Monthly Archives: May 2003

Uncategorized

Status quo

Það lítur út fyrir að ríkisstjórnin haldi velli. Ég veit það ekki en mér hugnast það ekki að ríkisstjórn sem reynir sitt besta til að fjarlægjast þegna sína og múlbinda að auki sitji áfram. Það er bara ég en ég kann að meta frelsi mitt og óttast um það undir þessum ráðamönnum haldi þeir áfram á sömu braut. Það er bara örugglega ég… það er ekki eins og þeir handtaki fólk fyrir að vera asískt!

Uncategorized

Umhugsun í kjörklefa

Fór í dag til að kjósa, nú á Kjarvalsstöðum í fyrsta sinn, örstuttur labbitúr. Ákvörðunin var tekin eftir talsverða umhugsun í kjörklefanum.

Stór hluti dagsins og allt kvöldið fóru í að reyna að troða Windows XP inn á nýja flotta turninn hans Kára. Gekk frekar illa, verð að láta Tölvulistann kíkja á þetta, virðist sem diskurinn sé eitthvað undarlegur.

Hann sýndi mikið snarræði flutningabílstjórinn sem dúndraði með 40 tonn af sandi fram af vegkanti til að bjarga lífum annara. Í fréttinni nefnir hann að mikil mildi hafi verið að enginn vegfarandi hafi verið að fara um göngin, það er reyndar ekki alveg rétt. Samstarfskona Sigurrósar átti 3 metra eftir út úr göngunum þegar bíllinn dúndraði niður fyrir framan hana… annars hefði hún lent undir bílnum og sandinum og varla þurft að spyrja að leikslokum þar. Enginn tékkaði hins vegar á því hvort að vegfarandi væri þarna á staðnum.

Uncategorized

Á kjörseðilinn minn

Fer ekki XD eða XB.

Á morgun eru kosningar, ótrúlegur fjöldi ætlar að halda vananum og kjósa flokk sem segir eitt en gerir annað, um er að ræða minn fyrrum flokk, bláu höndina sem einnig er þekkt sem Flokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn.

Ungir sjálfstæðismenn auglýsa að þeir vilji frelsi til áfengiskaupa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í 16 ár í stjórn og ekki komið því í gang.

Það frelsi næst því tæplega með því að kjósa XD, gjörðirnar sýna okkur það.

Ég vil eiga heima í landi þar sem þeim sem minna mega sín er hjálpað, ekki að þeir séu kallaðir aumingjar, hæðst að þeim og þeim rétt lúsarölmusa svona upp á náð og miskunn. Allir eiga að hafa rétt á frábærri heilsugæslu fyrir lítinn pening.

Við mennirnir stofnuðum samfélag því að okkur hugnaðist ekki lögmál frumskógarins. XD þýðir að frumskógurinn vann.

Ég ætla að kjósa á morgun og XD og XB verða ekki á mínum kjörseðli:

  • Lofa frelsi en færa okkur áþján
  • Telja stríð ekki þess virði að spyrja Alþingi
  • Skilja ekki að lögin eiga við um gjörðir þeirra líka
  • Borga vanhæfum stjórnendum tugmilljónir fyrir að reka þá
  • Borga fólkinu sem elur upp æskuna tittlingaskít
  • Ráða fleiri vanhæfa stjórnendur – sökum flokkstengsla og ítaka
  • Ógna málfrelsi og einstaklingsfrelsi Íslendinga og gesta hér á landi

Mér finnst þeir gjörsamlega siðblindir en þar sem það er víst kriterían fyrir því að ná langt í stjórnmálum þá segir það ekki mikið.

Af léttari málum er það að frétta að Sigurrós fór til London í dag með 3 vinkonum úr Kennó. Maður er svo vanur þessum utanlandsferðum eða helgarferðum innanlands að maður er ekkert að pæla í þessu lengur og er sjálfala þannig að allt er í góðu.

Kári fékk svo EVE sem snemmbúna afmælisgjöf frá okkur.

Uncategorized

Ojj bara, skiptið um nafn! segja PETA

Dýraverndarsamtökin PETA (sem eru frekar öfgasinnuð í aðgerðum) hafa boðið bæjunum Hamburg og Fishkill styrki gegn því að þeir skipti um nafn. Fishkill þýðir víst fiskalækur á ensk-hollensku.. lesið meira um þetta undarlega mál á þessum síðum.

Einhver framtaksamur byrjaður að selja ISK (gjaldmiðillinn í EVE) á Ebay. Þetta er víst þekkt í svona netleikjum að fólk selji hluti og gjaldmiðla fyrir alvöru peninga.

Uncategorized

Svalur dagur

Öðru nafni chill dagur, bara dútlað heima, vaskað upp, texti settur á blað fyrir kynningu á DMC og smá EVE spilað.

EVE reyndar er búinn að restarta tölvunni minni og láta mig ganga í gegnum einstaka pirringskast en leikurinn heldur mér samt í heljargreipum. Vona að Matti og félagar reddi þessu á næstu dögum og vikum þannig að maður geti spilað áhyggjulaus.

