Category Archives: Samfélagsvirkni

Samfélagsvirkni Tækni

Menntun, ekki fartölvur

Nú á föstudaginn fékk ég loks til mín nýjustu græju heimilisins, litla græna fartölvu.

Hún var sneggri á leiðinni frá Kaliforníu til Hafnarfjarðar en frá Hafnarfirði og í Kópavoginn. Tollurinn tók sumsé vörureikninginn ekki trúanlegan fyrr en ég hafði sent þeim nokkra pósta um hann. Ekki fengið svar frá þeim annað en að tölvan komst loks til skila.

Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki pantað tvær til að geta prufað netið sem þær spinna á milli sín.

OLPC verkefnið snýst annars um menntun, ekki fartölvurnar sjálfar. Svo segir Nicholas Negroponte, upphafsmaður þessa frábæra verkefnis sem vonandi heldur áfram að dafna.

Samfélagsvirkni

Kársnesið

Það hefur margt gerst í lífi lénsfjölskyldunnar að Betrabóli síðustu vikur og verður því gerð frómari skil síðar.

Það eru hins vegar válegri tíðindi úr heimabænum, var að senda inn mínar athugasemdir vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Kársnesi sem á að gera að stórskipahöfn og vörugeymslu. Ekki alveg hefðbundið hlutverk íbúðahverfa.  Sjá meira á síðu íbúasamtaka Kársness.

Samfélagsvirkni

Nónborgin

Var rétt í þessu að senda mín mótmæli vegna fyrirhugaðra breytinga á skipulagi Nónhæðar og Arnarsmára 32. Þeim sem hafa áhuga á að senda inn sín mótmæli bendi ég á að fara á vefsíðu samtakanna eða blogg-síðu Helga.

Samfélagsvirkni

Hamraborg á Nónhæð

Fengum á mánudaginn fundarboð vegna fundar um tillögu á breytingu á skipulagi Nónhæðar þar sem nú er óbyggt land. Ég ákvað að kíkja á fundinn sem verður á morgun en pældi ekki meira í því. Í dag kom svo dreifibréf þar sem nánar er sagt frá þessum tillögum og bent á vef með upplýsingum um breytingarnar.

Ég leit á tillögurnar til að sjá hvað þar væri að finna og sá mér til mikillar undrunar og skelfingar að nú á að reisa nýja Hamraborg, það á að smella háhýsahverfi inn í mitt íbúðahverfi sem einkennist af tveggja hæða íbúðarhúsum og þriggja hæða fjölbýlum, 14 hæðir skal það efsta vera og það efst á hæðinni. Að auki á svo að pota enn einni blokk í stað verslunarhúsnæðis sem illa hefur gengið.

Ég veit ekki hvern hefði órað fyrir þessu, svæðið var áður frátekið fyrir musteri Baháía og útivistarsvæði en á nú að verða enn eitt steindrumbasvæðið sem skyggir á nágranna sína, þar með talið okkur en mér sýnist að við munum missa um 80% af því útsýni sem við höfum notið.

Borgarafundurinn er á morgun. Ég mæti. Efast um að Garðbæingarnir hinum megin við götuna sem fá þessi ferlíki nærri því ofan á sig hafi verið boðaðir, en þeir ættu að kíkja á þetta, fundurinn er 17:30 í Smáraskóla, fundarstjóri er Smári Smárason skipulagsfulltrúi Kópavogs. 

Samfélagsvirkni

Sýkn nema játað sé

Væging dóms yfir barnaníðingi um daginn vakti skiljanlega athygli og reiði almennings. Lögfróðir menn æstu sig þó allra minnst enda var þarna verið að “jafna refsinguna” við aðra dóma yfir barnaníðingum.

Lögfróðum mönnum finnst fátt sjálfsagðara en að lagabókstafurinn sé hunsaður þegar dómar eru kvaddir upp, í fyrndinni var kveðinn upp léttur dómur fyrir þungar sakir en dómarar nútímans eru ekki menn eða konur til þess að gefa ný fordæmi sem sýni að þessi háttsemi sé litin alvarlegri augum nú en hún var af dómurum fyrri tíðar sem fannst níðingsskapur jafnast á við litlar sakir.

