Monthly Archives: August 2002

Uncategorized

Þvo þvo þvo

Undur gerðust í dag, það sást til sólar í Reykjavík!

Í Portúgal ku hins vegar sjást til sólar daglega!

Í dag hefur verið þvottadagur, það er betra að eiga hrein föt en skítug þegar lagt er í ferðalag (smá svona húsráð til þeirra sem ekki vita betur).

Áhugavert:

  • Næstum rauntíma yfirlit Boston-flugvallar
  • Wil Wheaton: Europa
  • Uncategorized

    Pakkað niður

    Þá erum við að pakka niður fyrir föstudaginn. Vonandi að rigningin haldi sig í Mið-Evrópu og á Íslandi, svo við verðum ekki fyrir barðinu á henni í verðskulduðu sumarleyfi.

    Uncategorized

    Plönum breytt

    Gerðum í dag nokkuð sem við gerum sjaldan, plönum var breytt á síðustu stundu þegar við stukkum á mjög gott ferðatilboð sem við fengum. Meira um það síðar en hringferðin um Ísland frestast um ár eða svo.

    Fyrir áhugafólk um kýr (mér dettur tvennt strax í hug) bendi ég á þessa síðu þar sem hægt er að fá smákýr sem gæludýr.

    Áhugafólk um steranotkun getur svo lesið um 66 ára gamlan vaxtaræktarmann sem er skuggalegur. Sjálfur er ég ekki fyrir svona lagað.

    Uncategorized

    Boltinn rúllar aftur

    Letikast í dag, horfði á fyrstu 30 hringina í Formúlunni, þá byrjaði leikur Aston Villa og Liverpool á Sýn (sem ég er búinn að segja upp en áskriftin gildir til 5. september og því betra að nýta það eitthvað). Liverpool örlítið betri en ekki munaði miklu, jafntefli hefði verið sanngjörn úrslit en um það er ekki spurt.

    Þá kom leikur Arsenal og Birmingham. Arsenal spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik, í svona formi kemst ekkert lið í hálfkvisti við þá. Aulaleg mistök markvarðar gáfu Arsenal reyndar forystu en það var aldrei spurning hvort liðið var miklu miklu betra. Wenger skipti einhverjum unglingum inná undir lokin á meðan að Steve Bruce skipti að mér sýndist launsyni sínum inná, mikill svipur með Bruce og Carter hinum unga.

    Í kvöld horfðum við svo á síðustu 6 þættina í 8. seríu Friends, eina vitið að horfa á þá svona í törnum, ekkert vit í því að sjá einn í viku.

    Áhugavert:

  • Bannað að spila fótbolta!
  • Uncategorized

    Afmæli og Menningarnótt

    Eftir sundferð í sólskini (en ekki hlýju) var stefnan tekin á Selfoss þar sem við skiluðum tengdó bílnum hennar, sem Sigurrós hafði haft í láni nú í sumar. Við vorum þó aðallega að fara til að mæta í afmælið hans Odds, sem að hélt nú upp á 3 ára afmælið þó hann segði gestum að hann væri 5 ára.

    Þar sem að Mazdan heldur sig innanbæjar vorum við orðin bíllaus en Loftur og Dröfn kipptu okkur með sér í bæinn eftir að hafa fengið það á hreint að við værum siðprúð ungmenni og myndum ekki gera neitt annarlegt í aftursætinu hjá þeim.

    Sigurrós skrapp í innflutningspartý hjá Lenu á meðan að ég setti upp Mozilla, ókeypis vafra sem að er ættaður frá Netscape gamla. Síðast þegar ég prufaði hann var CSS-stuðningurinn frekar veikur, en nú birtast nær allir vefir sem ég skoða alveg eins í IE og Mozilla. Dropdownið hjá Símanum sem að HÍE bjó til virkar reyndar ekki, en dropdown eins og hjá Hugviti virkar í báðum.

    Rétt fyrir miðnætti lét ég svo sjá mig hjá Lenu við mikil fagnaðarlæti. Þaðan fórum við svo niður í bæ, niður á að giska hálfan Laugarveginn. Við snérum svo heim á leið með Berta, á Rauðarárstígnum mættum við hópi á leið niðrí bæ, eitthvað lið sem að Berti þekkti. Í hópnum sýndist mér vera Geir Ág, ráfandi við dós.

    Uncategorized

    Góðar fréttir

    Var að frétta að Fribba og Gústi hefðu eignast stúlku síðastliðin laugardag, fyrir eiga þau son. Hamingjuóskir til þeirra!

    Örn og Regína eru svo að gera tilboð í íbúð, það er svona á mínum aldri, allir að koma sér fyrir og koma sér upp eigin ætt.