Kári fékk að prufa og virðist hafa orðið forfallinn líka.

Kosningabæklingar streyma nú inn um lúguna, allir frá XD sem er akkúrat EKKI á dagskrá hjá mér.

Uncategorized

Betaskoðun og EVE

Held að Árni og Guðni hafi mætt í morgunþáttinn til að kynna uppskriftavef. Baggalútur gerir létt grín að þessu kosningabragði þeirra.

Beta-skoðunin gekk þokkalega. Þá er bara að undirbúa lokasýninguna sem verður í fyrirlestrasal fyrir áhugasama.

EVE beið eftir mér í póstinum þegar ég kom heim. Riddari flýgur nú aftur um geiminn, engir drekar hafa sést en slatti af ungmeyjum.

Uncategorized

Kaffiteríurnar hreinsaðar

Pantaði í dag EVE Online sem kemur út á morgun. 20% afsláttur í netverslun Skífunnar, áhugasamir geta pantað hérna og fengið sent heim.

Eftir að hafa pantað fékk ég að vita það að ég verð víst að taka eitt endurtektarpróf. Þá er bara málið að fá 10 út úr því.

Það held ég að margir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna ættu að skammast sín, svona lagað gerir maður ekki. Ekki ein einasta skeið eftir!

Nú á víst að fara að sleppa einhverjum frá svartholinu (í nokkrum merkingum þess orðs) í Guantanamo. Ætli það sé bara “sorry Stína, smá misskilningur” sem mennirnir fá? 18 mánuðir við vondar aðstæður og án sambands við umheiminn og hvað þá lögfræðilega aðstoð. Rumsfeld beint fyrir stríðsdómstól fyrir þessa meðferð á stríðsföngum (víst voru þeir stríðsfangar Rumsfeld minn! Já nei! Ekkert svona bull! Helduru að þú sért Dabbi! Voðalegt munnbrúk er þetta!).

Uncategorized

Írak boðið upp?

Pétur Rúnar benti á þessa skemmtilegu samansettu mynd af John Stockton. Ég á ennþá A3 mynd af honum sem ég bjó til með því að taka svona körfuboltakort og stækka upp í A3 með litljósritunarvél. Held það séu ein 10 ár síðan ég gerði það. NBA var í miklu uppáhaldi þá.

Það er löngu byrjað að skipta Írak upp í litlar gróðalendur bandarískra fyrirtækja. Matvælaaðstoð er varla farin að berast en RIAA eru mættir til að lengja þann tíma sem höfundarréttur gildir (25 ár eru víst ekki nóg eftir andlát höfundar, útgefendur vilja hafa þetta endalaust og tekist það næstum í Ameríkunni).

Svo eru þingmenn að berjast fyrir því að Írak taki ekki upp GSM-kerfið sem nær allar þjóðir nema Bandaríkjamenn nota, þeir eiga víst að nota dótið sem Qualcomm (sem meðal annars bjuggu til póstforritið Eudora) býr til.

Uncategorized

Matarboð

Hélt mig heima í dag við verkefnavinnu, var eitthvað illa fyrirkallaður í maganum í morgun en fór skánandi eftir því sem á leið.

Það var líka eins gott því að Örn og Regína höfðu boðið okkur í kvöldmat til sín. Þar hitti ég aftur Daníel Helga, líklega um ár síðan að ég sá hann síðast held ég bara. Hann mundi auðvitað ekkert eftir mér.

Maturinn var fínn, ísinn með jarðarberjunum enn betri og kvöldið var náðugt og ánægjulegt. Gaman að fara svona og hitta fólk… þetta verður á dagskrá í sumar þegar maður þarf ekkert að velta skóla fyrir sér.

Fyndnast þessa dagana er að sjá ráðherra, þingmenn og aðra frambjóðendur sinna alls konar fáránlegum uppátækjum. Sjálfstæðisflokkurinn sem vill “láta málefnin tala” en hamrar á “stöðugleiki! stöðugleiki!” bauð í dag í bíó á íslenskar kvikmyndir. Ætli það þýði fleiri styrki til íslenskra kvikmynda ef þeir komast aftur að kjötkötlunum?

Á mánudaginn munu svo víst tveir ráðherrar mæta klukkan 7 að morgni í morgunsjónvarpið og þar mun nýtt andlit uppskriftavefs kynnt og Bo Halldórs elda ofan í þá. Ekkert uppátæki er of tilgangslaust til að vekja athygli á sér… ég hefði átt að vera búinn að grípa gæsina og plögga fótboltavefnum! Geri það bara næst.

Uncategorized

Pele mættur

Þetta er fyrsta færslan sem ég set inn af nýuppgerðri heimavél. Kassinn er stór og svartur og eftir talsverða umhugsun varð úr að hann hlaut nafnið PELE eftir samnefndum knattspyrnumanni sem var jú stór, svartur og ótrúlega góður (eins og ég held að talvan sé núna).

Fartalvan er svo aftur Maradona og er lítil og grá og nú um mundir í hægari kantinum og dettur að auki út af og til. Það passar líka.