Monthly Archives: August 2003

Uncategorized

Arrrr!

Fórum í kvöld á sjóræningjamyndina. Prýðisgott ævintýri, alvöru popp og kók mynd.

Hér á heimilinu hefur þrýstingur vegna brúðkaups farið stigmagnandi og líkur á að svoleiðis verði haldið á þessum áratug. Hins vegar efast ég um að það verði eins og þetta.

Það kemur mér ekki ýkja á óvart að drykkja sé lykillinn að starfsframa. Þetta útskýrir launaraunir mínar þar sem ég drekk ekki bjór og ósjaldan sleppt því að fara eitthvað og fá sér einn öllara.

Ágúst bendir á grein um áhrif Amelie á tökustaðina, verst að þarna þarf áskrift líklega til að lesa sem og aðrar greinar NY Times. Áskrift er reyndar ókeypis fyrir okkur sem erum utan Bandaríkjanna, ég sé ekki eftir því að hafa skráð mig um árið.

Uncategorized

Af fótboltanum

Já, það kemur manni ekkert svakalega á óvart að 8 manns deyja eða lamast í því sem Ástralir kalla fótbolta (ruðningur). Af 80 leikmönnum sem slösuðust alvarlega hlaut aðeins einn meiðslin í alvöru fótbolta (knattspyrnu).

Setti í dag inn leikjalista Uglanna fyrir þetta tímabil. Sá að svo skemmtilega vildi til að QPR mætir Sheffield Wednesday 29. nóvember. Sá dagur er afmælisdagur pabba sem er einmitt stuðningsmaður QPR. Við ættum kannski að smella okkur á völlinn í tilefni þessa?

Uncategorized

Góð byrjun

Uglurnar hófu leik í 2. deildinni í Englandi í dag. Jú þær eru víst í 2. deildinni þetta tímabil en það er bara svona einnar leiktíðar andleg hreinsun sem er í gangi áður en þær pakka saman þeim deildartitli og halda áfram í úrvalsdeildina aftur.

Að sjálfsögðu var niðurstaðan sigur.

Þar sem konan hélt á ball með Sálinni í kvöld á Selfossi þá bauð pabbi mér í mat. Við komum þarna saman allir 4 bræðurnir og er það alveg einstakt tilfelli. Fiktaði í tölvum heimilisins og kom þeim í betra horf en áður.

Uncategorized

Góð fjárfesting

Fór í dag í Beco og festi þar kaup á hleðslurafhlöðum og hleðslutæki. Rafhlöðurnar eiga að endast 10 sinnum lengur per hleðslu en venjulegar Alkaline-rafhlöður.

Það mátti ekki seinna vera, ég er kominn með hrúgu af Alkaline-rafhlöðum á borðið og ekki eru þær ókeypis. Nú ætti ljósmyndaæðið okkar að fara að ná nýjum hæðum.

Uncategorized

Innbyggða öryggið

Mikið kósýkvöld hjá okkur skötuhjúunum.

Eftir að hafa heyrt fréttirnar af hitunum miklu í Evrópu, mannslátum tengdum þeim og aðvörunum lækna að stunda ekki kynlíf í þessum hita (nokkur dauðsföll vegna þessa) þá fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta væri öryggið sem náttúran hefði sett í okkur mennina.

Í bók (Acts of the Apostles) sem ég las fyrir einhverjum mánuðum var lögð áhersla á einhvers konar öryggi í öreindavélmennum sem búin voru til, það þurfti að búa til þekktan galla í þau til að hægt væri að kippa þeim úr sambandi ef á þyrfti að halda. Kannski hiti og kynlíf sé þessi þekkti galli í okkur mönnunum? Kynhvötin eykst víst í meiri hita samfara líkum á andláti við þá iðju.

Ekki alslæm tilgáta ha? :p

Uncategorized

Mamma er systir mín

Já, hrossaræktendur um allan heim eru víst afar spenntir fyrir þessum fréttum, Horse Clone’s Sister is Mom, Too. Nú sjá þeir fram á að kannski megi afrita Sörla frá Skjóli og Blesa frá Gránu eða hvað þessir topp hestar heita allir. Það þýðir multimilljónir og lengir líftímann sem að má nota þá (og afrit þeirra) til undaneldis.

Uncategorized

Biðraðir eru enn til!

Svei mér þá. Þar sem við áttum í milljónaviðskiptum í fyrra þegar við festum kaup á okkar fyrstu íbúð þá fengum við endurgreiðslu frá skattinum.