    Kláraði í kvöld að lesa Ring of Swords eftir Eleanor Arnason. Bókin vakti athygli mína í sci-fi deild Borgarbókasafnsins vegna eftirnafns höfundar, greinilega af Vestur-Íslendingum komin. Í sögunni kemur jafnframt fyrir skandinavi sem heitir Gislason, og síðasti kafli bókarinnar eru tungumálaskýringar við mál sem að hún býr til, framburðurinn greinilega af íslensku bergi brotinn.

    Sagan sjálf er um það þegar að mennirnir hitta loks aðra tegund, hwahrhatha, sem að flakkar um geiminn. Þeir eru á svipuðu stigi tæknilega en hafa allt öðruvísi þjóðfélag. Þar er mæðraveldi það öflugt að hvatt er til samkynhneigðar og allir karlmenn eru í hernum og haldið sem fjarri heimahögum og unnt er. Þannig losna börnin og konurnar við ofbeldið í köllunum, það er spekin sem liggur þar á bakvið. Því líta þeir með viðbjóði á mennina þar sem gagnkynhneigð er ráðandi og karlmenn lifa á heimilunum.

    Ein af aðalsöguhetjunum er maður sem að er samkynhneigður og lendir í klóm hwahrhatha í njósnaför. 20 ár líða og þá hefst sagan.

    Lipurlega skrifuð bók, með mannfræðilegum og heimspekilegum pælingum. Áhugamenn um kynferðismál, jafnrétti og mannréttindi gætu haft gagn af að lesa um mismunandi viðhorf manna og hwahrhatha til gagnkynhneigðar og samkynheigðar. Aðrir geta lesið bókina bara sem góða skáldsögu og velt sér ekki upp úr pælingunum.

    Uncategorized

    Webalizer

    Það er víst svo að maður er alltaf að vasast í einhverju þannig að yfirferðin yfir liðið ár bíður enn.

    Á meðan að Sigurrós skemmti vinnufélögum sínum í pulsugrillveislu hér að Betrabóli var ég að dunda mér við að setja upp Webalizer, forrit sem að gefur heimsóknartölfræði fyrir vefsetur. Nota WebTrends í vinnunni en það keyrir ekki á Linuxnum og ég vil geta keyrt út skýrslurnar sjálfkrafa þar.

    Uncategorized

    1 ár og 27 ár

    Í dag á ég afmæli og þar með á dagbókin mín líka afmæli. Hún er nú eins árs á meðan að ég er all nokkru eldri. Dagókin er að reynast vel, ég er með gott minni en það er einn galli við það. Það raðar ekki í tímaröð. Fyrir mér er allt sem er búið “um daginn” hvort sem að það eru nokkur ár eða nokkrir dagar. Þegar ég minnist þess að hafa gert eitthvað um daginn kemur fyrir að nákominn aðili snýr sér að mér og segir “það eru þrjú ár síðan!”. Þar mun dagbókin verða ómissandi.

    Undanfarið ár er búið að vera líklega viðburðarríkasta árið hingað til, held að ég geri það upp á eftir…

    Uncategorized

    Trúin flytur skilaboð

    Þetta er 365ta færslan í dagbókinni minni. Ég hef nú haldið dagbók í heilt ár án þess að missa dag úr. Kannski ég grafi upp gullmola og tengi á þá á morgun.

    Slúttaði kvöldinu með því að berja ADSL router litla bróður í gang. Kalli og Kristinn hjá Gagnaflutningsdeild fá þakkir fyrir veitta aðstoð. Til að spara öðrum vesenið setti ég leiðbeiningarnar á netið. Ég gerði reyndar gott betur, þetta var fyrsta færslan á hjálp.betra.is, sem að ég ætla að setja svona fróðleikskorn inn á.

    Plús dagsins fá MS fyrir liðlega þjónustu þegar að smá LGG+ klikk kom upp hjá okkur.

    Það mátti svo sem vita það, eftir smá umræður í gær um kirkjuna þá er ég farinn að fá ruslpóst með spádómum! Er farinn að fá tonn af ruslpósti núna á hverjum degi en aldrei fyrr hef ég fengið spádóma frá spámanni. Þar fordæmir hann vestræn ríki fyrir að vilja gefa eitthvað til Palestínumanna, Palestínumenn réðust víst inn í Ísrael 1917! Sögubækurnar mínar og hans Elijah stemma ekki alveg hvað þetta varðar. Sjá má mynd af kallinum og lesa fleiri snilldarkorn frá honum hérna.

    Áhugavert:

  • Roy Keane er glæpamaður
  • Uncategorized

    Neyðum trúarbrögð?

