Monthly Archives: April 2003

Uncategorized

Oz

Í gær bárust fréttir af nokkurs konar andláti Oz sem er nú haldið á lífi af viðskiptabönkum sínum. Fyrirtækið hefur aldrei skilað hagnaði, stofnendur þess segja að þeir hafi verið á undan sinni samtíð og margt sem er að koma fram í farsímakerfum í dag sé árangur starfs þeirra. Mér fannst reyndar alltaf voðalega undarlegt hvað það kom lítið úr þessu fyrirtæki sem virtist hafa úrvals tæknifólk, skildi aldrei lætin í kringum hvað það væri æðislegt þegar það hafði aldrei neitt sem það gat selt.

Í sögu dot-com æðisins verður Oz kannski minnst fyrir einhver frumkvöðlaskref í farsímaheiminum, það eru mörg önnur fyrirtæki sem hafa floppað mun verr.

Uncategorized

Bagdad hernumin

Land persónufrelsis (sem á reyndar ekki við) og lýðræðis (ekki alveg, einhver heyrt um Allende og Pinochet í Síle svo dæmi sé tekið?) hefur nú á hreint frábæran hátt náð að þurrka út fleiri fréttamenn en dæmi eru um síðustu áratugi.

Þessir sómamenn hafa líka náð að slátra íröskum borgurum (sem og öðrum) af miklum móð og eru svo voðalega leiðir yfir því að vera svona vondir og vitlausir en halda áfram samt.

“In the most serious incident, the Afghan Government said 48 civilians – mostly women and children – were killed and 117 injured when a US AC-130 plane opened fire on a wedding party.

A US investigation concluded that the air crew were justified in attacking because they had come under fire.” (src)

Í dag eru svo aðalfréttirnar að hermenn Bandaríkjanna eyða styttum af Saddam og gera loftárásir á matsölustað þar sem grunur lék á að Saddam væri. Tugir óbreyttra matargesta féllu en ekkert er vitað um Saddam.

Ég sem hélt að farið hefði verið út í stríðið vegna gjöreyðingarvopna sem Írakar áttu (en hafa ekki fundist), nei… auðvitað var það til að fella Saddam Hussein! Æ æ æ, þessir Bandaríkjamenn eru orðnir svo margsaga í þessu að enginn man hver síðasta afsökunin fyrir stríðinu var. Hins vegar leikur ekki vafi á raunveruleikanum, þeir hafa drepið hundruð saklausra manna og segjast vera voða leiðir yfir því en svona sé stríð.

Má ég biðja næsta mann sem segir að mannfall óbreyttra borgara sé óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðs, sem hann styður, vinsamlegast að fórna sér í þágu einhvers sakleysingjans. Fyrst að stríðið er svona réttlátt að það réttlæti dauða sakleysingja þá hlýtur að vera minnsta málið að fórna sjálfum sér fyrir málstaðinn og lífi einhvers sakleysingjans. Hvað segið þið annars, Björn, Davíð, Halldór og allir hinir sem styðja “réttlátt” stríð? Hvenær ætlið þið að bjóðast til þess að fórna börnunum ykkar eða sjálfum ykkar á altari hins réttláta stríðs?

Aldrei. Þessir menn eru pappírpésar.

Næsta innrás verður í beinni útsendingu frá Sýrlandi, Rumsfeld segir að þeir séu eitthvað með puttana í Írak og það er auðvitað ekki liðið.

Uncategorized

Próflok

Í dag eru komin fjögur ár hjá okkur Sigurrós.

Prófið í dag gekk þokkalega, gæti meira að segja náð! Bíð rólegur eftir dómsorðinu.

Innrásin stendur enn yfir í Írak. Árásaraðilarnir eru misgrimmir, Bandaríkjamenn virðast mun byssuglaðari en Bretarnir enda flestir yngri og óreyndari en hinir. Fréttamenn láta lífið unnvörpum, flestir af völdum Bandaríkjamanna, nú síðast bombuðu þeir skrifstofu sjónvarpsstöðvarinnar al-Jazeera og skutu á hótel sem hundruð blaðamanna búa á og drápu þar ljósmyndara Reuters.

Það er líka björt framtíðin hjá æskunni sem verið er að frelsa, eða þannig.

Uncategorized

Örsnöggt

Jújú.. próf á morgun.

Hermenn í Írak bera á sér nokkurs konar Babelfish/Star Trek þýðanda sem þeir mæla í á ensku og á að lesa upp arabísku þýðinguna.

Suðurríkjamenn eru frekar óhressir með styttu af Abraham Lincoln sem er verið að reisa.

Skoski dómarinn með ameríska nafnið, hann Hugh Dallas, var að láta af störfum sem alþjóðadómari sökum aldurs, heil 45 árin sem karlinn telur. Hann skrifar nú pistla í The Scotsman um dómarastarfið og sína reynslu af því. Skemmtileg er sagan um síðasta Evrópuleikinn sem hann dæmdi.

