Nei nú toppar Björn Bjarnason sig eina ferðina enn, honum finnst bók Ann Coulter greinilega alveg frábær og skrifuð “af sannfæringu”.
Hann þreytist seint á því að tala um Sovétríkin og hóp manna sem “gekk erinda þeirra leynt og ljóst”. Eitthvað segir mér að sögubækurnar muni ekki fara mikið betur með Björn sjálfan, eitthvað álíka þessu gæti ég trúað að rataði í sögubækur um okkar daga:
Bandaríkin voru á þessum tíma algjörlega á skjön við alþjóðasamfélagið. Aftökur án dóms og laga voru framkvæmdar af hermönnum og leyniþjónustu þeirra í löndum um allan heim, stríð háð og Sameinuðu þjóðirnar hunsaðar. Eitt þekktasta og valdamesta handbendi Bandaríkjamanna á Íslandi var Björn Bjarnason. Hann var líka einn fárra Íslendinga sem mælt hafa fyrir stofnun íslensks hers.
Það væri freistandi að skrifa meira og tala um milljónagjöf hans til Microsoft (sem í staðinn lét Íslendinga fá meingallað Windows98 sem enginn hefur sést nota nokkru sinni) en ég held að það sé nóg að gera núna bara við að punkta niður hvaða ógn og skelfing streymir frá þessum ráðamanni.
Ann Coulter hef ég minnst á áður, það er kona sem mér finnst líta út eins og plastdúkka en það þykir víst frítt í Ameríku. Útlit hennar skiptir mig engu máli en í Bandaríkjunum er hún vinsæl vegna þess að hún er “fríð” kona sem talar um stjórnmál “af sannfæringu”. Sú staðreynd að hún segir að allir sem ekki styðja forsetann og íhaldsklíku hans í morðfaraldri þeirra séu föðurlandssvikarar vegur líka þungt í klíkum íhaldsmanna. Ann Coulter sér heiminn í svörtu og hvítu, gjörsamlega og algjörlega. Það er því ekki að undra að Björn Bjarnason er hrifinn af “málflutningi” hennar.
Mikið ofboðslega skammast ég mín yfir að hafa einu sinni verið í Sjálfstæðisflokknum og mikið ofboðslega skammast ég mín fyrir að hafa svona ríkisstjórn þó að sjálfur hafi ég ekki greitt henni atkvæði mitt.
Sem betur fer getur maður kúplað sig út úr þessari geðveiki og farið í mat í kvöld og notið langrar helgar.