    Ágúst Flygenring birtir grein á Frelsi.is í dag þar sem hann talar um réttindi samkynhneigðra. Neðst minnist hann á að “enn vill kirkjan ekki kvæna homma og gifta lesbíur.” (heimild).

    Ég held að það sé ekkert skylda kirkjunnar að kvæna homma og gifta lesbíur. Kirkjan er bara enn einn trúarsöfnuðurinn og trúarbrögð eru misfrjálslynd hvað samkynhneigð varðar. Kirkjan er ekki frjálslynd að því leyti. Sjálfur er ég guðleysingi og er nokkuð sama hvað kirkjan vill og vill ekki gera, en að beyta ytri þrýstingi á trúarbrögð til að breyta þeim þannig að þau brjóti ekki í bága við núverandi samfélagsnorm held ég að sé ekki rétta skrefið. Reyndar væri það bara öllum til hagsbóta að kirkjan héldi áfram að vera stíf á þessu, þá myndu fleiri sjá hversu úrelt stofnunin og hugmyndir hennar eru og fara að snúa sér að uppbyggilegri málum (erfðasyndin.. hver sættir sig við að fæðast sekur?) eða umburðarlyndari hreyfingum, til dæmis búddisma sem er heimspekistefna frekar en trúarbrögð.

    Uppfært: Unnur minnist aðeins á þessa færslu mína og nefnir þar að erfðasyndin sé kaþólsk, ekki lúthersk. Á vef kirkjunnar er að finna trúarjátningar lútherskra manna: “að ein sé skírn til fyrirgefningar syndanna (heimild)”. Hvað syndum er verið að skíra börnin frá örfárra mánaða ef ekki erfðasyndina? Óborganleg er svo lögfræðingajátningin þar sem að reynt er að koma á hreinu hverning Guð þríeinn virkar.

    Uppfært aftur: UMB (nú hún vill nota skammstafanir…) ræðir meira um erfðasyndarmálið, sjálfur gríp ég í það hálmstrá að þetta sé allt frekar óljóst hjá kirkjunnar mönnum, svona eins og fleira sem þaðan kemur.

    Enn og aftur uppfært: Unnur svarar smáskotinu með góðum punkti. Ég kalla hana Unni þar sem að það er hluti URL-sins á vef hennar, og hún virðist nefnd það af öðrum netverjum. Sjálfur get ég alveg lifað með því að vera kallaður Jói, JBJ, Jóhannes (í formlegri tilvikum) og jafnvel fyrri tvö nöfnin eða fullt nafn, en aldrei aldrei skal kalla mig Jóhannes Jensson, ekkert er verra en þegar að miðnafninu mínu er stolið! Þetta er reyndar nokkuð sem að ýmsar opinberar stofnanir iðka mjög og er það miður.

    Of oft uppfært: Ágúst virðist lesa mun meira í þessar pælingar mínar en ég setti í þetta, sem er akkúrat það sem að hann sakar mig um. Hann dæmir mig egócentrískan sem að honum er frjálst að gera, en ég held raunar að allir séu egócentrískir þar sem að erfitt er að vera ekki sammála eigin sjónarmiðum (nema þú sért atvinnupólitíkus eins og Vilhjálmur Egilsson sem að greiðir atkvæði gegn eigin sannfæringu og lýsir því yfir). Ágúst les það sem hann vill lesa en ekki það sem stendur, ég talaði um sjálfan mig sem guðleysingja en hann segir að ég kalli mig trúleysingja en ætti að kalla mig guðleysingja… sem ég gerði. Nauðsynlegur aðskilnaður er annað mál já en þarna sést hættan, stefna kirkjunnar og stefna samfélagsins í málefnum ýmissa hópa er ekki sú sama. Varðandi þá sem að eru trúaðir en jafnframt vilja samkynhneigðar giftingar þá geta þeir fylgt gömlum og góðum sið sem að ekki minni menn en Englandskonungar hafa iðkað, að stofna eigin söfnuð, nóg er af þeim. Þeim sem að ofbýður heimska kirkjunnar geta reynt að taka völdin (mjög erfitt) eða stofnað þennan nýja söfnuð (mun einfaldara). Ég virði þá sem trúa, ýmsir mér nákomnir eru trúaðir og ég atyrði ekki Guð þeirra þó ég atyrði kirkjuna og hennar embættismenn.

    Síðasta uppfærsla: Ágúst leiðrétti ruglið með trúleysið og við lukum deginum með tölvupósti. Þetta var hressandi umræða milli aðila sem allir voru með eitthvað í kollinum :p

    Langsíðasta færsla: Óli Njáll kastar steinvölum úr glerhúsi! Reyndar minnir mig að Ágúst hafi sjálfur ritað “gifta lesbíur og kvæna homma” og taldi það vera hótfyndni hjá honum.

    Búið!