Maður þarf víst að leysa ávísunina út í banka og því hélt ég í tvo Búnaðarbanka, í Kringlunni var fullt út úr dyrum og númerið sýndi 30 manns á undan mér. Ég ákvað því að athuga hvort betur stæði í mínum venjulega banka í Kópavogi. Það reyndist ekki svo, 44 manns á undan mér! Þetta tók 45 mínútur áður en röðin kom að mér.

Það var svo langt síðan að maður mætti í eigin persónu til að sinna svona skriffinsku að stúlkan þurfti að benda mér á að ég þyrfti að skrifa undir kvittun. Best að fylla út þessa beiðni sem fylgdi með ávísuninni þannig að þetta fari næst sjálfkrafa á reikning, maður er orðinn of góðu vanur til að standa í svona.

Uncategorized

Bækur og bók

Voðalegt vesen er þetta, maður þarf að fara að brjóta færslurnar niður í kafla er maður er aftur kominn í þennan gír! Byrja á bókadögum og enda á annari bókaumræðu.

Undanfarna daga hef ég lesið tvær síðustu bækurnar í Foundation-sögunni. Forward the Foundation og Foundation and Earth. Eitthvað var Asimov farinn að slappast í lokin en þokkalegasta lesning þó.

Ég las einnig tvær (mun styttri) bækur frá Philip K. Dick. Hef lesið þó nokkrar bækur áður eftir hann og lesið eina B.A.-ritgerð (minnir mig) um karlinn. Að þessu sinni voru það Clans of the Alphane Moon og Ubik sem enduðu í lestrarkistunni. Maðurinn hafði mikla náðargáfu, þvílík steypa en hann nær að troða öllu saman þannig að þetta virðist óskaplega rökrétt og passa vel og flæðið heldur manni við efnið.

Framhaldssögunni er ekki alveg lokið. Þar sem mér finnst fátt verra en að baktala fólk þá lét ég Björn auðvitað vita af færslum mínum. Björn á hrós skilið fyrir að vera netvæddasti stjórnmálamaður landsins og fyrir að sinna því af alvöru og svara fólki, hversu illa sem honum líkar málflutningur þess.

Hann bendir á að hann hafi ekki tekið neina afstöðu með Ann Coulter þar sem hann nefnir bók hennar. Það er vissulega rétt og ég biðst afsökunar á að hafa sett Björn í ból Ann.

Ég benti á móti á það að hann segir að:

Þetta er baráttubók, rituð af sannfæringu, þar sem brotnar eru til mergjar fullyrðingar og afhjúpaðir sleggjudómar

Afhjúpanir verða að vera byggðar á staðreyndum, bókin er hins vegar uppfull af staðreyndavillum. Því er frekar vafasamt að segja að hún brjóti eitthvað til mergjar og afhjúpi, að nefna þetta felur í sér meðmæli þó óbein séu.

Varðandi skot mitt á Björn, Microsoft og íslenskun þá bendir Björn á ræðu sem hann hélt varðandi þetta málefni. Vissulega var vel að verki staðið hjá honum og hans fólki að ná í einhvern hjá Microsoft sem gat samþykkt að íslenska yrði meðal tungumála sem hægt væri að fá Microsoft-vörur á, Microsoft er mikið bákn og langt á milli vinstri og hægri handar. En eftir stendur að ég hef ekki séð enn eina einustu tölvu með íslensku stýrikerfi frá Microsoft? Ég man ekki eftir því einu sinni að hafa séð það til sölu? Fór þarna mikil vinna í ekkert?

Einar minnist á þessi skoðanaskipti okkar og bendir á grein sem hann skrifaði sjálfur um Ann Coulter.

Jæja á nýjum vettvangi getur Björn kannski komið aðskilnaði ríkis og kirkju í gegn… er það ekki?

Verð sem áður að klykkja út með enn einu íhaldsruglinu frá WND (þar sem Ann Coulter er í miklum metum), áætlun múslima að taka Ameríku. Þar má meðal annars nefna fjölda múslimskra lækna, lög gegn hatursáróðri og enga notkun getnaðarvarna meðal múslima (hmmm.. og WND eru einmitt öflugir talsmenn íhaldsmanna sem vilja ekki sjá getnaðarvarnir?).

