Tolli benti á þessa mögnuðu sögu frá Bandaríkjunum sem sýnir gjörla hversu langt okkur er að fara aftur í mannréttindum. Það eru svona aðgerðir sem að íslensk lögregluyfirvöld hafa stundað nokkuð lengi, handtökur byggðar á fordómum opinberra starfsmanna.
Textavarpið birti áðan frétt um að átta hermönnum í varaliði ísraelska hersins hefði verið synjað að gegna herþjónustu annar staðar en á Vesturbakkanum, þeir vilja ekki þjóna þar sökum þess að það stríðir gegn samvisku þeirra. Dómurinn sagði meðal annars að:
Í úrskurði Hæstaréttar segir að ekki sé viðurkennt að taka megi tillit til samvisku einstaklinga, slík stefna kynni að losa böndin, sem tengja saman ísraelsku þjóðina, og skaða hagsmuni ríkisins.
Þetta vill Björn Bjarnason fá til Íslands, fleiri kjötskrokka sem að mega ekki hlusta á samvisku sína heldur gera það sem ríkið skipar þeim. Ríkið er ekki fólkið, ríkið eru kerfiskarlar sem að lifa í vel stæðum úthverfum og þurfa aldrei auman mann að sjá. Lögreglan var greinilega ekki nógu fólskuleg í ólöglegum aðgerðum sínum á þessu ári, Björn er æstur í her sem framfylgir skipunum hans manna í blindni, ekki verra að fá liðleskjurnar í Hæstarétti til að geta gúterað það.
Meira af dómstólum, svona ákvarðanir takmarka málfrelsið. Ég veit ekki hvað var sagt og er nokk sama um það í þessu máli, en að dómstóll í einu landi geti ákveðið að þeir hafi lögsögu yfir einhverju sem er birt í öðru landi er afskaplega hæpið og stórhættulegt fordæmi. Við gætum fengið núna hrúgu af kærum frá kínverskum dómstólum vegna frétta okkar af Falun Gong, væri röksemdafærsla ástralska dómstólsins notuð.