Menn gripu andköf þegar Morgunblaðið birti myndir þessara sporgöngumanna sem milduðu þegar vægan dóm í hlægilegan dóm. Jón Steinar var ekki meðal þeirra en áður en hann varð dómari þreyttist hann aldrei á að fara með möntruna um að sömu glæpum ætti að fylgja sama refsing, sem hljómar eðlilega.

Þar gleymist hins vegar að taka með í reikninginn níðingsvinina í dómarasætum fyrri tíma sem létu ofbeldismenn, níðinga og nauðgara sleppa gífurlega létt.

Dómarar nútímans eru svo bleyður sem eru ófærar um að setja ný fordæmi. Eitt fordæmi um aldir alda. Þingmenn geta lengt refsirammann eins og þeim lystir, það hefur ekki áhrif á dómarana… nema að örlitlu leyti, meðaldómur er nú 1 ár í stað 2, eftir að refsiramminn fór í 12 ár. Kannski náum við 3 ára meðaldómi með því að hækka refsirammann í 24 ár!

Virðing dómstólana var dregin fram af þeim sem hneyksluðust á myndbirtingu Morgunblaðsins.

Virðing dómstólanna ræðst af verkum þeirra, virðingin fyrir þeim er ekki mikil þegar níðingar, nauðgarar og ofbeldismenn varla tylla tám í réttarkerfinu.

Ekki hjálpar til þegar dómstólar viðurkenna ekki lengur að þýfi sé nóg til að sanna sekt, samanber eftirfarandi af Textavarpinu áðan:

Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af 2 þjófnaðarákærum þótt megnið af þýfinu fyndist í bíl hans nóttina sem því var stolið.

Hann var líka ákærður fyrir að hafa stolið 8 flatskjám úr gámi við verslun. Hann var handtekinn um nóttina með skjáina í bíl sínum en ekki þótti sannað að hann hafi stolið þeim.

Þýfi hefur því greinilega horfið af listanum yfir gild sönnunargögn.

Molasykur Samfélagsvirkni

Ekki sitja beinn í baki!

Það er svo að maður hlustar oftar á líkama sinn en einhver boð og bönn. Ég hef stundað það að sitja langt í frá beinn í baki, og nýlegar niðurstöður staðfesta það að það er slæmt að sitja beinn í baki !

Stellingin sem ég hef verið í er mun betri fyrir líkamann, hættið nú að segja börnum að sitja bein í baki!

Fótbolti Molasykur Samfélagsvirkni

Kemur þó hægt fari

Enn einn vináttuleikurinn í kvöld. Núna brá svo við að einn maður tók ábyrgðina á liðsuppstillingu og skiptingum og það sýndi sig að þetta gefst mun betur, við vorum 2-0 yfir í leikhléi.

Eftir leikhlé tókst andstæðingunum að pota einu marki inn eftir nokkrar mínútur, 10 mínútum seinna var svo aukaspyrna fyrir utan teig og hún skrúfaðist neðst í fjærstöngina, markmaðurinn var í boltanum en snúningurinn var of mikill, vel tekin aukaspyrna en svekkjandi mark fyrir okkur. Á 82. mínútu náði svo miðjumaður þeirra að pota sér í gegnum þvögu og sneiða boltann í markið, vel klárað. Þegar 4 mínútur voru eftir æstust leikar þegar að 2 leikmenn úr sitt hvoru liðinu byrjuðu að slást eftir vafasama tæklingu. Þetta leystist upp í skallaeinvígi milli þeirra og að auki var sparkað í andlitið á liggjandi manni. Báðir menn voru leiddir á brott og róaðir niður, og við flautuðum leikinn bara af, ekki gaman að spila þegar kergja er komin í mannskapinn.

Þokkalegur leikur hjá okkur, það er flestallt að batna hjá okkur. Stráklingarnir sem æstu sig í lokin verða að læra það að þó illa sé brotið á manni þá á bara að hunsa það og spila, liðin skildu sátt sem betur fer.

Af öðrum þjóðfélagsmálum þá finnst mér alltaf jafn magnað þegar að sagt er að 66% heillar þjóðar styðji eitthvað, þegar að úrtakið er 800 manns og við miðum við 100% svarhlutfall (sjaldgæft) þá þýðir það að 528 manns mynda meirihluta hjá 15 milljóna þjóð. Það fylgir ekki einu sinni þessari frétt Moggans hvernig úrtakið var valið, samsetning þess í búsetu, aldri og kyni svo bara helstu atriði séu talin til.