Uncategorized

McLaren!

Þetta var skrautleg keppni, fyrstu 6-7 hringirnir keyrðir í öðrum gír á eftir öryggisbíl, menn flutu út af brautinni hægri vinstri og svaðalegur árekstur í lokin stoppaði allt á 55. hring af 71. Öryggisbíllinn hefur sjaldan komið jafnt oft út áður held ég.

Mínir menn hjá McLaren með mun betra tímabil í ár en í fyrra, Räikkonen var dæmdur sigur en grey Coulthard tapaði á því að hafa farið inn í viðgerðarhlé skömmu áður. Maður verður aðeins að benda á Ferrari og hía, þeir voru alvaldir í fyrra en í ár eru þeir seinir í gang. Þetta getur allt breyst snögglega en á meðan að McLaren eru að gera frábæra hluti er heimilisfólk Betrabóls ánægt.

Í dag fórum við í fermingarveislu Bjarka. Þar með er búið að ferma alla úr kynslóð Sigurrósar, næst eru það “krakkar” af hennar kynslóð sem fara að ferma sín börn, nokkur ár í það enn.

Uncategorized

Shanghai Knights

Man ekki einu sinni hvenær ég fór síðast í kvikmyndahús. Poppið er enn óætt en samt kaupa allir það. Ljótu hjarðdýrin sem við erum.

Shanghai Knights var auðvitað frábær skemmtun. Ég tilnefni Jackie Chan til heiðurslistamanns, senunnar engu líkar og “Singing in the rain” atriðið frábært.

Uncategorized

Símabreyting

Mikill verslunarleiðangur í Kringluna í dag, matarinnkaup og símastúss. Færðum ADSL og heimasíma frá Landssímanum til Íslandssíma. Í dag fékk ég svo loksins svar frá Símneti við pósti sem ég sendi 24. mars, sá póstur var ítrekun á öðrum sem var sendur í byrjun mars.

Það er vegna svona lélegrar þjónustu og þess að tengingin deyr nokkrum sinnum á dag sem ég er að færa okkur yfir, að auki fáum við tvöfalt hraðari tengingu á sama verði!

Þegar við komum út frá Íslandssíma sáum við Gumma baða höndunum út að lýsa einhverju spennandi fyrir viðskiptavinum, heyrðum óminn frá honum alveg út að Sock Shop 🙂

Samtök fréttamanna standa fyrir auglýsingaherferð þessa dagana til að minna á mikilvægi þess að þeir séu ekki þaggaðir niður. Auglýsingarnar eru í sjokkerandi stílnum, lifandi fréttamenn sýndir sem dauðir:
Sjónvarpsfréttamaðurinn Christine Ockrent með kúlufar í enninu
Fréttamaðurnn Guillaume Durand skotin til bana
Fréttamaðurinn Emmanuel Chain skorin til ólífis

Uncategorized

Félagsmaður?

Spurningin sem ég er að velta fyrir mér þessa dagana er hvort ég eigi að gerast félagsmaður í tvennum samtökum.

Annars vegar er það Femínistafélagið en ég hef verið á póstlista þar undanfarið.

Hins vegar er það Samfélag trúlausra.

Ég hef reyndar forðast þátttöku í félagasamtökum síðan að ég sá villu míns vegar fyrir 7-8 árum síðan. Hef svo sem ekki mikinn tíma þessa dagana til annars en að senda einstaka tölvupóst þannig að þátttaka mín yrði fyrst um sinn aðeins táknræn.

Þetta er að gerjast.

Próf í morgun, gekk rétt svo þokkalega, vil fá að minnsta kosti 8 þannig að ég fer bara í endurtekt ef mér gekk ekki nógu vel. Smá metnaður svona seinni hluta skólagöngunnar.

Uncategorized

ADSL

Hmmm. Próf á morgun, í strembnari kantinum.

Tengdó fékk sér ADSL í dag. Hún getur víst ekki valið milli þjónustuaðila, bara Síminn sem þjónustar Selfoss enn sem komið er. Hún er búin að vera með 33.6K módem síðan að hún fór í sveitina, alveg skelfilegt á þessum hátæknitímum. Pabbi er næstur í röðinni, það gæti líka tekið ár að koma honum í eitthvað betra…

Ég er aftur á móti að skoða tilboð Íslandssíma, orðinn vel þreyttur á stopulu netsambandi Betrabólsins og fullyrðingum um að allt sé í lagi þegar það er greinilega ekki svo.

Uncategorized

Engin aprílgöbb hér

Einar bendir á síðu með 100 skemmtilegum aprílgöbbum. Mörg í betri kantinum þarna.

Í dag var ég snöggur að benda á aprílgabb annars manns sem reyndi þó að halda því lifandi.

Besta lesningin í dag var þó póstur á Bugtraq-póstlistann þar sem lýst var því hvernig lítill hluti kjósenda gæti kollvarpað kosningum. Skemmtileg pæling.