Uncategorized

Meira af Ann Coulter

Áttum náðugan dag á Selfossi og svo í sumarbústað. Sigurrós skrifar væntanlega um þetta og svo eru myndirnar á leið inn hjá henni bráðlega.

Í framhaldi af færslu gærdagsins er ekki úr vegi að líta aðeins betur á Ann Coulter, hetjuna hans Björns.

Ágætis greining á því sem frá henni kemur, ótrúlegt bullið og óhróðurinn sem hún kemst upp með að láta frá sér.

Varðandi bókina Treason sem Birni finnst greinilega mikið spunnið í þá má lesa hér og hér og hér hvers konar ofboðslegar staðreyndavillur og bull er í bókinni.

Hér má sjá ýmsar “gullperlur” sem hún hefur látið frá sér fara, til dæmis

“I think there should be a literacy test and a poll tax for people to vote.”—Hannity & Colmes, 8/17/99

“I think [women] should be armed but should not [be allowed to] vote.”—Politically Incorrect, 2/26/01

Fátt er þó ótrúlegra en þetta:

We should invade their countries, kill their leaders and convert them to Christianity. (src)

Þetta er fólkið sem Bush hlustar á og greinilega Björn líka.

Sem betur fer eru ekki allir jafn djúpt sokknir í eigin hugarheim og fyrir þennan og næsta pistil sem jós hatri yfir allt og alla var hún rekin en snögglega ráðin af öðrum álíka sjúkum huga. Hér má lesa meira um ruglið sem vellur upp úr henni og fáfræðina sem skín frá henni.

The Boondocks hafa ameríska lausn á því hvernig hægt er að losna við svona ófögnuð.

Svo verður auðvitað að enda færslu dagsins á enn einu gullkorninu sem kemur frá vinum Björns…

Trees cause more pollution than automobiles do.

Ronald Reagan 1981 (src)

Ég vona reyndar að Björn sé ekki eins og ég hef málað hann hér í dag og í gær… en ég óttast að svo gæti alveg verið.

Uncategorized

Björn toppar sig

Nei nú toppar Björn Bjarnason sig eina ferðina enn, honum finnst bók Ann Coulter greinilega alveg frábær og skrifuð “af sannfæringu”.

Hann þreytist seint á því að tala um Sovétríkin og hóp manna sem “gekk erinda þeirra leynt og ljóst”. Eitthvað segir mér að sögubækurnar muni ekki fara mikið betur með Björn sjálfan, eitthvað álíka þessu gæti ég trúað að rataði í sögubækur um okkar daga:

Bandaríkin voru á þessum tíma algjörlega á skjön við alþjóðasamfélagið. Aftökur án dóms og laga voru framkvæmdar af hermönnum og leyniþjónustu þeirra í löndum um allan heim, stríð háð og Sameinuðu þjóðirnar hunsaðar. Eitt þekktasta og valdamesta handbendi Bandaríkjamanna á Íslandi var Björn Bjarnason. Hann var líka einn fárra Íslendinga sem mælt hafa fyrir stofnun íslensks hers.

Það væri freistandi að skrifa meira og tala um milljónagjöf hans til Microsoft (sem í staðinn lét Íslendinga fá meingallað Windows98 sem enginn hefur sést nota nokkru sinni) en ég held að það sé nóg að gera núna bara við að punkta niður hvaða ógn og skelfing streymir frá þessum ráðamanni.

Ann Coulter hef ég minnst á áður, það er kona sem mér finnst líta út eins og plastdúkka en það þykir víst frítt í Ameríku. Útlit hennar skiptir mig engu máli en í Bandaríkjunum er hún vinsæl vegna þess að hún er “fríð” kona sem talar um stjórnmál “af sannfæringu”. Sú staðreynd að hún segir að allir sem ekki styðja forsetann og íhaldsklíku hans í morðfaraldri þeirra séu föðurlandssvikarar vegur líka þungt í klíkum íhaldsmanna. Ann Coulter sér heiminn í svörtu og hvítu, gjörsamlega og algjörlega. Það er því ekki að undra að Björn Bjarnason er hrifinn af “málflutningi” hennar.

Mikið ofboðslega skammast ég mín yfir að hafa einu sinni verið í Sjálfstæðisflokknum og mikið ofboðslega skammast ég mín fyrir að hafa svona ríkisstjórn þó að sjálfur hafi ég ekki greitt henni atkvæði mitt.

Sem betur fer getur maður kúplað sig út úr þessari geðveiki og farið í mat í kvöld og notið langrar helgar.