Svo ég haldi áfram að berja á fjölmiðlum, og áfram Mogganum (ég les lítið af innlendum miðlum, Mogginn er það óheppinn núna að ég kíkti á hann í dag) þá fannst mér afar áhugaverð þessi frétt, þar sem að fyrirsögnin segir að samverkamenn Bin Ladens hafi verið handteknir, en sjálf fréttin segir að þeir séu GRUNAÐIR um að vera samverkamenn. Sakleysi uns sekt er sönnuð gildir ekki í æsifréttafyrirsögnum að sjálfsögðu.

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar gera mest lítið annað en að þýða (oft illa) fréttatilkynningar frá erlendum fréttastofum, sem margar hverjar lepja það upp eftir stjórnvöldum sem þeim er sagt, en rannsaka ekki málin nánar. Það þarf margt að laga hér á landi, og fjölmiðlar eru þar ofarlega á lista. Nú eða að fólk fari að hætta að trúa í blindni því sem kemur frá fréttastofunum, svo lengi sem við höfum í huga að fréttir eru oftast sagðar frá sjónarhóli einhvers eins aðila, þá förum við ekki að taka þeim sem heilögum sannleik.

Áhugavert lesefni:

Samfélagsvirkni

Lítið

Lítið gert í dag, það helsta var að skrifa fyrstu útgáfuna að bréfinu þar sem ég lýsi yfir óánægju minni með þessi blessuðu lög um Ríkisútvarp og njósnastarfsemi RÚV. Kannski það birtist í Mogganum á næstu vikum.

Samfélagsvirkni

Eilíft peningaplokk

Ekki ætlum við að læra að gera hlutina almennilega. Renndi yfir með öðru auganu yfir hvað var að finna á þessari blessuðu heimilissýningu í Laugardalnum, og sýndist þetta vera frekar klént, og ekki þúsund króna virði.

Aðrir heimilismeðlimir renndu hins vegar við þar með ungviðið í fararbroddi, og sögurnar frá þeim staðfestu þetta mat mitt. Tívolítækin sem fjallað var um voru víst ekki innifalin í aðgangseyrinum, heldur kostaði spes í hvert tæki. Í Fjölskyldugarðinum (sem var innifalinn í aðgangseyrinum) var svo minnst um að vera, sjoppan lokuð og því ekkert ætt að fá, auk þess sem að salerni voru öll lokuð og fólki bent á að hlaupa yfir á kaffihúsið sem er smá spöl frá garðinum. Til fyrirmyndar? Ónei.

Molasykur Samfélagsvirkni

Kvenfólk og stríð

Vefgáttin mín er alveg yndisleg, rakst í dag inná þessa frétt sem segir frá því hvernig ísraelskur hermaður af fegurra kyninu beitti alkunnri taktík kvenna og strippaði til að rugla andstæðinga sína. Getur ekki klikkað (nema andstæðingarnir séu Talebanar). Ef þetta er rétt og satt (sem vafi leikur á) þá er þetta auðvitað málið, endum styrjaldir og strippum!

Í framhaldi af þessum tengli sá ég auglýsingu sem að mér fannst ekki síður merkileg, svo virðist sem að Ísraelsstjórn sé kannski ekki nógu góð við greyið hermennina sína, heldur er sérstakur sjóður rekinn með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra á meðan að á herdvöl stendur.

Stórmerkilegt, annars bíð ég spenntur eftir því að íslensk stjórnvöld setji viðskiptabann á Ísrael. Mér telst svo til að það séu aðallega appelsínur sem að við flytjum inn þaðan, og man ekki eftir neinu sem við flytjum þangað. Þetta hefði því ekki nein stórvægileg áhrif á hvorugan aðila, en táknræn merking ætti að skila sér betur. Fyrst að við vorum fyrstir til að viðurkenna Eystrasaltsríkin, af hverju ættum við ekki að vera fyrstir vestrænna þjóða til að sýna Sharon að við tökum þessa helför hans gegn Palestínumönnum alvarlega.