið skal gjöra svo vel og gera eitthvað gagn og það gerði það í dag þegar forsetinn vísaði meingölluðu hatursfrumvarpi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Synd að þetta ráð var ekki notað í fyrri allsvakalega umdeildum málum.

Þetta er sigur lýðræðis ráðherrar, ekki tap þess. Lýðræðið á að vera lifandi en ekki einhver uppvakningur sem fær að opna augun á fjögurra ára fresti og búið.

Uncategorized

Steggurinn eini

Hérna við Þjóðarbókhlöðuna hefur tekið sér bólfestu einn andarsteggur sem syndir um síkin sem eign sína. Einstaka sinnum fær hann tvo félaga sína í heimsókn og þeir hanga hérna sem mest þeir mega, enda fáir svalari staðir til.

Af og til líta dömur við í heimsókn til aðalsteggsins, ég gekk fram á eina slíka þar sem hún trítlaði á undan honum og dillaði rassinum framan í hann. Ég ákvað að ganga rösklega fram hjá enda fátt verra en að eyðileggja sénsa fyrir öðrum. Ég ákvað að líta ekkert til baka þó einhver hljóð hefðu borist frá þeim.